Fréttir

Winston Churchill var nokkuð viss um að við værum ekki ein

Ritgerð eftir forsætisráðherrann fyrrverandi kemur fram í dagsljósið

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 20:30

Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var viss um að líf væri að finna á öðrum plánetum. Þetta kemur fram í frétt BBC sem greinir frá tilvist rigerðar eftir Churchill þar sem viðfangsefnið var einmitt þetta: Hvort við værum ein í heiminum eða ekki.

Þó að þessi 11 blaðsíðna ritgerð hafi verið til lengi – Churchill lést árið 1965 – er hún nýlega komin fram í dagsljósið. Talið er að ritgerðin, sem bar yfirskriftina Are We Alone in the Universe, hafi verið skrifuð árið 1939 eða skömmu áður en Churchill tók við embætti forsætisráðherra og rétt áður en seinni heimsstyrjöldin skall á af fullum þunga.

Churchill hafði mikinn áhuga á vísindum og tækni og var til að mynda fyrsti breski forsætisráðherrann sem réði sérstakan ráðgjafa í vísindamálum. Þá átti hann reglulega fundi með mörgum af fremstu vísindamönnum Bretlands um miðja 20. öldina þar sem hann fékk fréttir frá fyrstu hendi um framþróun á sviði tækni og vísinda.

Ritgerðin hafði setið á safni í Missouri í Bandaríkjunum í rúm 40 ár þar til hún var dregin fram í dagsljósið fyrir skemmstu. Þó að Churchill dragi ekki miklar ályktanir í ritgerðinni virðist hann hafa talið að jörðin væri ekki eini staðurinn í alheiminum þar sem líf væri að finna. Sagði Churchill að miðað við stærð himingeimsins væru líkur á því að einhversstaðar þarna úti væru réttu skilyrðin fyrir þróun lífs.

Hafa ber í huga að ritgerð Churchill var skrifuð áður en fjarreikisstjörnur, sem eru reikisstjörnur utan okkar sólkerfis, voru uppgötvaðar og áður en maðurinn komst til tunglsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af