Norður-Kóreumenn segja að stríð sé óumflýjanlegt

Stríð á Kóreuskaganum er óumflýjanlegt þökk sé „fjandsamlegum orðum“ Bandaríkjamanna. Þetta kom fram í umfjöllun norðurkóreskra fjölmiðla í gærkvöldi og var vísað í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis landsins.

Í yfirlýsingunni kom fram að stríð væri óumflýjanlegt og það var aðeins spurning hvenær, ekki hvort, stríð brýst út. Grunnt hefur verið á því góða milli Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna að undanförnu vegna tíðra eldflaugaskota yfirvalda í Pyongyang. Þá hafa yfirvöld í Suður-Kóreu og Japan áhyggjur af þróun mála.

Í yfirlýsingunni kom fram að það væri ekki ósk norðurkóreskra yfirvalda að fara í stríð. Norður-Kóreumenn myndu þó ekki hika við að beita gereyðingarvopnum ef Bandaríkjamenn láta reyna á þolinmæði Norður-Kóreumanna.

Umfangsmiklar sameiginlegar heræfingar Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna hafa staðið yfir að undanförnu og hafa þær hleypt illu blóði í yfirvöld í Norður-Kóreu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.