fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Völva DV: Óvinir Guðna forseta

Árið 2018 verður tíðindamikið samkvæmt Völvu DV

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 31. desember 2017 08:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

##Óvinir forsetans

Völvan segir forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, vera hreinskiptinn og heiðarlegan mann sem ætli engum illt. Hann eigi hins vegar öfluga andstæðinga sem hafa ekki sætt sig við að hann hafi unnið forsetakosningarnar og leita að hverju tækifærinu á eftir öðru til að bregða fyrir hann fæti. Þeir fá litlu áorkað í þeim efnum, segir völvan. Hún segist þó sjá úlfúð hjá óvinahernum vegna fundar forsetans við fólk sem telur sig hafa verið blekkt í viðskiptum við bankakerfið. Þar verður hamrað á því að forsetinn hafi farið út fyrir verksvið sitt. Þjóðin verður þó ekki sammála því og málið mun ekki skaða forsetann. Völvan sér eiginkonu hans, Elizu, á miklum ferðalögum sem tengjast mannúðarmálum.

Hneykslismál kringum auðmenn

Nokkrir af auðmönnum Íslands munu rata í fréttir vegna lífsstíls sem er í æpandi mótsögn við líf hins venjulega Íslendings. Völvan sér leiðindahneykslismál hjá tveimur þeirra og afleiðingarnar verða alvarlegar. Þegar blaðamaður vill forvitnast meira um þau mál hristir hún höfuðið og segir að allt muni þetta koma í ljós en þarna muni mikil svikamylla opinberast. Málið verður lögreglumál sem endar með fangelsisdómum.

Nýr biskup

Agnes Sigurðardóttir segir alls óvænt af sér embætti biskups. Fjölmargir prestar líta embættið hýru auga, þar á meðal nokkrar konur, en Geir Waage og Bjarni Karlsson takast hart á um stólinn sem fulltrúar gamalla og nýrra tíma. Bjarni sigrar. Eftir biskupskosningu munu konur innan prestastéttar ræða stöðu sína og þá hörðu gagnrýni sem Agnes fékk oft og tíðum fyrir embættisverk sín. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, en hún er sú að erfitt sé fyrir konu sem er í embætti innan þjóðkirkjunnar að njóta sannmælis. Bjarni Karlsson, hinn nýi biskup, mun taka hraustlega undir þessi gagnrýnisorð kvenpresta.

Fleiri uppljóstranir um kynferðisbrot

Völvan segir að ekkert lát muni verða á sögum um grófa kynferðislega áreitni karlmanna. Þar verði nefnd nöfn nokkurra þekktra karlmanna. Einhverjir þeirra munu harðneita ásökunum en aðrir viðurkenna brot sín. Í leikhúsheiminum verður síðan hulunni svipt af ógnarstjórnun leikstjóra og yfirmanna. Þar er ekki um að ræða kynferðisbrot heldur öskur og niðrandi ummæli í garð kvenna. Á íþróttasviðinu munu koma fram hliðstæðar sögur um framferði karla. Það vekur síðan athygli þegar konur í Sinfóníuhljómsveit Íslands stíga fram og segja sláandi reynslusögur.

Æði meðal ungmenna

Nýtt æði mun ríkja hjá ungmennum landsins síðla vors tengdu hættulegu athæfi. Myndbönd fara í dreifingu á samfélagsmiðlum og foreldrar munu þrýsta á lögreglu að grípa inn í. Útbúin verður herferð á vegum embættismanna sem mun ekki hitta í mark meðal ungmenna. Unglingur mun slasa sig lítils háttar á efri hluta líkamans og verður það til að æðið deyr niður.

Karlmaður á miðjum aldri verður handtekinn við komuna til landsins með ætluð fíkniefni til sölu. Í ljós kemur að viðkomandi var blekktur og fíkniefnin voru í raun bökunarvörur. Í kjölfarið fer af stað umræða hvort glæpsamlegur ásetningur sé grundvöllur til fangelsisvistar eða ekki.

Þórarinn fær viðurkenningu

Ikea á Íslandi mun komast í fréttir vegna gjafmildi til þeirra sem bágt eiga. Í kjölfarið munu önnur fyrirtæki leitast við að gera slíkt hið sama en fá ekki sömu fjölmiðlaathygli og Ikea. Framkvæmdatjóri fyrirtækisins, Þórarinn Ævarsson, fær einhvers konar viðurkenningu á árinu. Ikea-geitin mun lifa góðu lífi um næstu jól. Það verður reyndar gerð tilraun til að kveikja í henni af tveimur pörupiltum sem öryggisvörður mun góma áður en þeir hafa náð markmiði sínu. Völvan sér þá ekki fá neina sérstaka refsingu, aðra en þá að foreldrar þeirra lesa yfir þeim.

Finnur gefur út ljóðabók

Þjóðin heldur áfram að streyma í Costco og völvan skynjar örvæntingu meðal heildsala. Costco hefur til dæmis sett strik í reikninginn hjá Högum og þar verður róðurinn þungur. Það er þó ljós í myrkrinu hjá forstjóranum, Finni Árnasyni, að hann gefur út ljóðabók sem fær prýðisdóma í Kiljunni. Það mun verða forstjóranum áframhaldandi hvatning til afreka á ritvellinum.

LIlja og Sigmundur takast á um RÚV

Þegar talið berst að fjölmiðlum segir völvan að ekkert geti breytt yfirburðastöðu RÚV á þeim markaði. Það verða menn bara að sætta sig við, segir hún ákveðin. Hún segir að á nýju ári munu gagnrýnendur RÚV, aðallega á hægri væng, ekki draga af sér og fréttamenn og starfsmenn RÚV muni verða að þola vaxandi gagnrýni fyrir meintar vinstri áherslur. Nokkrir starfsmanna RÚV taka hraustlega til varnar á opinberum vettvangi en það mun einungis hleypa enn meiri kappi í gagnrýnendur. Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mun koma RÚV til varnar. Innan Miðflokksins og Flokks fólksins eru þingmenn sem skipa sér í hóp gagnrýnenda. Þar á meðal er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem skýtur föstum skotum á fyrrum flokkssystur sína, Lilju Alfreðsdóttur. Verður þetta síst til að sætta þingmenn Framsóknarflokks og Miðflokksins.

Feminískt fjölmiðlaveldi

Nýtt fjölmiðlaveldi verður til, þar verða í einum pakka sjónvarpsstöð, útvarpsstöð og dagblað sem fær nafnið Samtíminn. Meðal eigenda er sterkefnuð kona og mikla athygli vekur að yfirmenn og fréttastjórar samsteypunnar eru að mestu leyti konur. Feminískar áherslur verða áberandi í ritstjórnarstefnu fjölmiðlanna og vekur það blendin viðbrögð.

Völvan segir að fjölmiðlar muni ganga þokkalega á árinu, vegna þess að ríkir menn eru tilbúnir að setja pening í þá. „Það er nú bara eins og er með flesta fjölmiðla hér á landi, þeir myndu deyja án ríku karlanna,“ segir völvan orðrétt.

Mogginn lifir allt af, segir hún aðspurð, og bætir við að hjá DV og Fréttablaðinu muni ganga þokkalega og hún sér flutninga á báðum vígstöðvum. Fréttablaðið flytur í miðbæinn en DV mun verða lengra í burtu. Völvan tekur síðan fram að þeir starfsmenn 365 sem fari yfir til Vodafone þurfi ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni þetta árið en breytingar verði seinna.

Hún segir að nokkuð verði um að blaðamenn flytji sig á milli fjölmiðla og ráðning nýrra yfirmanna veki athygli og komi á óvart. Þegar blaðamaður spyr nánar út í þau mál verður völvan leyndardómsfull og segir að sumt verði að koma á óvart.

Erlendur var myrtur

Blaðamaður spyr um menningarárið 2018. Völvan, sem segist vera mikil áhugamanneskja um glæpasögur og á allar bækur Arnaldar Indriðasonar, segir ekkert lát verða á vinsældum glæpasagnahöfunda þjóðarinnar. Þegar hér er komið sögu tekur hún sér smáhlé frá spádómum til að dásama Arnald og aðspurð segir hún Grafarþögn uppáhaldsbók sína eftir hann. Blaðamaður spyr hvort hún sjái hvort lögreglumaðurinn Erlendur muni aftur skjóta upp kollinum í sögu eftir Arnald. Hún segir að í næstu bók Arnaldar muni líkið af Erlendi finnast og í ljós komi að hann hafi ekki orðið úti heldur hafi andlát hans borið að með saknæmum hætti. Sú uppljóstrun mun komi miklu róti á aðdáendur Erlendar en bókin muni vitaskuld verða metsölubók.

Mistur slær í gegn erlendis

Skáldsaga Ragnars Jónassonar, Mistur, á eftir að njóta sérlega mikillar velgengni erlendis. Skáldið Sjón er að stíga upp frægðarstigann í hinum alþjóðlega bókmenntaheimi og viðurkenning, sem vekur athygli, fellur honum í skaut. Jón Kalman Stefánsson á eftir að fá Nóbelsverðlaun í bókmenntum, en ekki mun það þó verða á allra næstu árum, segir völvan.

Ólafur Jóhann vill ekki lengur vera forstjóri

Ólafur Jóhann Ólafsson lætur af störfum sem forstjóri í Bandaríkjunum. Honum finnst nóg komið af viðskiptastússi og vill breyta til. Hann á eftir að fá starf hér á landi sem tengist pólitík á einhvern hátt. Völvan tekur fram að Ólafur Jóhann sé ópólitískur maður og bætir við að hann sé heilsteyptur maður sem eigi eftir að gera þjóð sinni mikið gagn. Honum mun áfram vegna vel í ritstörfum en bækur hans munu verða þó nokkuð vinsælli í enskumælandi löndum en hér á landi. Í Bandaríkjunum munu hefjast tökur á kvikmynd byggðri á einni af skáldsögu hans. Cate Blanchett verður í einu af aðalhlutverkunum.

Björk fær alþjóðleg verðlaun

Björk fær stór og virt alþjóðleg verðlaun fyrir sitt merka framlag til tónlistarinnar í gegnum árin. Verðlaunin verða veitt á þekktri hátíð sem sjónvarpað er beint frá víða um heim. Þarna verða flestar stórstjörnur tónlistarheimsins samankomnar. Völvan sér Adele syngja á hátíðinni en misstíga sig illa og detta. Það fall mun vekja enn meiri athygli heimspressunnar en verðlaun Bjarkar og verður sýnt hvað eftir annað í fréttum heimspressunnar.

Baltasar Kormákur landar kvikmyndasamningi. Þar er stórmynd á ferðinni með Hollywood-stjörnum. Efni hennar sýnist mér tengjast Íslandi á einhvern hátt, allavega verður hluti hennar tekinn upp hér á landi þegar að því kemur.

Víkingur Heiðar heldur áfram að vinna stóra sigra úti í heimi og við honum blasa alls kyns tækifæri. Samstarf hans við stórstjörnu í hinum klassíska heimi mun vekja athygli.

Kári Egilsson, píanóleikari og tónskáld, sonur Egils Helgasonar, leikur eigin verk á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar og slær rækilega í gegn. Plötusamningur kemur í kjölfarið.

Landsþekkt listakona mun hníga niður í stórafmæli, atvikið verður fest á filmu og fer í dreifingu á netinu. Völvan sér konuna í viðtali stuttu síðar að ræða um breyttan lífsstíl.

Enn ein Eurovision-vonbrigðin

Eurovision-áhugi þjóðarinnar er ekki að dala. Íslendingar munu freista þess að senda lítt þekktan einstakling í Eurovision en við munum eftir sem áður ekki uppskera eins og við sáðum. Það mun valda mikilli gremju meðal margra og háværar raddir heyrast sem krefjast þess að fyrirkomulagi keppninnar verði breytt. „Furðulegt hvað þessi þjóð getur endalaust æst sig yfir þessari keppni,“ segir völvan og dæsir, en sjálf segist hún einkum hlusta á íslensk lög með „almennilegum söngvurum“, eins og hún orðar það.

##Lítill árangur í Rússlandi

Völvan segist ekki vera mikil íþróttakona en býðst þó til að skyggnast inn í íþróttaheim næsta árs. Þar ber vitanlega hæst Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi. Riðillinn er of erfiður fyrir okkar menn, segir völvan og liðið mun ekki komast áfram. Við töpum leiknum við Argentínu 3-0 þar sem Lionel Messi skorar eitt mark. Við vinnum leikinn við Nígeríu og mætum Króatíu í síðasta leik og töpum honum. Hún segir stemningsfulla stuðningsmenn Íslands verða þjóðinni til sóma í Rússlandi og munu þeir vekja mun meiri athygli fjölmiðla en liðið sjálft. Gleðin verður við völd hjá Íslendingum þrátt fyrir tapið.

Völvan segir að Brasilía og Þýskaland muni mætast í úrslitum á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Brasilía vinnur nauman 2-1 sigur þar sem Neymar skorar bæði mörk Brasilíu og verður kjörinn besti leikmaður mótsins.

Heimir kveður

Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðsins, lætur gott heita eftir heimsmeistaramótið. Hann mun hasla sér völl sem þjálfari erlendis. Arftaki hans er erlendur þjálfari sem hefur getið sér gott orð, svipað og Lars Lagerback.

Valur á sigurbraut

Í fótboltanum hér heima mun Valur vinna tvöfalt, verða bæði Íslandsmeistari í karla- og kvennaflokki. Kvennalandsliðið í fótbolta á sér draum um að fara á Heimsmeistaramótið í´Frakklandi árið 2019 í fyrsta sinn í fótboltasögunni. Slæmt tap á heimavelli gegn Þýskalandi gerir þann draum að engu. Handboltalandsliðið mun bíða afhroð á Evrópumótinu í Króatíu.

Ólafía vinnur

Eftir góðan árangur árið 2017 mun Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vinna sitt fyrsta mót sem atvinnukylfingur á LPGA-mótaröðinni. Völvan segir hana hampa titlinum íþróttamaður ársins.

Nýtt skíðasvæði

Áhugafólk um vetraríþróttir mun gleðjast á árinu, fjárfestar munu leita til sveitarfélags um uppbyggingu nýs skíðasvæðis á Vestfjörðum. Áformin verða stórhuga og verða mikil sprauta fyrir efnahagslíf hreppsins. Áform um að reisa krá í brekkunni verða hins vegar gagnrýnd harðlega.

Kínverjar forða heimsstyrjöld

Blaðamaður spyr um heimsmálin og spá völvunnar er nokkuð ógnvekjandi. Heimurinn mun standa á öndinni þegar ekki verður annað séð en að stefni í kjarnorkustyrjöld milli Bandaríkjanna og samstarfsþjóða þeirra og Norður-Kóreu. Mikil skelfing mun grípa um sig víða um heim. Vitnað verður í spádóma Nostradamusar og alls kyns nákvæmar tímasetningar settar fram um heimsendi. „Þarna mun heimsbyggðin lifa erfiða daga,“ segir völvan og andvarpar en bætir við að allt muni þó fara vel. Kínverjar munu stíga inn í deiluna og forða mannkyni frá glötun. Í kjölfarið mun áhugi á öllu því sem kínverskt er aukast svo mjög að minnir helst á æði.

Uppþot hjá Trump

Bandaríkin munu verða þess valdandi að enn frekari glæðum verður blásið í ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það mun ekki vera ISIS sem veldur mestum skaða, enda verða samtökin sigruð á árinu, heldur fámennir hópar ofstækismanna sem hafa orðið fyrir áhrifum af samtökunum og svífast einskis. Völvan sér mikla spennu milli Sádi-Araba og Írans sem mun leiða til frekari átaka í heimshlutanum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun standa keikur af sér allar atlögur stjórnarandstæðinga, fjölmiðla, erlendra ríkja og stofnana sem og gagnrýni frá eigin flokksmönnum. Ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi tengsl Rússa við kosningabaráttu hans. Völvan sér að Trump lýsi því yfir að hann ætli sér endurkjör árið 2020. Trump mun tala á fjöldafundi á vesturströnd Bandaríkjanna sem mun enda í uppþotum þar sem fjölmargir munu slasast.

Hryðjuverk verður framið í Austur-Evrópu og munu spjótin beinast að hælisleitendum. Það verður ekki til þess að bæta andrúmsloftið í álfunni.

Óvenjulegt dýr mun breiða úr sér í heimsálfu þar sem dýrið hefur ekki sést villt áður. Lítið land sem fáir höfðu hugsað um fram að því verður í deiglunni og þjóðhöfðingi landsins mun láta taka mynd af sér með dýrinu. Mun það leiða til umræðu um loftslagsmál.

Háværar raddir munu heyrast á Bretlandi um nýjar kosningar. Skotar munu vilja nýjar kosningar um sjálfstæði og Englendingar munu vilja losa sig við Norður-Írland. Rauðhærður maður verður áberandi í umræðunni í Bretlandi og einn ráðherra mun stíga til hliðar.

Fjölgun hjá kóngafólki

Völvan er mikill aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar. Hún segir að hjónaband Harry Bretaprins og hinnar bandarísku Meghan muni verða einkar hamingjuríkt. Völvan segist ekki sjá betur en þau muni í fyllingu tímans eignast tvíbura, dreng og stúlku sem fær nafnið Díana. Katrín hertogaynja fæðir síðan dóttur á árinu. Hún segir styttast í að einn af toppunum í konungsfjölskyldunni kveðji þennan heim.

Völvan stendur upp, segist ekki hafa orku í fleiri spádóma en segir blaðamanni að koma aftur að ári. Nú er tími til að kveðja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum