fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Hassið hefði ekki fundist við hefðbundna tollafgreiðslu

Aðaláhersla íslenskra tollyfirvalda að stöðva innflutning – Óljóst hvað felist í umræðu um aukið eftirlit með grænlensku smygli

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 24. janúar 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau 20 kíló af hassi sem fundust um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq við leit lögreglu um borð í togaranum aðfaranótt fimmtudags í tengslum við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur hefðu líklega ekki fundist við hefðbundna tollafgreiðslu, að sögn Snorra Olsen tollstjóra. Í umræðunni hefur verið að auka þurfi eftirlit og leit um borð í skipum sem leggja að landi vegna málsins en Snorri segir að íslensk tollyfirvöld leggi aðaláherslu á að koma í veg fyrir innflutning á fíkniefnum til Íslands, en að hafa eftirlit með skipum sem hér eiga leið um með ólöglegan varning. Samtök atvinnulífsins (Sulisitsisut) í Grænlandi hafa viðrað þá hugmynd að farið verði þess á leit við íslensk stjórnvöld að eftirlit og leitir um borð í grænlenskum skipum á Íslandi verði auknar til að koma í veg fyrir fíkniefnasmygl.

Rætt við tollstjórann í Grænlandi

Snorri segir að enn sé allt á huldu um útfærslur þessara hugmynda Sulisitsisut og hann hafi ekki heyrt í þeim. Hann kveðst þó hafa átt símfund með tollstjóranum í Grænlandi og segir að fyrir liggi að farið verði yfir þessi mál og hvort ástæða sé til að grípa til einhverra aðgerða.

„Við erum tilbúnir að ræða slíkt samstarf en aðaláhersla okkar sem íslensk tollyfirvöld er að koma í veg fyrir að menn flytji fíkniefni til Íslands og það sama á væntanlega við í Færeyjum og Grænlands. En ef menn eru að nota landið sem viðkomustað þá reyna menn að grípa inn í ef þeir vita af því.“

Ekkert tékk í hverri höfn

Samhliða þeim voveiflegu atburðum sem urðu til þess að Birna Brjánsdóttir fannst látin á sunnudag, eftir að hafa verið saknað í rúma viku, hefur umræða um fíkniefnasmygl um borð í skipum einnig verið áberandi. Þar furða margir sig á því að skip fullt af fíkniefnum geti legið við höfn hér á landi og skipverjar sem hugsanlega tengist smyglinu valsað hér um. Í mörgum fyrirspurnum vegna málsins sem DV hefur borist er oft nefndur samanburðurinn við flugsamgöngur þar sem eftirlit sé strangt. Snorri segir aðspurður um þetta að um sé að ræða ólíka hluti.

„Skip sem kemur til landsins er almennt tollafgreitt á fyrstu höfn sem það kemur. Þar fer fram sú tollskoðun sem við teljum eðlilega miðað við þær upplýsingar sem við höfum –sem getur verið mjög breytilegt. En eftir að búið er að tollafgreiða þessa aðila þá eru þeir í raun frjálsir ferða sinna. Þeim er heimilt að sigla milli hafna og það er engin ákveðin tollafgreiðsla sem fer fram þegar þeir koma í næstu höfn eða á meðan þeir eru í höfn á þeim stað. Þegar skipið fer frá síðustu höfn er það tollafgreitt aftur. En þess á milli eru menn nokkuð frjálsir ferða sinna. Það er þetta áhættumat sem við þurfum að fara í gegnum hverju sinni, hvaða aðgerðir við teljum að sé við hæfi að fara í.“

Áherslan hér á að stoppa innflutning

Snorri segir þó að aðalforgangur tollyfirvalda tengist innflutningi.

„Við leggjum meiri áherslu á að koma í veg fyrir innflutning á fíkniefnum til Íslands heldur en að hafa eftirlit með því þó að skip sem er á leið framhjá Íslandi, þó það stoppi hérna, sé með einhvern ólöglegan varning. Ef hann er ekki að koma í land hérna. Ég er alls ekki að segja að okkur sé sama, en auðvitað er það svo eins og alls staðar að menn hafa ekki endalausan mannafla til að gera allt. Það er forgangsraðað frekar í það sem er hugsanlega að koma til landsins en það sem er að fara frá landi.“

Hefði líklega ekki fundist

Aðspurður hvort fíkniefnafundurinn um borð í Polar Nanoq hafi komið honum á óvart segir Snorri að svona nokkuð komi mönnum alltaf á óvart, þó það ætti kannski ekki að gera það. En tilgangur leitarinnar um borð í umræddu skipi hafi auðvitað ekki verið að leita að fíkniefnum.

„Ég myndi halda að við hefðbundna tollafgreiðslu hefði þetta ekki fundist, við erum ekki að leita í vörum eða varningi sem raunverulega er verið að flytja milli landa og er hvorki að koma hingað í land eða tala nú ekki um þegar uppruninn er ekki Ísland, þá erum við lítið að skipta okkur af slíkum vörum. Það eru vörur í „transit“, eins og við köllum það og það er auðvitað tollyfirvöld í viðkomandi landi sem þurfa að hafa áhyggjur af því. En við erum í mjög góðum samskiptum við tollyfirvöld í bæði Grænlandi og Færeyjum líka. Það eru miklar siglingar milli þessara landa og deilum upplýsingum, sérstaklega þegar svona mál koma upp. Við förum yfir málin og ræðum hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að svona hlutir séu í gangi.“

En nema að tollyfirvöld hér hafi sterkar vísbendingar eða ábendingar um fíkniefni um borð í skipum í einhverju magni, hvort heldur sem til innflutnings á Íslandi annað segir Snorri að í raun sé ekkert reglubundið tékk umfram það sem áður var nefnt. Það sé ekki nema í undartekningartilfellum, eða að sterkar vísbendingar séu um að þar sé eitthvað að finna, sem það sé ráðist í ítarlega leit.

Eftirspurn eftir hassi á Grænlandi

DV rifjar upp nýleg smyglmál – Leiðin nær alltaf sú sama: Danmörk–Ísland–Grænland
Hass sem Tollstjóri hefur handlagt. Myndin tengist efni greinar ekki.

Hass sem Tollstjóri hefur handlagt. Myndin tengist efni greinar ekki.

Nokkur dæmi eru um að smyglarar hafi verið gripnir af íslenskum tollvörðum við að smygla hassi sem var á leið til Grænlands. Í nær öllum þeim nýlegu tilfellum sem DV fann voru smyglararnir að koma frá Danmörku á leið sinni til Grænlands þar sem greinilega er markaður fyrir hass og eftirspurn nokkur. Togarinn Polar Nanoq hafði einnig verið í Danmörku áður en hann kom til Íslands.

28. apríl 2016Tollstjóri greinir frá því að erlendur karlmaður hafi verið stöðvaður af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vikunni áður. Sex kíló af hassi fundust í fórum hans. Maðurinn var að koma frá Kaupmannahöfn og hafði millilent í Keflavík á leið sinni til Grænlands. Hassið fannst við hefðbundið eftirlit og var pakkað niður með farangri hans.

8. september 2015DV greinir frá því að 27 ára grænlenskur karlmaður er dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa ætlað að smygla 675 grömmum af hassi til Grænlands. Efnin hafði hann falið í fjórum pakkningum í snyrtitösku í ferðatösku sinni sem hann hafði innritað fyrir flug til Nuuk í ágúst 2015.

11. júní 2015DV greinir frá því að Grænlendingur hafi verið handtekinn í Leifsstöð með 1,2 kíló af hassi í ferðatösku sinni. Maðurinn var að koma frá Danmörku 3. júní og átti bókað flugfar til Grænlands sama dag. Sagði hann efnin til eigin nota og mögulegrar sölu í heimalandinu.

5. maí 2015Karlmaður á fertugsaldri var stöðvaður í Leifsstöð með 800 grömm af hassi. Var hann að koma frá Danmörku á leið til Grænlands. Hassið hafði hann falið í möppu, að því er fram kom í tilkynningu Tollstjóra.

19. september 2014DV greinir frá því að karlmaður um þrítugt hafi verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa verið stöðvaður í Leifsstöð með tæplega kíló af hassi í fórum sínum. Var hann að koma frá Kaupmannahöfn á leið til Grænlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum