fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Dega-fjölskyldan er komin heim: „Yndislegt að fá að sjá útsýnið og náttúruna aftur“

Joniada Dega: „Ég er ótrúlega hamingjusöm“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. júlí 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albanska Dega-fjölskyldan, sem vísað var úr landi um miðjan maí síðastliðinn, er komin aftur til Íslands. Þau hafa nú fengið dvalarleyfi til árs í senn, en börnin þurfa að sækja um framlengingu á dvalarleyfi á hálfs árs fresti.
Fjölskyldunni var vísað úr landi af Útlendingastofnun þann 17. maí síðastliðinn eftir um ársdvöl hérlendis, en á föstudag komu þau aftur til Íslands.

„Ég er ótrúlega hamingjusöm, og hamingjan er eiginlega tvöföld, því að fjölskylda mín er komin með öruggan dvalarstað og ég fékk annað tækifæri til að sjá þetta fallega land,“ segir Joniada Dega í samtali við blaðamann DV.

Flúðu heimalandið

Dega-fjölskyldan flúði frá heimalandinu, Albaníu, þar sem þau töldu öryggi sínu ógnað. Fjölskyldufaðirinn, Skënder, var virkur í stjórnmálum en eftir að demókrataflokkurinn sem hann tilheyrði galt afhroð í kosningum 2013 varð staða hans og fjölskyldunnar í Albaníu óbærileg. Til að byrja með sóttu þau um hæli á Íslandi, en síðar breyttu þau umsókn sinni og sóttu í staðinn um dvalar- og atvinnuleyfi. Við þá breytingu fór ferlið á byrjunarreit, en hún var orsök brottvísunarinnar í maí.

Hló af gleði

Fjölskyldufaðirinn fékk tölvupóst í byrjun síðustu viku frá Útlendingastofnun með tilkynningu um að hann ásamt konu sinni og þremur börnum gætu snúið aftur heim til Íslands. „Ég var hjá eldri systur minni og pabbi hringdi í mig með góðu fréttirnar,“ segir Joniada. „Þetta er eitt besta augnablik sem ég hef upplifað. Ég hló bara af gleði, en á sama tíma fannst mér þetta svo óraunverulegt. Við bjuggumst öll við því að þurfa að bíða mun lengur eftir afgreiðslu umsóknarinnar.“ Joniada hafði strax samband við íslenska vini sína sem tóku fréttunum fagnandi. „Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom hingað á föstudaginn var að fara í göngutúr. Það var yndislegt að fá að sjá útsýnið og náttúruna aftur.“

Foreldrar Joniödu, Skënder og Nazmie, hafa nú fengið dvalar- og atvinnuleyfi til árs, og eldri börnin tvö, Joniada og Visar munu bæði hefja háskólanám og hafa fengið dvalarleyfi á grunni þess til sex mánaða í senn.

Kemst aftur undir læknishendur

Eins og DV fjallaði um fyrir brottvísunina hafði eldri sonurinn, Visar, glímt við erfiðan geðrofssjúkdóm, og var í fyrsta sinn farinn að svara meðferð í dvölinni á Íslandi. Læknar hans vöruðu íslensk yfirvöld við því að senda hann úr landi og sögðu að það myndi hafa afar neikvæð áhrif á bataferlið sem hafið var. „Það var mjög erfitt fyrir hann að fara aftur til Albaníu, enda hafði gengið mjög vel hér á landi í meðferðinni. Mamma mín og pabbi sáu um hann allan tímann og hann hafði lyf meðferðis. Nú mun hann aftur komast í samband við sína meðferðaraðila, sem er mikill léttir.“

Hlakkar til að hefja nám

Það er greinilegt á tali Joniödu að hún horfir björtum augum á framtíðina.
„Ég hlakka til að hefja nám í haust í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík og mun leggja alla áherslu á að standa mig vel í því.“

Joniada vill nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hafa komið fjölskyldunni til aðstoðar í ferlinu. Sérstaklega nefnir hún starfsfólk Útlendingastofnunar, menntamálaráðuneytis og Vinnumálastofnunar, starfsfólk og nemendur Flensborgarskóla, Hjördísi Kristinsdóttur og síðast en ekki síst Hildi Þorsteinsdóttur.

Opnaði heimili sitt

„Nú eru þau bara fólk sem vinnur og býr á Íslandi“

Hildur Þorsteinsdóttir kynntist fjölskyldunni fyrst í gegnum sjálfboðastarf Rauða krossins, en upp úr því þróaðist með þeim vinskapur. „Ferlið er allt búið að vera mjög erfitt fyrir fjölskylduna,“ segir Hildur í samtali við blaðamann DV.

„Daginn sem þau fóru af landi brott hafði Flensborgarskóli haldið útskriftarveislu fyrir Joniödu, en formleg útskrift frá skólanum var ekki fyrr en viku síðar. Hún fékk ekki leyfi til að dvelja hér lengur. Ég og dóttir mín keyrðum þau út á völl um nóttina og grétum alla heimleiðina, þetta var svo átakanlegt. Þau ákváðu sjálf að fara um nóttina, því annars hefði lögreglan sótt þau.“

Mikið álag

Hildur segir að álagið hafi verið mikið á fjölskylduna alla fyrir brottvísunina, en minnist sérstaklega á ástand yngri drengsins, Vikens. „Hann var orðinn eins og beinagrind þegar þau fóru. Mér datt bara í hug barn í fangabúðum þegar ég horfði á hann.“

„Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona flókið. Skënder og Nazmie eru þrældugleg og menntuð en gátu ekki framfleytt sér og börnunum í heimalandinu. Hann hafði ekkert gert af sér nema að hafa „rangar“ pólitískar skoðanir, þess vegna var öryggi þeirra ógnað og þau sættu hótunum. Umhverfið í Albaníu er mjög óöruggt og til að mynda algengt að fólk gangi um með byssur. Það vill enginn vita af þeim í Albaníu enda hafa ættingjar þeirra, sem tekst hefur að koma sér úr landi, verið að hjálpa þeim fjárhagslega því ferlið allt hefur verið mjög dýrt.“

Opnaði heimili sitt

Hildur segir að hún og aðrir sem stutt hafa fjölskylduna hafi allan tímann verið viss um að þau mundu snúa aftur heim – til Íslands. „Nú eru þau bara fólk sem vinnur og býr á Íslandi. Þau bjuggu í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar, en eru núna búin að finna leiguíbúð í Hafnarfirði sem þau fá afhenda á næstu dögum. Frá því þau komu hafa þau dvalið heima hjá mér, þau voru á götunni og ég stödd erlendis svo ég opnaði bara heimilið fyrir þeim.

Þau hafa eignast fullt af vinum, enda yndislegt fólk. Ég hringdi í þau á laugardaginn og þá voru þau í kirkju, sem þau hafa sótt hverja helgi. Ég er himinlifandi yfir því að þau séu komin heim.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum