fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Hvað í fjandanum er að þér?“

Umdeildi læknirinn Paolo Macchiarini bað hana að giftast sér

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. febrúar 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Læknirinn Paolo Macchiarini er til rannsóknar hjá sænsku lögreglunni vegna barkaígræðsluaðgerða sem hann framkvæmdi, meðal annars á Andemariam Beyene, sjúklingi sem var búsettur á Íslandi og var við nám í Háskóla Íslands. Paolo er grunaður um margvísleg svik þegar kemur að læknavísindunum og er til rannsóknar, en í nýjasta hefti Vanity Fair er greint frá því hvernig hann sveik og prettaði bandarískan sjónvarpsframleiðanda, Benitu Alexander.
Í Vanity Fair er greint frá ástarsamband hans við Benitu ­Alexander og því hvernig hann bað hennar, sagðist hafa fengið páfann til að gefa þau saman og bauð meðal annars forsetahjónum Bandaríkjanna til vígslunnar. Þegar á reyndi, kom í ljós að hann hafði gabbað Benitu eins og svo marga aðra. Páfinn átti að vera annars staðar á sama tíma og hjónavígslan átti að fara fram auk þess sem Paolo var enn giftur og átti tvö börn með eiginkonu sinni. Benita Alexander hafði sagt upp í vinnunni sinni og boðið hópi fyrirmenna til vígslunnar.

Braut siðareglurnar

Þau Paolo og Benita kynntust þegar hún vann að þættinum „A leap of faith“ fyrir sjónvarpsstöðina NBC ásamt sjónvarpskonunni Meredith Vieira. Þátturinn fjallaði um Paolo og „stórkostlegt framlag hans“ til læknavísindanna. Benita er sjónvarpsframleiðandi, vel liðin og vildi Meredith Vieira, einn ástsælasti fréttamaður Bandaríkjanna, helst vinna með henni, enda þykir hún bæði skynsöm og vandvirkur framleiðandi. Það voru fleiri fréttamenn og sjónvarpsmenn á sömu skoðun. Benita stóð öðrum framar þegar kom að skrifum og framleiðslu sjónvarpsefnis og frétta enda bæði vel menntuð og hokin af reynslu.

Það kom henni í opna skjöldu hversu hrifin hún varð að Paolo strax í upphafi. Fyrrverandi eiginmaður hennar lá þá banaleguna, með heilakrabbamein og hún var óhamingjusöm í seinna hjónabandi sínu. Paolo var skilnings­ríkur, þau fundu bæði fyrir ­sterkum tilfinningalegum tengslum og á einu ári varð samband þeirra mjög náið. Þau fóru leynt með það enda var það, og er, brot á siðareglum NBC að starfsmenn ættu í nokkurs ­konar persónulegu sambandi við þá einstaklinga sem væru til umfjöllunar. „­Paolo var virkilega hjálplegur við að aðstoða mig við að henda ­reiður á tilfinningum mínum,“ segir ­Benita, en hún sagði honum einnig frá því að hjónaband hennar stæði á brauðfótum. „Hann hlustaði á mig klukkustundum saman.“

Tilraunaaðgerðir

Þegar þau kynntust var hann um það bil að fara að framkvæma sérstaklega hættulega aðgerð á Hannah Warren, stúlku sem hafði eytt ­ævinni á sjúkrahúsi í Seoul. Hann ætlaði að græða í hana barka sem átti að bjarga lífi hennar. Hún lést þremur mánuðum eftir aðgerðina og sagði Paolo að það væri vegna þess að líkamsbygging og líffræði hennar hefði verið flóknari en búist var við. „Vísindin og aðgerðin gengu upp, það var synd hvað gerðist. Þegar þú gerir eitthvað í fyrsta sinn er ekki hægt að styðjast við bókina. Þetta var ­erfiðasta ­aðgerð sem ég hef framkvæmt,“ sagði hann. Hann átti ­eftir að gera fleiri erfiðar aðgerðir á tímabilinu, allt tilraunaaðgerðir.

Sjarmör

En Benita féll fyrir sjarma og ­ástúð Paolos. Hún trúði öllu því sem hann sagði, um afrek hans á sviði læknavísindanna, félagsskap hans við helstu þjóðarleiðtoga og trúarleiðtoga og þegar hann sagðist vera sérstakur læknir páfans, trúði hún honum auðvitað. Hann var örlátur, borgaði fyrir allt og lét hana aldrei skorta neitt. Ástarsambandið var komið á fullt löngu áður en tökum á þættinum var lokið en þau reyndu að láta lítið fyrir sér fara. „Ég tók meðvitaða ákvörðun um að segja engum í vinnunni frá sambandi okkar,“ segir hún.

Þegar Benita játaði það loksins fyrir Vieira hvað væri í gangi varð uppi fótur og fit enda óvíst hvernig ætti að höndla það. Þátturinn varð á endanum sendur út og var svo tilnefndur til Emmy-verðlauna. ­Paolo sagði henni að hjónabandi hans væri loksins lokið með skilnaði og bað hennar. Benita hætti hjá NBC og undirbjó flutninga til Barcelona, þar sem Paolo var búsettur. Þau undirbjuggu brúðkaup að miklum móð og ferðuðust um allan heim.

Francis páfi átti að gefa þau saman, boðskort úr lambaskinni voru send á boðsgesti, meðal annars Michelle og Barack Obama, Rússlandsforseti, Vladimír Pútin, var einnig boðinn auk fyrrverandi forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy.
Paolo sagði henni að hann væri læknir Bills og Hillary Clinton, hefði gert aðgerðir á þeim báðum sem og Obama. Hann var mikið í burtu, enda þurftu helstu fyrirmenni heimsins á honum að halda. Brúðkaupið átti að fara fram 11. júlí 2015. Þar sem þau voru bæði fráskilin hefði það átt að vanda málið gagnvart kaþólskum yfirvöldum á Ítalíu, en Paolo hélt að það yrði nú lítið vandamál, hann væri enda ­sérstakur vinur páfans. Hann sagði henni frá fjögurra tíma fundi þeirra þar sem þeir vinirnir hefðu leyst þetta allt saman og ákveðið að veislan yrði á landareign í eigu páfans og þau fengju vagninn hans lánaðan sem brúðarbíl. ­Paolo sannfærði hönnuðinn Matthew Christopher um að hann yrði að hanna brúðarkjólinn, enda yrði brúðkaupið án efa brúðkaup ársins, og jafnvel áratugarins. ­Andrea Bocelli átti að syngja við athöfnina sagði Paolo.

Allt breyttist

Þann 14. maí í fyrra breyttist allt. Félagi Benitu sendi henni blaðagrein og benti henni á að páfinn yrði alls ekki á Ítalíu í júlí eins og hann átti að vera, heldur í Suður-­Ameríku. Nokkrum vikum seinna hafði ­Benita sent fólki, í sautján löndum, tölvupóst og sagt þeim að ekki yrði af brúðkaupinu. Margir höfðu bókað flug og keypt gistingu. Paolo sagði henni að hann gæti ekki verið ábyrgur fyrir bókunarklúðri Páfagarðs, en skyndilega rann allt upp fyrir henni – loksins. Hann reyndi að telja henni trú um að allt yrði í lagi, að hann hefði talið sig vera að gera allt rétt. Þetta myndi allt blessast, páfinn myndi breyta ferðalagi sínu og koma heim snemma.

„Ég hafði ekki viljað leggja tvo og tvo saman,“ segir Benita við Vanity Fair. Hún sendi Paolo bréf þar sem hún sagði meðal annars: „Til ­hamingju. Þú sjarmeraðir mig, ­okkur öll, í la-la landið. Ég mun aldrei skilja hvernig þú gast gert mér þetta. Hver í andskotanum ertu og hvað í fjandanum er að þér?“ Með aðstoð einkaspæjara kom í ljós að um það bil flest sem hann hafði sagt og gert reyndist vera bull og vitleysa. Hann var enn giftur eiginkonu sinni til 30 ára. Þau eiga saman tvo börn og eru búsett í Barcelona.

Umboðsmaður og eiginkona Andreas Boccelli hló þegar hún var spurð hvort hann hefði verið bókaður í brúðkaupið og sagði að Boccelli tæki ekki að sér að syngja í brúðkaupum. Páfagarður sagði að páfinn kannaðist ekki við Paolo, hvað þá að hann hygðist gefa parið saman.

Benita Alexander situr eftir með sárt ennið. Læknisfræðiaðferðir ­Paolos Macchiarini eru enn til rannsóknar. Barkaígræðslur hans voru til umfjöllunar í fréttaskýringar­þættinum Dokument inifrån í sænska ríkis­sjónvarpinu. Hann er þar sagður hafa fegrað ­læknaskýrslur í tengslum við aðgerðirnar.

Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins kom fram að af átta sjúklingum sem undirgengust aðgerðina eru sex látnir en tveir eru þungt haldnir á sjúkrastofnunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum