fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Var tekinn með kannabisverksmiðju sama ár og barnsmóðir sleit öll samskipti

„Ég er ekki vondur maður. Ég er ekki feiminn við þessa fortíð mína. Þetta hefur ekkert með það að gera að hún er dóttir mín.“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. febrúar 2016 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var illa staddur fjárhagslega og var að reyna að bjarga því sem ég gat. Þetta var slæm hugmynd,“ segir Friðgeir Sveinsson, sem hefur nokkrum sinnum skrifað pistla um forræðisdeilu við barnsmóður sína, og hafa þeir birst víða. Þá tjáði Friðgeir sig einnig ásamt Dofra Hermannssyni leikara í Íslandi í dag þann 3. desember síðastliðinn þar sem hann greindi frá baráttu sinni fyrir því að fá að hitta dóttur sína.

Friðgeir hefur ekki fengið að hitta dóttur sína síðan í ágúst 2010, en sama ár, í lok desember árið 2010, var Friðgeir handtekinn þar sem hann var með kannabisverksmiðju í Hafnarfirði.

Í dóminum kemur fram að Friðgeir hafi verið handtekinn 18. desember 2010 í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði og haft í vörslu sinni 90 kannabisplöntur og um tvö og hálft kíló af kannabisstönglum. Var hann sagður hafa ræktað plönturnar um nokkurt skeið. Árið 2011 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.

Umgjörð verksmiðjunnar var nokkuð öflug, en í dómi segir að 18 gróðurhúsalampar, 7 viftur, 1 loftræsibúnaður, 1 kolsýrukútur, 1 vog, 4 tímastillar, 2 sýrustigsmælar, 1 hitamæli, 4 fjöltengi og 1 vatnsdæla, hafi verið gerð upptæk. Þess má geta að gróðurhúsalampar gátu á þeim tíma kostað allt að 32 þúsund krónur.

Friðgeir hefur áður verið dæmdur fyrir hegningarlagabrot, en það var árið 2001 fyrir líkamsárás. Þá gekkst Friðgeir á árinu 2006 undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttinda hjá lögreglustjóra fyrir hraðakstur. Eins var hann dæmdur hinn 12. desember 2007 til greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar fyrir ölvunarakstur.

„Það var kreppa og allt að fara til fjandans,“ svarar Friðgeir þegar hann er spurður út í kannabisverksmiðjuna.
Spurður beint út hvort hann sé í einhverri neyslu sjálfur svarar Friðgeir því til að hann hafi verið edrú frá því hann var á þrítugsaldri, en nú er hann rúmlega fertugur. Hann hafi þó ekki farið í meðferð né sé hann virkur í AA samtökunum.
Sjálfur var Friðgeir í viðtali við Harmageddon í morgun, en þar var hann spurður hvort hann hefði verið dæmdur fyrir hegningarlagabrot.

Þá svaraði hann: „Jájá, ölvunarakstur, ég var gripinn með gras hérna fyrir nokkuð mörgum árum síðan, þetta var ekki mannvonska, eða annað, þetta var bara ungur maður að vera vitlaus. En síðustu ár hef ég gengið um,..“

Spyrillinn truflar hann svo og spyr hvort brotin hafi verið notuð gegn honum, og segir hann að það þýði ekkert að nota þau í þeim tilgangi, þar sem of langt sé um liðið.

Í samtali við DV játar Friðgeir að barnsmóðir hans hafi kært hann fyrir hótanir. Sú kæra hljóðaði þannig, efnislega séð, að Friðgeir á að hafa hótað henni og barni þeirra lífláti. Friðgeir hafnar þessum ásökunum alfarið og bendir á að það hafi aldrei verið ákært í málinu, heldur hafi það verið látið niður falla.

Sjálfur stefndi hann hinsvegar barnsmóður sinni, meðal annars fyrir rangar sakargiftir.

Friðgeir fór síðar í forræðismál við barnsmóður sína í Danmörku en tapaði þar bæði í undirrétti og Hæstarétti. Sjálfur segist hann hafa búist við þeirri niðurstöðu, enda ekki séð dóttur sína eða umgengist hana síðustu sex ár.

Friðgeir hefur aldrei minnst á að sama ár og barnsmóðir hans kom í veg fyrir umgengni hans við stúlkuna, hafi hann verið handtekinn fyrir að reka kannabisverksmiðjuna. Sjálfur hefur hann bæði haldið því fram í Íslandi í dag á síðasta ári, og nú síðast í Harmageddon, að samskipti þeirra hafi snöggversnað þetta ár þar sem hann hafi tekið saman við aðra konu sem er af erlendu bergi brotin.

Spurður hvað hann geri í dag, segist Friðgeir vera sjálfstætt starfandi í fiskiðnaði. Hann sé fisksali, en þó ekki með hefðbundna fiskbúð.

„Ég vinn á erlendum mörkuðum,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni þegar hann er spurður nánar út í starfið. Þannig flytji hann stundum fisk til útlanda.

Friðgeir áréttar að hann hafi ekki verið dæmdur frá árinu 2011. „Og ég hef aldrei verið feiminn við að viðurkenna þetta,“ segir hann í samtali við blaðamann og bendir á viðtalið við hann í Harmageddon. Spurður hvort það væri ekki ósatt að hann hefði verið tekinn með smá gras, heldur 90 plöntur til sölu og dreifingar, svaraði Friðgeir að það hefði ekki gefist tími til þess að útskýra þær aðstæður betur.

„Ég er ekki vondur maður. Ég er ekki feiminn við þessa fortíð mína,“ segir Friðgeir sem endar á að segja: „Þetta hefur ekkert með það að gera að hún er dóttir mín.“

DV hafði samband við aðstandendur barnsmóður Friðgeirs vegna fréttarinnar, en þeir neituðu að tjá sig um málið að svo stöddu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí