fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Samfylkingin ætti að hafa meiri áhyggjur en Björt framtíð

Greina má ákveðnar línur í síðustu skoðanakönnunum – Mögulegt að Sjálfstæðiflokkur hafa átt minna inni hjá óákveðnum en aðrir flokkar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 14. október 2016 13:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Síðustu skoðanakannanir gefa það sterklega til kynna að Björt framtíð sé ekkert að fara að falla af þingi, það er frekar að maður hafi áhyggjur af því í tilfelli Samfylkingarinnar. Samfylkingin er einfaldlega ekkert að ná vopnum sínum. Það virðist vera nokk sama hvað Samfylkingin reynir, hún nær bara engu fylgi. Það er eins og vörumerkið Samfylkingin sé bara laskað en kannski ekkert endilega hugmyndirnar.“ Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Akureyri, í samtali við DV.

Í morgun birti Morgunblaðið skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar á fylgi flokkanna sem bjóða fram til Alþingis. Greina má nokkur tíðindi í könnuninni, sem og síðustu könnunum sem birst hafa. Meðal annars virðist Björt framtíð vera að tryggja sig í sessi yfir 5 prósenta markinu eftir að hafa mælst þar undir um langt skeið. Framboð sem ná yfir 5 prósenta fylgi fá kjörna uppbótarþingmenn, þrjá hið minnsta. Þá eru þau tíðindi í þessari könnun að Vinstri græn mælast nú annar stærsti flokkur flokkur landsins, á eftir Sjálfstæðisflokki. Þó er ekki marktækur munur á fylgi þeirra og Pírata en flokkarnir mælast með 17,7 og 17,5 prósenta fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur að síga

Grétar segir að hægt sé að greina ákveðin mynstur í síðustu könnunum. Þannig virðist Sjálfstæðisflokkurinn, sem í morgun mældist með 21,5 prósent, heldur vera að síga niður á við. Flokkurinn mældist með 22,6 prósent í síðasta þjóðarpúlsi Gallup en þeirri könnun lauk 12. október síðastliðinn. Þá mældist flokkurinn með 22,7 prósent í könnun 365 sem einnig var birt 12. október. „Hann var að mælast með um og yfir 25 prósenta fylgi fyrir þetta viku, hálfum mánuði en mælist nú nær 20 prósentum. Það gæti verið að þetta sé því tengt að fleiri kjósendur séu búnir að ákveða hvað þeir ætli að kjósa og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt minna í óákveðna fylginu. Það er svona tilgáta,“ segir Grétar.

Vinsældir Katrínar skipta miklu

Vinstri græn virðist að vera að festa sig í sessi með um eða yfir 15 prósentustiga fylgi og sem annar eða þriðji stærsti flokkur landsins. Grétar segist telja að þar skipti miklu að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, sé ákaflega vinsæl meðal þjóðarinnar. Þá sé hægt að velta því fyrir sér hvort fylgi flæði nú að einhverju marki fá Pírötum yfir á Vinstri græn en greiningar hafi bent til þess.

Vinsældir Katrínar skipta miklu máli fyrir Vinstri græn.
Vinsæll formaður Vinsældir Katrínar skipta miklu máli fyrir Vinstri græn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óánægjufylgið á ferð

Fylgið er aðeins að rjátlast af Pírötum, telur Grétar. „Þeir hafa verið með töluvert óánægjufylgi í könnunum og maður gat auðvitað alveg búist við því að eitthvað af því færi á aðra flokka. Það má hins vegar ekki gleyma því að Píratar hafa verið mjög lengi stöðugir einhvers staðar í kringum 20 prósentustig. Það ætti því kannski að hafa varann á í spádómum um frekari þróun á fylgi við þá, þó þeir mælist núna í einhverjum 17,5 prósentum. Við þurfum kannski að bíða eftir fleiri könnunum til að sjá hvort þeir sígi eitthvað verulega niður fyrir 20 prósentin.“

Viðreisn höfðar til hægri krata

Kannanir hafa verið nokkuð misvísandi þegar kemur að fylgi við Viðreisn en margt bendir til að fylgi flokksins sé heldur að síga upp á við. „Mér finnst ef ég skoða síðustu kannanir að flokkurinn sé að festa sig í ríflega 10 prósentustiga fylgi og gæti á góðum degi gert enn betur en það. Viðreisn er auðvitað einhverskonar vinstriklofningur út úr Sjálfstæðisflokknum, alþjóðasinnaðri og frjálslyndari. Þeir eru vissulega að taka fylgi þaðan en þeir eru greinilega að höfða til annarra líka, til dæmis frá Samfylkingunni. Það eru þessir hægri kratar, þeir gætu verið að flykkjast á Viðreisn. Það er í það minnsta ljóst að Samfylkingin er ekki að bæta við sig.“

Grétar telur alls ekki víst að formannsskiptin í Framsóknarflokknum muni breyta miklu hvað varðar fylgi flokksins.
Nýr formaður Grétar telur alls ekki víst að formannsskiptin í Framsóknarflokknum muni breyta miklu hvað varðar fylgi flokksins.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ólíklegt að Framsókn vinni á

Framsóknarflokkurinn virðist að mati Grétars vera kominn niður í einhvers konar lágmarksfylgi og breytingar, svo sem eins og úrslit formannskosninga í flokknum, kunni að skipta litlu máli í því samhengi. „Við vitum auðvitað ekki hvernig flokkurinn hefði mælst ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði haft sigur í formannskosningunni en kannski hefði það bara engu máli skipt. Það er gömul saga að Framsókn fái alltaf meira í kosningum en í könnunum en það bendir mjög fátt til þess núna, tveimur vikum fyrir kosningar, að þeir séu að fara að fá einhver 12 til 15 prósent atkvæða eins og einhverjir spáðu fyrir nokkrum vikum. Ég á mjög erfitt með að sjá það gerast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum