fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Íslenskir fjárfestar ætla að vera með þriðjungshlut í Nova

Einkafjárfestar og lífeyrissjóðir hluthafar á móti Pt Capital – ÍV safnar um 2,5 milljörðum í hlutafé

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. október 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskir einkafjárfestar og lífeyrissjóðir munu eignast um þriðjungshlut í Nova þegar ríflega fimmtán milljarða króna sala fjárfestingafélagsins Novator á fjarskiptafyrirtækinu Nova gengur að fullu í gegn á allra næsta mánuðum. Fjármálafyrirtækið Íslensk verðbréf (ÍV), ráðgjafi kaupanda í viðskiptunum, vinnur nú að því að ljúka samningum við innlenda fjárfesta sem ætla að leggja til, samkvæmt heimildum DV, samtals um 2,5 milljarða króna í hlutafé en stór hluti þeirrar fjármögnunar verður í gegnum framtakssjóð á vegum ÍV. Gert er ráð fyrir að þeirri fjármögnun verði lokið fyrir áramót. Íslenskir fjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir, munu þá eiga fjarskiptafyrirtækið ásamt bandaríska eignastýringarfyrirtækinu Pt Capital Advisors sem verður með stóran meirihluta í Nova.

Tilkynnt var um kaup Pt Capital Advisors, dótturfélagi Pt Capital, á Nova síðastliðinn föstudag og sagt að samningar hefðu náðst við Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, um kaup á öllu hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu. Samningarnir væru hins vegar háðir hefðbundnum fyrirvörum en að kaupendur og seljendur væru bjartsýnir á að eigendaskiptin myndu klárast endanlega á næstu mánuðum. Þeir fyrirvarar lúta meðal annars að því, samkvæmt heimildum DV, að Íslensk verðbréf eiga eftir að safna því hlutafé sem ýmsir íslenskir fjárfestar ætla að koma með við kaupin og mun að óbreyttu tryggja þeim um þriðjungshlut í Nova. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig sá hluthafahópur mun líta út en áætlað er að einkafjárfestar verði þar að líkindum umsvifameiri en lífeyrissjóðir. Ekki er útilokað að sú fjárfesting muni í einhverjum tilfellum vera gerð í gegnum Pt Capital Advisors.

Guggenheim fjárfestir

Gísli Valur Guðjónsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá ÍV, vildi í samtali við DV lítið tjá sig um málið umfram það sem fram hefði komið í fréttatilkynningu. Verið væri að ganga frá ýmsum lausum endum, sem fylgir jafnan slíkum kaupum, og sú vinna ætti að klárast á næstu mánuðum. „Nova er gríðarsterkt fyrirtæki og Pt Capital er spennt að starfa með stjórnendum fyrirtækisins og styðja við vöxt þess,“ segir Gísli Valur.

Pt Capital, sem er með aðsetur í Anchorage, Alaska, leggur áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum og er Nova fyrsta fjárfesting félagsins hér á landi. Á meðal þeirra sem hafa sett fjármagn í framtakssjóði á vegum Pt Capital er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Guggenheim Partners en Scott Minerd, framkvæmdastjóri hjá sjóðnum, var á meðal þeirra sem sóttu alþjóðaþing Arctic Circle sem var haldið í Reykjavík í fyrra. Þá voru stjórnendur frá Pt Capital þátttakendur á þingi Arctic Circle sem lauk núna um síðastliðna helgi.

Björgólf­ur Thor Björgólfs­son, stofn­andi Nova, Liv Bergþórs­dótt­ir, for­stjóri Nova, og Hugh S. Short, stofn­andi og stjórn­ar­formaður Pt Capital.
Und­ir­rit­un samn­ings­ins Björgólf­ur Thor Björgólfs­son, stofn­andi Nova, Liv Bergþórs­dótt­ir, for­stjóri Nova, og Hugh S. Short, stofn­andi og stjórn­ar­formaður Pt Capital.

Átta milljarða eiginfjárframlag

Gert er ráð fyrir því að kaupendur að Nova muni leggja til samtals um átta milljarða króna í eigið fé en afgangurinn – um sjö milljarðar króna – verði fjármagnaður með lánsfé sem er búið að tryggja að stærstum hluta frá erlendum banka. Nova hefur alla tíð verið fjármagnað frá grunni með eigin fé og eru kaupin á öllu hlutafé félagsins núna því að hluta til fjármögnuð með skuldsettri yfirtöku. Áætlað er að EBITDA-hagnaður NOVA á þessu ári – afkoma fyrir fjármagnsliði og afskriftir – verði um 2,4 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum DV, sem er um 20% aukning frá fyrra ári. Heildarkaupverðið er sem fyrr segir ríflega 15 milljarðar króna sem þýðir að hlutafé Nova er verðmetið miðað við tæplega sjöfalda-EBITDU í viðskiptunum.

Í tilkynningu var haft eftir Björgólfi Thor að hann sé „afar stoltur“ af uppbyggingu og þeim störfum sem Nova hefur skapað frá því að það tók til starfa í árslok 2007 en félagið er með mestu markaðshlutdeild fyrirtækja á íslenskum farsímamarkaði. „Sú samkeppni, sem fyrirtækið veitti þeim sem fyrir voru á markaði, hefur leitt til lægri farsímakostnaðar og betri þjónustu hér á landi. Það er sérstaklega ánægjulegt að erlendir fjárfestar með reynslu af farsímamarkaði telji góðan kost að taka þátt í íslensku viðskiptalífi. Slík innspýting í íslenskan efnahag er afar mikilvæg.“

Skoða fleiri fjárfestingar

Söluferli Nova hófst síðastliðið vor en fyrirtækjaráðgjöf Kviku fjárfestingabanka var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum. Áhugi fjárfesta á félaginu var afar mikill og á síðari stigum söluferlisins voru, samkvæmt heimildum DV, á bilinu þrír til fimm hópar að bítast um fyrirtækið, að stærstum hluta erlendir fjárfestar. Kaupin marka talsverð tímamót í íslensku viðskiptalífi þar sem erlendur fjárfestir leiðir kaup á stóru óskráðu fyrirtæki á Íslandi, sem er með tekjur í krónum, í stað þess að kaupendahópurinn samanstandi að mestu af íslenskum lífeyrissjóðum, eins og venjan hefur verið á undanförnum árum. Ekki er ólíklegt að fjárfesting Pt Capital í Nova sé aðeins fyrsta fjárfesting félagsins af mörgum hér á landi, að sögn þeirra sem þekkja vel til. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa á undanförnum mánuðum og misserum meðal annars fundað með öllum helstu lífeyrissjóðum landsins og lýst yfir áhuga sínum á að koma að fjárfestingum með þeim í íslensku viðskiptalífi.

Fjárfestingafélagið Novator er stærsti hluthafinn í Nova með tæplega 94% hlut en aðrir hluthafar eru stjórnendur hjá félaginu. Þar munar mestu um Líf Bergþórsdóttur, forstjóra félagsins, og Jóakim Hlyn Reynisson, framkvæmdastjóra tæknisviðs, en þau fara með samtals um 4,6% hlut sem þau eignuðust á sínum tíma á grundvelli kaupréttarsamkomulags. Þau selja hluta af sínum bréfum í viðskiptunum, og innleysa þar með talsverðan hagnað, en munu eftir sem áður vera áfram í hluthafahópnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum