fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
Fókus

Körfuknattleiksstjarnan sem fannst úti í hlöðu

Sveitastrákurinn sem hafði aldrei snert körfubolta orðinn atvinnumaður – Talið líklegt að Tryggvi Snær verði valinn í NBA – Ætlaði að verða bóndi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. ágúst 2017 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannskepnan hefur unun af því þegar hið ósennilega gerist, þegar smálið hafa betur gegn stórliðum í íþróttakeppnum eða þegar íþróttamenn stökkva fram, fullskapaðir úr loftinu og vinna glæsta sigra. Þessu efni hafa oft verið gerð skil í kvikmyndum, til að mynda kvikmyndinni um hnefaleikakappann Rocky Balboa sem Sylvester Stallone túlkaði svo eftirminnilega. Rocky, lítt þekktur áhugaboxari, fær þá óvænt tækifæri lífs síns til að takast á við heimsmeistarann Apollo Creed og vinnur móralskan sigur þó að heimsmeistaranum sé dæmdur sigurinn. Íþróttamaðurinn sem enginn þekkti rís til hæstu metorða og öðlast frægð og frama.

Til eru ýmsar þjóðsögur um slíka sigra í íþróttaheiminum en sjaldnast er nú sagan alveg jafn klippt og skorin og af er látið. Þó eigum við Íslendingar nú íþróttamann hvers saga er helst farin að líkjast Hollywood-kvikmynd. Tryggvi Snær Hlinason, 19 ára gamall sveitastrákur úr Bárðardal, sem hafði varla snert körfubolta fyrir þremur og hálfu ári er nú á leið með landsliðinu í lokakeppni Evrópumótsins í Finnlandi, er búinn að semja við Spánarmeistara Valencia um að leika sem atvinnumaður með liðinu næstu ár og taldar eru verulegar líkur á að hann verði valin í NBA-nýliðavalinu á næsta ári og verði þar með aðeins annar Íslendingurinn í sögunni til að spila í langsterkustu körfuknattleiksdeild í heimi. „Sagan mín er sérstök, það er líklega alveg rétt,“ segir bóndasonurinn úr Bárðardalnum, sem „fannst úti í hlöðu og fór í atvinnumennskuna“, í viðtali við DV.

Framfarir Tryggva hafa verið með ólíkindum

Tryggvi Snær Hlinason

Undrabarnið úr Bárðardalnum

Fæddur 28. október 1997.

Er 216 sentimetrar á hæð.

Bóndasonur úr Svartárkoti í Bárðardal.

Byrjaði að æfa körfubolta í janúar 2014 með Þór á Akureyri.

Samdi við Spánarmeistara Valencia til fjögurra ára í sumar.

Talinn líklegur til að verða valinn í nýliðavali NBA á næsta ári.

Er á leiðinni á Evrópumótið í Finnlandi með íslenska landsliðinu.

Svartárkot fallegasti staður landsins

Tryggvi er alinn upp í Svartárkoti í Bárðardal, fallegasta stað á landinu að hans sögn. Svartárkot er innsti bær í dalnum, í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli, og langur vegur að fara í næsta þéttbýli. „Fjölskyldan mín býr þar með um 450 vetrarfóðraðar kindur en stundar alls konar aðra vinnu samhliða búskapnum. Fyrir utan þessi hefðbundnu sveitastörf rekur fjölskyldan mín gistiheimili í dalnum, Kiðagil, og svo tínist ýmislegt til, önnur ferðaþjónusta og þjónusta við rannsóknir til dæmis.“

Tryggvi segir að uppvöxturinn í Svartárkoti hafi verið ljúfur, það hafi verið forréttindi að alast upp í sveit. „Ég gekk auðvitað til allra verka með foreldrum mínum, í gegningar, heyskap, smalamennsku og svo framvegis, ég tók þátt í þessu öllu eins og flest börn til sveita gera nú. Ég er heimakær og stoltur af minni sveit, þar líður mér vel.“

Hafði aldrei æft íþróttir

Tryggvi gekk í grunnskólann á Stóru-Tjörnum og þurfti að fara með skólabíl um klukkutíma leið til að komast þangað. Hann segist hafa verið orðinn mjög fær í að sofa báðar leiðirnar. Tryggvi segir að hann búi að því að hafa unnið heima við og hreyft sig alla tíð í sveitastörfunum. Hann stundaði íþróttir í skólanum en ekki með skipulögðum hætti. „Ég æfði aldrei körfubolta þótt ég hafi kannski skotið eitthvað smá á körfu í íþróttatímum. Ég hafði því aldrei æft skipulega neina íþróttagrein þegar ég flutti til Akureyrar og hóf námið. Ég fylgdist ekki einu sinni neitt sérstaklega með körfubolta, ég fylgdist með landsliðunum þegar verið var að sýna leiki í sjónvarpinu og helst handboltanum.“

„Held ég sé hættur núna“

Tryggvi er 216 sentimetrar á hæð og hefur alla tíð verið stór. Spurður hvort það hafi verið erfitt að vera svona hávaxinn unglingur, og þá ekki síst varðandi það að fá föt sem pössuðu, gefur Tryggvi lítið fyrir það. Það hafi alltaf reddast og núna á seinni árum sé orðið auðvelt að panta af netinu. Hann segist alltaf hafa verið hávaxinn og vaxið jafnt og þétt. „Ég var alltaf aðeins hærri en hinir strákarnir en þeir hættu að vaxa og ég hélt áfram. Ég held nú samt að ég sé hættur núna,“ segir Tryggvi glottandi um alla sína 216 sentimetra.

Tryggvi segir að það komi vel til greina að flytja heim í Bárðardalinn, fallegasta stað á landinu að hans sögn, og hefja búskap eftir að körfuknattleiksferlinum lýkur.
Gæti vel hugsað sér að verða bóndi Tryggvi segir að það komi vel til greina að flytja heim í Bárðardalinn, fallegasta stað á landinu að hans sögn, og hefja búskap eftir að körfuknattleiksferlinum lýkur.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Kemur vel til greina að verða bóndi

Tryggvi fór að loknum grunnskóla til náms við Verkmenntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem rafvirki auk stúdentsprófs síðasta vor. Tryggvi segir að partur af ástæðunni fyrir því að hann valdi rafvirkjann hafi verið að það nám myndi nýtast vel í sveitinni heima í Svartárkoti. „Það var partur af því, já. Pabbi er svona maður sem getur gert nánast allt en þó er hann síst fær í rafmagni. Það er heimarafstöð heima í Svartárkoti og rafmagnsframleiðslan þar er því stór partur í búskapnum. Þekking á því var kannski það sem helst vantaði upp á en á sama tíma hafði ég bara mikinn áhuga á rafvirkjun þannig að þetta fór saman.“

Stóð til að fara aftur heim eftir nám, í búskapinn?
„Ég var nú svo sem ekki með plan um það, ég lifði bara í núinu þannig. Hugsunin var einfaldlega að fara í skóla og klára nám og finna svo út úr framhaldinu. Hugmyndin var síðan að ná í meiri menntun síðar en það er gjörbreytt núna. Núna snýst lífið bara um körfuboltann.“

Ætlaðir þú að verða bóndi, þegar þú varst strákur?
„Auðvitað. Þetta var það sem ég ólst upp við og sveitalífið er alveg geggjað líf, að alast upp í sveit er held ég besta uppeldi sem hægt er að fá. Þannig að já, ég ætlaði að verða bóndi, og svo auðvitað kóngur og svona sem börn vilja verða,“ segir Tryggvi og jánkar því að vel kæmi til greina að gerast bóndi þegar körfuknattleiksferlinum lýkur.

„Já, sannarlega. Mig langar að þéna þannig á ferlinum að ég geti tryggt mig fjárhagslega til framtíðar. Sveitalífsstíllinn er svo góður, frelsið og að lifa lífinu, það heillar mjög. En það er langt inni í framtíðinni núna og það er nú svolítið erfitt að svara þessu. Ég reyni að lifa bara í núinu, ég er að fara út til Spánar í haust og það er það sem ég einblíni á núna.“

„Þú sagðir mér að mæta í húsið. Hvaða hús eiginlega?“

Rataði ekki á fyrstu æfingu

Tryggvi bjó á heimavist á Akureyri fyrstu tvö árin sín í framhaldsskóla en bjó síðan hjá frænku sinni í bænum. Hann mætti á sína fyrstu körfuboltaæfingu í janúar 2014, hjá Þór á Akureyri. „Ég ætlaði mér alltaf að byrja að stunda einhverjar íþróttir þegar ég færi til náms en var svo sem ekki búinn að ákveða hvað það ætti að vera. Mig langaði samt alltaf í körfubolta, ég hafði mestan áhuga á honum. Ég var hins vegar að jafna mig af einkirningasótt þarna um haustið 2013 og það er ekki gott að hefja miklar æfingar á slíkum tímapunkti þannig að ég frestaði því fram yfir áramótin. Fyrsta æfingin var nú dálítið skrautleg, satt að segja. Ég mætti í Hamar, Þórsheimilið, en þar var mér sagt að þar væru engar æfingar enda er húsið ekki íþróttahús. Mér var sagt að fara upp í Síðuskóla sem er þarna talsvert ofar í Þorpinu, en þar æfði meistaraflokkur. Ég var auðvitað bara gangandi á þessum tíma og gekk upp í Síðuskóla en þar var engin æfing. Það endaði með því að ég hringdi í Bjarka, þjálfarann, því ég vissi ekkert hvert ég átti að fara næst. „Þú sagðir mér að mæta í húsið. Hvaða hús eiginlega?“ spurði ég. Ég gekk síðan út á næstu bensínstöð og þangað kom Bjarki keyrandi og sótti mig. Strákarnir sögðu mér að þeir hefðu ekki skilið neitt, hann hefði bara farið út og komið með þennan stóra strák með sér til baka, tuttugu mínútum of seint. Strákarnir urðu mjög hissa við að sjá mig, svona risastóran strák ganga í salinn. Ég þekkti náttúrlega engan en ég kynntist þeim fljótt.“

Gat ekki neitt

Tryggvi segir að hann hafi ekki gert neinar rósir á sinni fyrstu æfingu, með strákum sem sumir hverjir höfðu æft íþróttina í áratug og létu boltann dansa í kringum hann. „Ég var spenntur og stressaður. Ég kunni svona einföldustu reglur en var ekki með allt á hreinu. Ég gat auðvitað ekki neitt þegar ég byrjaði en ég var fljótur að ná þessu og bæta mig, bætti mig í raun bara jafnt og þétt. Ég byrjaði síðan sumarið eftir að æfa með meistaraflokki og spilaði með þeim strax veturinn eftir. Ég fékk mjög sterk viðbrögð strax, ég var auðvitað svona stór og það eru ekki margir svona stórir strákar í körfunni. Mjög fljótt fann ég að ég vildi ná árangri, komast áfram og í landsliðið.“

Á einni helstu spásíðunni sem fjallar um NBA-körfuboltann er því spáð að Tryggvi verði valinn í nýliðavali deildarinnar á næsta ári. Ef af verður yrði hann aðeins annar Íslendingurinn til að spila í þessari sterkustu deild í heimi, á eftir Pétri Guðmundssyni.
Á leið í NBA? Á einni helstu spásíðunni sem fjallar um NBA-körfuboltann er því spáð að Tryggvi verði valinn í nýliðavali deildarinnar á næsta ári. Ef af verður yrði hann aðeins annar Íslendingurinn til að spila í þessari sterkustu deild í heimi, á eftir Pétri Guðmundssyni.

Mynd: Gunnar Sverrisson

Bikarleikur gegn KR minnisstæður

Tryggvi fór upp úr fyrstu deildinni og upp í úrvalsdeild með Þórsurum sem unnu fyrstu deildina vorið 2016. Hann spilaði síðan með liðinu á síðustu leiktíð. Tryggvi segir viðbrigðin hafa verið töluverð. „Það eru betri leikmenn í úrvalsdeildinni en svo er alvaran líka miklu meiri, það var kannski það sem maður fann fyrir. Það var stórt skref að stíga en mjög mikilvægt fyrir klúbbinn, og auðvitað mig. Ég hefði getað gert betur á tímabilinu, ég var enginn stjörnuleikmaður. En ég bætti mig mjög mikið í fyrravetur og ég er sáttur við það.“

Spurður hver sé minnisstæðasti leikurinn hér heima nefnir Tryggvi bikarleik gegn Íslandsmeisturum KR árið 2015, þegar Þórsarar voru enn í fyrstu deildinni. Þar átti Tryggvi ótrúlegan leik, skoraði 20 stig og tók 14 fráköst, nánast óþekktur leikmaðurinn. Það dugði þó ekki til og KR-ingar höfðu nauman sigur með þremur stigum. „Þetta var stærsti leikurinn sem ég hafði spilað, við vorum í neðri deild og vorum alveg grátlega nálægt að vinna Íslandsmeistarana,“ segir Tryggvi og nefnir líka að leikirnir gegn Tindastóli hafi verið mjög skemmtilegir þar sem barist var um Norðurlandið.

Fór eftir sínu plani

Mikil umræða var um Tryggva meðal körfuboltaáhugamanna í fyrravetur og margir sem lýstu þeirri skoðun að hann ætti ekki að bíða með að koma sér út, ýmist í atvinnumennsku í Evrópu eða í háskólaboltann í Bandaríkjunum. Það væri sóun að hann eyddi tíma sínum í deildinni hér heima. Tryggvi segir að hann hafi vissulega orðið var við umræðuna. „Mér var alveg sama. Ég var bara á mínu róli, búinn að setja mér markmið og fór eftir því plani. Ég ætlaði líka að klára námið áður en ég færi út. Ég held að ég hafi spilað þetta rétt. Sjálfsagt væri ég betri í einhverjum þáttum leiksins ef ég hefði farið út í fyrra en það er langbest að lifa bara í núinu og vera ekki að velta sér upp úr ef og hefði. Ég er sáttur.“

Tryggvi segir að hann hafi skoðað fleiri möguleika en að ganga til liðs við Valencia áður en af því varð. Í raun hafi hann fyrst aðallega horft til þess að fara til Bandaríkjanna í háskólaboltann þar og ná í menntun í leiðinni. „Þegar ég síðan var fyrst valinn í A-landsliðið þá hitti ég þessa stráka alla sem leika og hafa leikið í Evrópu og þeir lýstu kostum þess fyrir mér. Sumir höfðu líka verið í háskólaboltanum og höfðu því samanburðinn. Þá kviknaði á þessu hjá mér. Ég fór og skoðaði skóla í Bandaríkjunum og skoðaði líka lið í Evrópu. Þegar síðan áhuginn kom svona sterkur frá Valencia þá eiginlega var það alveg borðleggjandi.“

„Ég horfði á þessa stráka þá og hugsaði með mér: Þetta ætla ég að gera, ég ætla á Evrópumótið“

„Mig langaði að vinna þetta helvítis mót“

Í júlí síðastliðnum tók Tryggvi ásamt liðsfélögum sínum í undir 20 ára landsliðinu þátt í Evrópukeppninni í körfubolta. Það var öllum sem á horfðu ljóst að Tryggvi ætlaði sér að ná langt í mótinu og var mjög ákveðinn. Það enda fór svo, liðið komst í átta liða úrslit en tapaði þar fyrir ógnarsterku liði Ísraels, sem síðan fór alla leið í úrslitin. Tryggvi átti gríðarlega gott mót og var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins að því loknu. Hann vakti mikla athygli á mótinu en njósnarar fjölmargra liða úr bandaríska NBA-boltanum voru meðal þeirra sem fylgdust með mótinu. Nú rétt á dögunum birti ein virtasta spásíðan á netinu, DraftExpress, þá spá sína að Tryggvi verði valinn í nýliðavali NBA á næsta ári, hann er þar settur í 49. sæti. „Ef það gerist, þá fer ég auðvitað,“ segir Tryggvi en samningur hans við Valencia er til fjögurra ára. „Ég held samt að lykillinn að þessu sé að fara út til Valencia og taka í það minnsta eitt ár þar, það er byrjunin. En markmiðið er auðvitað að komast í NBA-boltann.“

En aftur að Evrópukeppni U-20 liða í júlí síðastliðnum. Þrátt fyrir að Ísland hafi náð sínum besta árangri frá upphafi í mótinu og þrátt fyrir velgengni Tryggva er augljóst að hann er ekki alveg sáttur. Spurður hvort hann hafi ætlað sér að fara lengra játar hann því. „Ég ætlaði ná lengra, mig langaði að vinna þetta helvítis mót. Alla vega að komast í verðlaunasæti. Við lentum hins vegar á móti mjög sterku liði Ísraela og við náðum bara því miður ekki að klára þá og leikirnir eftir hann báru ansi mikinn keim af þeim vonbrigðum.“

Þarf að bæta sig í öllu

Tryggvi samdi, sem fyrr segir, við Spánarmeistara Valencia skömmu eftir að Evrópumótinu lauk. Hann segist setja sér raunsæ markmið, hann viti að hann sé ekki að fara að ganga inn í liðið. Raunar mun Tryggvi fyrsta kastið leika með b-liði Valencia í þriðju efstu deild. Hann mun hins vegar æfa með aðalliðinu einnig. „Markmiðið er að brjóta sér leið inn í það lið sem fyrst. Planið er að æfa mikið og standa mig og þá kemur allt hitt, trúi ég.“

Spurður hvað hann þurfi að bæta í sínum leik svarar Tryggvi einfaldlega: „Allt. Ég þarf að auka snerpuna og hraðann, leikskilninginn, já, í raun á öllum sviðum. Ég er auðvitað hávaxinn, eins og komið hefur fram, og ég hef bætt mig mikið en það er margt eftir enn.“

Það verða mikil viðbrigði fyrir Tryggva að flytja út til stórborgar í landi þar sem hann talar ekki tungumálið og umhverfið er allt annað. Sem betur fer fyrir sveitastrákinn úr Bárðardalnum hefur hann stuðning, félagi hans mun flytja út með honum. Sá er þó ekki að fara út til að spila körfubolta heldur ætlar hann bara að læra spænsku og láta framhaldið ráðast. Það er auðséð að Tryggvi er feginn því að hafa andlegan og félagslegan stuðning á bak við sig.
„Ég held að það verði mér mjög mikilvægt að hafa einhvern með mér þarna út, sem í versta falli er hægt að fara og gráta í þegar illa gengur en gleðjast með þegar vel gengur. Það væri leiðinlegra að koma heim í tóma íbúð alla daga.“

Ber enga virðingu fyrir neinum inni á vellinum

Tryggvi er á leiðinni út til Finnlands með A-landsliðinu á Evrópumótið núna í byrjun september og mikil spenna framundan. Hann segir að þegar hann byrjaði að æfa körfubolta hafi hann fljótt sett sér háleit markmið. Árið 2015 tók íslenska landsliðið þátt í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti. Þá hafði Tryggvi æft körfubolta í rúmlega eitt og hálft ár. „Ég horfði á þessa stráka þá og hugsaði með mér: Þetta ætla ég að gera, ég ætla á Evrópumótið.“

Þrátt fyrir ævintýrlega sögu, mikla velgengni, umtal og athygli er Tryggvi alveg rólegur og heldur sér niðri á jörðinni. „Ég held bara áfram með mitt og sanna mig með því.“
Heldur sér á jörðinni Þrátt fyrir ævintýrlega sögu, mikla velgengni, umtal og athygli er Tryggvi alveg rólegur og heldur sér niðri á jörðinni. „Ég held bara áfram með mitt og sanna mig með því.“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Tryggvi vann að því markmiði leynt og ljóst og var fyrst valinn í landsliðið árið eftir, 2016. Hann var síðan valinn áfram og tók þátt í undankeppninni fyrir Evrópumótið en Ísland tryggði sig inn á það með glæsibrag í september í fyrra, með sigri á Belgum.
Hvað ætlarðu að gera á mótinu núna?
„Bara allt sem ég get. Við ætlum að koma þarna inn með stæl og fyrsta markmiðið er auðvitað að komast upp úr riðlinum. Svo eru alls konar minni markmið sem ég er að setja mér. Ég er að fara að takast á við mjög stóra leikmenn, nánast í fyrsta skipti, og ég ætla mér að hafa betur. Þetta eru stór nöfn í körfuboltaheiminum, menn sem ég ber virðingu fyrir en ég er ekki hræddur við að takast á við neinn þeirra. Inni á vellinum kemur ekkert annað til greina en að gefa sig allan í leikinn og þá ber ég enga virðingu fyrir neinum. Það mun ekkert lið vaða yfir okkur, við ætlum að gefa okkur alla í þetta og ná árangri.“

Smalamennska gæti stöðvað foreldra

Tímasetning Evrópumótsins er afleit fyrir ættingja Tryggva hvað varðar að þeir geti komist út til að fylgjast með en sauðfjárbændurnir foreldrar hans verða á fullu í haustverkum, smalamennsku og fjárragi. „Þetta er afleitur tími. Þau eru búin veltast yfir þessu heillengi og eru í algjöru basli með að velja. Ég veit ekki hvort þau komast og ég skil það fullkomlega ef þau geta það ekki. Aðra helgina í mótinu, 9. til 10. september, eru fyrstu göngur í Svarfaðardal þaðan sem pabbi er ættaður og hefur smalað í áratugi. Það er það eina sem hann missir aldrei af og hann er í tómum vandræðum karlinn, skiljanlega.“

„Ég ætlaði ná lengra, mig langaði að vinna þetta helvítis mót“

Löng bið eftir réttu númeri

Tryggvi hefur spilað í treyju númer 15 með Þór en það númer er upptekið hjá landsliðinu þar sem Pavel Ermolinskij spilar í þeirra treyju. Tryggvi segir að hann stefni að því að fá númerið með tíð og tíma en það gæti orðið löng bið því liðsfélagi hans, Martin Hermannsson, er næstur í röðinni á undan. „Ég held að Martin sé ekkert að fara neitt strax,“ segir Tryggvi hlæjandi en Martin er aðeins tveimur árum eldri en Tryggvi og einn okkar albestu körfuknattleiksmanna. Því spilar Tryggvi í treyju númer 34 og segir að það sé virðingarvottur við Pétur Guðmundsson, eina Íslendinginn sem hefur spilað í NBA-körfuboltanum.

Er ekkert að stressa sig

Saga Tryggva er sannarlega ævintýraleg, strákurinn sem var „fundinn úti í hlöðu og fór í atvinnumennsku í körfubolta“ eins og hann orðar það sjálfur glottandi. Tryggvi segir að margir hafi grínast með að það þurfi að mynda eða skrifa söguna. „Ég held að það sé í vinnslu háskólaverkefni þar sem fjallað er um mig og svo stendur hugsanlega til að búa til einhverja litla mynd, skilst mér. Ég segi bara já já við þessu en hugsa lítið um það. Ég einbeiti mér bara að því sem ég er að gera. Ég er ekkert að stressa mig á hlutunum, ef einhver er að rífa sig eitthvað úti í bæ er mér alveg sama um það. Ég held bara áfram með mitt og sanna mig með því.“

Evrópumótið hefst á fimmtudaginn

Í annað skiptið í röð leikur íslenska liðið í lokakeppni
Þessir menn láta engan vaða yfir sig

Þessir menn láta engan vaða yfir sig

Ísland leikur fimm leiki í A-riðli Evrópumótsins í körfuknattleik sem hefst 31. ágúst. Þetta er í annað skiptið í röð sem íslenska liðið kemst í lokakeppni Evrópumótsins. Enn eru til miðar á leikina og hægt að nálgast upplýsingar þar að lútandi hjá Körfuknattleikssambandi Íslands. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt sýnir RÚV alla leiki Íslands en þeir eru sem hér segir:

  1. ágúst 19.30 Ísland – Grikkland

  2. september 16.45 Pólland – Ísland

  3. september 16.45 Frakkland – Ísland

  4. september 16.45 Ísland – Slóvenía

  5. september 23.45 Finnland – Ísland

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinkonurnar gerðu skelfileg mistök í hópspjalli

Vinkonurnar gerðu skelfileg mistök í hópspjalli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Typpið Júmbó var helsta stolt Bandaríkjaforseta – Vippaði því reglulega út og notaði til að þagga niður í blaðamönnum

Typpið Júmbó var helsta stolt Bandaríkjaforseta – Vippaði því reglulega út og notaði til að þagga niður í blaðamönnum
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla“

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mistök að veita Britney frelsi, segir geðlæknir – „Hún er stjórnlaus“

Mistök að veita Britney frelsi, segir geðlæknir – „Hún er stjórnlaus“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hætti að drekka áfengi fyrir 5 árum

Hætti að drekka áfengi fyrir 5 árum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gerði ótrúlega uppgötvun á Íslandi – Segir gestgjafa hennar hafa hlegið þegar hún spurði að þessu

Gerði ótrúlega uppgötvun á Íslandi – Segir gestgjafa hennar hafa hlegið þegar hún spurði að þessu