Fókus

Tom of Finland: Andlegur langafi leðurhommanna

Þorsteinn Bachmann leikur útgefanda erótísks hommablaðs í sannsögulegri mynd um einn frægasta Finna í heimi

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 7. október 2017 16:00

Þótt nafnið Tom of Finland hringi ekki endilega bjöllum hjá borgarastéttinni er óhætt að fullyrða að þessi finnski leðurhommi hafi haft geysileg áhrif á nútímamenningu með margvíslegum hætti. Nafn hans hefur smátt og smátt skipað sér sess við hlið Múmínálfanna og Iittala sem ein helsta útflutningsvara Finna en kvikmynd byggð á lífshlaupi hans var frumsýnd á RIFF-hátíðinni í vikunni sem leið.

Freddie Mercury, forsöngvari hljómsveitarinnar Queen, var mikill aðdáandi teikninga Tom of Finland og sást gjarna uppdressaður í leðri frá toppi til táar.
Undir áhrifum frá Tom Freddie Mercury, forsöngvari hljómsveitarinnar Queen, var mikill aðdáandi teikninga Tom of Finland og sást gjarna uppdressaður í leðri frá toppi til táar.

Myndlistarmaðurinn Tom of Finland hét réttu nafni Touko Laaksonen. Hann fæddist nálægt borginni Tuurku árið 1920 en lést úr HIV í Bandaríkjunum árið 1991. Touko vann fyrir sér sem auglýsingateiknari en hlaut alþjóðlega frægð fyrir teikningar sínar af óþvinguðum, stoltum og vöðvastæltum hommum. Teikningar hans höfðu í fyrstu geysileg áhrif á menningarheim samkynhneigðra og þau má glögglega greina í tilburðum hjá til dæmis Freddie Mercury, Village People og George Michael en þessir hommar voru allir miklir aðdáendur Toms of Finland.

Þótt æska landsins hafi á sínum tíma sungið um sælunætur hjá Y.M.C.A (KFUM) með tilheyrandi látbragði er óhætt að álykta að fæstir hafi gert sér grein fyrir erótískum undirtónum, hvað þá áhrifa Toms of Finland.
It's fun to stay at the Y.M.C.A Þótt æska landsins hafi á sínum tíma sungið um sælunætur hjá Y.M.C.A (KFUM) með tilheyrandi látbragði er óhætt að álykta að fæstir hafi gert sér grein fyrir erótískum undirtónum, hvað þá áhrifa Toms of Finland.

Leikarinn Þorsteinn Bachmann á lítið, en veigamikið hlutverk í myndinni þar sem hann leikur karakter byggðan Bob Mizer, manninum sem reið á vaðið og gaf teikningar Toms út í Bandaríkjunum.

„Þetta atvikaðist þannig að ég var einmitt staddur í Berlín þegar tökur á myndinni fóru fram. Ingvar Þórðarson, meðframleiðandi myndarinnar, hafði samband og spurði hvort ég gæti tekið þetta hlutverk að mér og ég lét slag standa. Dustaði rykið af ameríska framburðinum og dembdi mér í verkið,“ segir Þorsteinn.

Tom heillaðist af einkennisklæðnaði og þá sérstaklega af leðri en á teikningum hans má gjarna sjá valdsmannslega og vöðvastælta karla í hvers konar búningum.
Leðurtöffarinn Tom of Finland Tom heillaðist af einkennisklæðnaði og þá sérstaklega af leðri en á teikningum hans má gjarna sjá valdsmannslega og vöðvastælta karla í hvers konar búningum.

Mynd: josef persson

„Touko Laaksonen mætti miklu mótlæti á stríðsárunum enda var litið á samkynhneigð sem rosalega ónáttúru sem best væri að berja niður með valdi. Hann lét þó ekki bugast og teiknaði áfram sínar fantasíur í leyni. Svo fær hann hvatningu frá vini sínum um að senda nokkrar teikningar til útgefanda erótíska hommablaðsins Physique Pictorial. Senan mín er þannig að útgefandinn tekur upp umslagið, skoðar teikningarnar og hrífst algerlega upp úr skónum. Vill ólmur fá myndirnar á forsíðu og sjá meira af þeim. Svo fer hann að pæla – bíddu, hver er þessi gæi? Tom? Lítur á umslagið, sér frímerkið og segir upphátt: „Tom of Finland“. Þar með var listamannsnafnið komið,“ útskýrir Þorsteinn og bætir við að eftir þetta hafi ekki liðið á löngu þar til nafnið Tom of Finland var orðið alþekkt í hommakreðsum Bandaríkjanna. „Þegar hann lendir svo í fyrsta sinn í Los Angeles þá er honum tekið eins og rokkstjörnu. Allir vissu hver hann var enda hafði hann þá þegar haft gríðarleg áhrif á þennan menningarheim.“

En skyldi Tom of Finland hafa fundið upp leðurhommafyrirbærið?

„Eins og þetta er sett fram í myndinni þá er eins og lögreglu- og hervaldið sem vofði alltaf yfir honum í stríðinu hafi haft geysileg áhrif á upplifun hans af erótík. Þeir þurftu alltaf að fela sig og laumast til að vera saman og það hvíldi alltaf yfir þeim sú ógn að vera barðir niður ef þeir yrðu staðnir að verki. Hann virðist hafa unnið sálrænt úr þessu með því að skapa sér verndara, einhvers konar ímyndaðan vin, því í gegnum alla myndina einhvers konar draugur, leðurhommi með kaskeiti, sem fylgir honum hvert sem hann fer. Sá er táknrænn fyrir utanaðkomandi afl eða innblástur sem ógnar honum, örvar og blæs hugrekki í brjóst, allt á sama tíma.“

Þorsteinn Bachmann og Ingvar Þórðarson, meðframleiðandi myndarinnar, við tökur á myndinni í Berlín.
Hressir við tökur Þorsteinn Bachmann og Ingvar Þórðarson, meðframleiðandi myndarinnar, við tökur á myndinni í Berlín.

Mynd: josef persson

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þorsteinn leikur homma en margir muna til dæmis eftir honum úr Fanga-þætti þar sem hann lék Jóstein, föður Rebekku, og úr leikritinu Jónsmessunótt sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum.

„Ég forðast almennt að leika steríótýpur og finnst þetta tímabil sem myndin um Tom of Finland gerist á mjög skemmtilegt. Mín upplifun af þessari sögu er sú að hún snýst fyrst og fremst um hugrekki. Þótt leðurhommar og erótískar fantasíur séu umfjöllunarefnið þá ná skilaboðin langt út fyrir það, því sagan er fyrst og fremst um baráttu manns fyrir því að fá að vera hann sjálfur.“

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin. Margrét nam sálfræði og forritun Kaupmannahöfn á þeim árum þegar tæknisinnaðir voru með símboða í beltinu og farsíminn vó sirka 450 grömm en lífsspeki hennar rammast í setningunni:

„Mart smart gerir eitt lekkert.“

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“