Stjórn knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur hefur ákveðið að endurnýja ekki samning við Guðjón Þórðarson um áframhaldandi samstarf. Guðjón mun því ekki halda áfram sem þjálfari liðsins.
Frá þessu er greint á vef félagsins. Liðið endaði í sjöunda sæti í 2 deild karla í sumar.
„Guðjón hefur í tvígang tekið við liðinu á erfiðum tímapunkti og unnið ákaflega gott starf í þágu félagsins. Þekking hans og kunnátta sem einn af allra reynslumestu þjálfurum landsins hefur nýst félaginu vel og erum við Guðjóni þakklátir fyrir gott og ánægjulegt samstarf á undanförnum árum. Við óskum honum að sama skapi góðs gengis í þeim verkefnum sem hann mun taka að sér í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingu.
Guðjón er einn farsælasti þjálfari í sögu Íslands en stjórn Víkings Ó. mun á næstu vikum fara í það að ráða nýjan þjálfara og hefja formlegan undirbúning fyrir næsta keppnistímabil.