Nokkur Íslendingalið hafa leikið í Evrópuboltanum í kvöld. Hér er það helsta:
Alfreð Finnbogason var í byrjunarliði Augsburg í 2-3 tapi gegn Köln í þýsku Bundesligunni. Honum var skipt út af í hálfleik í stöðunni 0-3. Augsburg er í 12.sæti, nú aðeins 4 stigum fyrir ofan Köln sem er í 16.sæti. Liðið sem endar í því sæti fer í fallumspil við lið úr næstefstu deild. Þá eiga liðin í sætunum þremur á milli þessara liða öll leik eða leiki til góða á Augsburg. Alfreð og félagar þurfa því að sækja einhver stig í síðustu leikjunum ef ekki á illa að fara.
Silkeborg vann 2-0 sigur á toppliði Viborg í dönsku B-deildinni. Leikið var í efri hluta deildarinnar (e. promotion group). Patrik Sigurður Gunnarsson og Stefán Teitur Þórðarson léku báðir með Silkeborg í leiknum. Liðið er nú í öðru sæti deildarinnar, sem gefur sæti í efstu deild, með 7 stiga forskot á Esbjerg. Sex umferðir eru eftir.
Esbjerg, þjálfað af Ólafi Kristjánssyni, tapaði einmitt 1-0 gegn Helsingör í kvöld. Andri Rúnar Bjarnason var á bekknum hjá Esbjerg í kvöld. Kjartan Henry Finnbogason, sem einnig er á mála hjá félaginu, hefur verið að glíma við meiðsli og var ekki með. Esbjerg er í þriðja sæti, 7 stigum á eftir Silkeborg, eins og fyrr segir.
Elías Már Ómarsson og félagar í Excelsior unnu 1-2 útisigur á NAC Breda. Elías spilaði allan leikinn í framlínunni. Excelsior er um miðja deild og getur hvorki blandað sér í baráttu um umspilssæti né sogast í fallbaráttu í þeim þremur leikjum sem eftir eru.
Diljá Ýr Zomers sat allan tímann á varamannabekk Hacken í 2-0 sigri liðsins á Vaxjö í sænsku úrvaldseildinni. Leikurinn var liður í 2.umferð en Hacken vann einnig í 1.umferð. Með Vaxjö leikur Andrea Mist Pálsdóttir. Hún kom inn á sem varamaður undir lok leiks í dag. Vaxjö gerði jafntefli í 1. umferð.