

Leikkonan Karen Grassle lítur um öxl á tíma sinn í sjónvarpsþáttunum Húsið á sléttunni (e. Little House on the Prairie). Grassle, sem er oðin 83 ára, lék móðurina Caroline Ingalls í þáttunum á móti föðurnum Charles Ingalls, leiknum af Michael Landon. Grassle segir að samband þeirra utan skjásins hafi verið erfitt.
Sambandið fór í hart í annarri þáttaröð þegar Landon, sem var einnig framleiðandi þáttanna, neitaði Grassle um launahækkun.
„Ég fylltist gremju og reiði og fann fyrir særðum tilfinningum og hreinni þreytu,“ játaði hún í viðtali við People í desember.
Í endurminningum Grassle frá árinu 2021, Bright Lights, Prairie Dust: Reflections on Life, Loss, and Love from Little House’s Ma, lýsti hún ítarlega óbeit sinni á kynferðislegum bröndurum Landons á setti og hvernig hann gerði grín að henni.
Þættirnir hlutu Emmy-verðlaun og voru sýndir í níu þáttaraðir frá 1974 til 1983.

Alison Arngrim lék Nellie Oleson í þáttunum. Í viðtali við Womans World, einnig í desember síðastliðnum, segir Arngrim að Landon hafi verið algjör náttúrutalent og mjög viljasterkur. Og hann var leikstjóri, framleiðandi, aðalleikari og handritshöfundur.
Arngrim tók eftir spennunni milli Grassle og Landons, sem lést úr briskrabbameini 54 ára að aldri árið 1991: „Ég sá að ef einhver annar var mjög viljasterkur eins og Landon þá kallaði það á átök.“
Grassle yfirgaf þáttaröðina í 8. þáttaröð. „Ég hafði takmarkað samskipti mín við aðdáendur mjög mikið,“ sagði hún. „Ég fór í raun ekki á marga viðburði. Ég hékk ekki með öllum. Ég einangraði mig.“
Eftir að endurminningar hennar komu út áttaði Grassle sig á áhrifum þáttarins á aðdáendurna.
„Ég verð að gefa kost á mér,“ sagði hún. „Svo ég byrjaði á samfélagsmiðlum og fór að fara á þessa viðburði. Ég var undrandi á því sem ég lærði um ástúð fólks á persónunni Caroline.“
Nú er Grassle himinlifandi að endurtaka hlutverk Caroline.
„Ég vissi ekki hversu djúpa væntumþykju fólk bar til þessarar persónu. Það fyllti hjarta mitt vegna þess að ég vann svo hart að því að gera eitthvað sérstakt úr henni og það voru margir dagar sem ég hlakkaði ekki til að fara í vinnuna.“
„Hvílík umbun! …,“ bætti Grassle við. „Ég meina, hversu margir fá svona langan tíma eftir að þeir hafa lokið verki? Ótrúlegt!“
Í janúar 2025 tilkynnti Netflix nýja þáttaröð byggða á bókum Lauru Ingalls Wilder, sem Húsið á sléttunni byggði sömuleiðis á. Nýja þáttaröðin mun byggja frekar á bókunum en að vera ný gerð af upphaflegu þáttunum.

Í nóvember tjáði leikkonan Melissa Gilbert, sem lék aðalpersónuna, dótturina Lauru Ingalls, um þættina. Sagðist hún hafa fundið til ógleði vegna aldursmunar hennar og leikarans Dean Butler, sem lék kærasta hennar og síðar eiginmann í þáttunum.
Sjá einnig: Finnur fyrir „ógleði“ vegna aldursmunarins í Húsinu á sléttunni

Arngrim gefur sér smá stund til að hugleiða líf Landons í sínu viðtali. Kallar hún Landon „einn fyndnasta mann sem ég hef kynnst“. „Munið þið að hann skrifar þáttinn, hann framleiðir hann og hann leikstýrir honum og hann er þessi orkubolti og bara vinnufíkill, svo fyndinn. Michael var skapandi hvirfilbylur. Það var alveg ótrúlegt að horfa á hann vinna, og svo var hann algjör brandarakall og gat ekki staðist grín.“
Arngrim útskýrði að brandararnir frá Landon kæmu þrátt fyrir að „heimilislíf hans“ væri ekki hamingjusamt.„Hann átti ömurlega bernsku,“ hélt hún áfram, „og hann talaði opinskátt um hversu erfiðir foreldrar hans voru. Hann var að leita að þeirri tegund af raunverulegri fjölskyldu og raunverulegri ást og tengslum sem þátturinn var dæmi um.“
Dean Butler, sem einnig lék í þáttunum, sagði við fjölmiðla að Landon væri ekki fullkomin manneskja á nokkurn hátt. „Hann var mjög fjölbreytt manneskja, en hann skildi hvert hlutverk hans var og það var að skapa eitthvað sem margar kynslóðir gætu upplifað saman. Eitthvað sem væri grundvallaratriði hvað varðar gæði þess með fólki, gildum og siðferði. Það voru mjög fá blæbrigði og tvíræðni í því sem hann var að gera.“