
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu.
Vinnsluminnið í tölvum og snjalltækjum, einnig stundum kallað innra minni, gegnir því hlutverki að geyma gögn og forrit á meðan tækið vinnur með þau. Vinnsluminni er að finna í allt frá tölvum og snjallsjónvörpum til lækningatækja en verðið hefur rokið upp vegna mikils vaxtar gagnavera sem knýja gervigreind.
Í frétt BBC kemur fram að þetta hafi skapað ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar og leitt til hækkandi verðs.
Í fréttinni er rætt við Steve Mason, framkvæmdastjóra CyberPowerPC, sem setur saman tölvur, og segir hann að fyrirtæki hans sé að fá verðtilboð sem eru allt að 500% hærri en fyrir aðeins nokkrum mánuðum.
Danny Williams, sérfræðingur hjá PCSpecialist segist búast við áframhaldandi hækkunum langt fram á þetta ár að minnsta kosti og það muni óhjákvæmilega leiða til samdráttar í eftirspurn meðal neytenda.
Mike Howard hjá Tech Insights segir við BBC að stórfyrirtæki á borð við Amazon og Google hafi keyrt eftirspurnina upp. Þessi fyrirtæki séu að leggja inn pantanir vegna þessa árs og næsta árs og það framboð sem er til muni ekki anna eftirspurninni.
„Við erum að fá verðtilboð sem eru um 500% hærri en fyrir aðeins nokkrum mánuðum,“ segir Steve Mason, framkvæmdastjóri tölvuframleiðandans CyberPowerPC, sem setur saman tölvur. Hann segir að „komi að því marki“ að þessi aukni íhlutakostnaður muni „neyða“ framleiðendur til að „taka ákvarðanir um verðlagningu“.
Í hefðbundnum heimilistölvum nemur kostnaður vegna vinnsluminnis yfirleitt um 15-20% af heildarverði tölvunnar, en núverandi verðlagning hefur ýtt hlutfallinu upp í 30 til 40%. Segir Howard að dæmigerð fartölva með 16 GB af vinnsluminni geti séð framleiðslukostnað sinn hækka um 50 dollara á árinu og sá kostnaður muni færast yfir á neytendur.
„Snjallsímar munu einnig finna fyrir hækkunarþrýstingi,“ segir hann. „Við gætum séð framleiðslukostnað við dæmigerðan farsíma hækka um 30 dollara sem aftur mun líklega lenda beint á neytendum.”