Ung móðir í Valrico í Hillborough-sýslu í Florida, er grunuð um að hafa reynt að drekkja þremur börnum sínum í almenningssundlaug.
Atvikið átti sér stað 24. september síðastliðinn. Lögregla kom á vettvang í kjölfar tilkynningar og fann þar Shaniece Willingham þar sem hún sat við laugarbakka. Áður en lögregla kom höfðu, að sögn, ættingjar konunnar dregið börn hennar upp úr lauginni, en þau eru 8 mánaða, tveggja ára og þriggja ára. Börnunum hafði verið komið í skjól á nærliggjandi heimili.
Við rannsókn málsins upplýstist að Shaniece hafði farið í fússi burtu af heimili foreldra sinna í kjölfar rifrildis og tekið börnin með sér. Í myndbandi sem hún birti á netinu sagði hún að þetta væri lokakveðja hennar og hún þyldi ekki meira. Hún elskaði börnin sín en hún gæti ekki skilið þau eftir því enginn myndi sjá um þau, en þau yrðu örugg hjá guði.
Ættingjar Shaniece þustu að sundlauginni, í kjölfar þess að hafa séð myndbandið, og björguðu börnunum upp úr vatninu.
Shaniece var handtekin og hefur verið kærð fyrir þrjár manndrápstilraunir.
Sjá nánar hér.