Lögreglan í Oregon leitar nú logandi ljósi að meintum morðingja eftir að hafa óvart sleppt honum úr fangelsi á mánudaginn. Yfirvöld segja að um óásættanleg mistök sé að ræða.
„Þetta hefði aldrei átt að gerast,“ sagði fógetinn Nicole Morrisey O’Donnell á blaðamannafundi í gær.
Umræddur maður heitir Ty Anthony Sage. Hann er 26 ára gamall og á yfir höfði sér ákæru fyrir morð og rán. Hann hafði verið í haldi lögreglu síðan í maí en fyrir mistök var honum sleppt gegn tryggingu á mánudaginn.
Kerfi lögreglunnar bar með sér að dómari hefði ákveðið að Sage gæti losnað undan gæsluvarðhaldi gegn greiðslu um 600 þúsund króna tryggingu. Þetta reyndist þó rangt. Dómari hafði tekið fyrir kröfu um að Sage fengi að ganga laus gegn tryggingu, en hafnað henni.
„Þessum aðila hefði aldrei átt að vera sleppt. Við berum alfarið ábyrgð á því að leysa fólk úr haldi og í þessu máli stóðum við okkur ekki. Við erum þó staðráðin í að gera allt sem við getum til að endurheimta traust samfélagsins og traust á stofnunina okkar.“
Fógetinn tók fram að þeir aðilar sem afgreiddu trygginguna og slepptu Sage hafi verið í góðri trú.
Stúlkan sem Sage er grunaður um að hafa banað var aðeins 15 ára gömul og móðir hennar segist miður sín vitandi að morðingi dóttur hennar gangi laus.
„Ég mætti í þinghaldið og var viðstödd þegar honum var neitað um að sleppa úr haldi gegn tryggingu og nú sit ég og velti fyrir mér hvað gerist eiginlega næst.“