Minnisblað um mál níðingsins Jeffrey Epstein hefur klofið stuðningsmenn Donald Trumps Bandaríkjaforseta í fylkingar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að Epstein hafi vissulega svipt sig lífi og að hinn alræmdi skjólstæðingalisti Epsteins sé ekkert nema goðsögn.
Stuðningsmennirnir, MAGA-liðarnir svokölluðu, eru margir trítilóðir yfir þessari vendingu, sérstaklega þar sem ríkissaksóknarinn Pam Bondi hafði ítrekað lýst því yfir að skjólstæðingalistinn væri til og að hún hefði hann undir höndum. Nú kalla MAGA-liðar eftir afsögn Bondi, en Trump hefur beðist vægðar fyrir hana.
Hann skrifaði á spjallmiðil sinn, Truth Social, að Bondi hefði staðið sig frábærlega og að það væri ekkert nema tímasóun að gagnrýna hana fyrir Epstein-málið.
„Við erum eitt lið, AGA, og ég kann ekki að meta það sem er að gerast. Sóum ekki tíma og orku í Jeffrey Epstein, einhvern sem öllum er sama um,“ skrifaði forsetinn og lenti í fyrsta sinn í því á sínum eigin miðli að vera hlutfallaður eða „ratioed“ en það vísar til þess þegar færsla á samfélagsmiðli fær fleiri athugasemdir en læk og deilingar, sem bendir til töluverðrar óánægju með færsluna.
Trump og hans fólk hafði lofað því bæði fyrir og eftir kosningar að öll skjöl í höndum ákæruvaldsins um Epstein yrðu birt opinberlega, þar með talið þessi skjólstæðingalisti sem átti að geyma nöfn valdamikilla og frægra einstaklinga sem hefðu tekið þátt í níðingsverkum Epsteins.
Dómsmálaráðuneytið tilkynnti svo óvænt í síðustu viku að þessi listi væri ekki til, að Epstein hefði ekki átt sér vitorðsmenn og að hann hefði fallið fyrir eigin hendi í fangelsi árið 2019.
„Við erum með FULLKOMNA ríkisstjórn, SEM EFTIR ER TEKIÐ UM ALLAN HEIM, og „eigingjarnir einstaklingar“ eru að reyna að skaða okkur út af manni sem aldrei deyr, Jeffrey Epstein. Árum saman er tönglast á Epstein, aftur og aftur og aftur,“ skrifaði forsetinn og bað um frið svo Bondi gæti haldið áfram sínu góða starfi.
Gagnrýnin hefur verið hörð frá því að dómsmálaráðuneytið birti yfirlýsingu sína og gengið nærri sumum embættismönnum en yfirmaður alríkislögreglunnar FBI mun hafa íhugað að segja af sér.
Íhaldsáhrifavaldurinn Brandon Tatum er einn þeirra sem hafa lýst yfir sárum vonbrigðum. „Ég held að þau séu ekki að segja okkur satt um Epstein. Ég held að þessi maður hafi verið viðriðinn eitthvað hrottalegt sem tengist stórum hópi fólks. Og ég giska að allt þetta fólk sé líklega eitthvað af okkar bandamönnum.“
Íhaldsaðgerðarsinninn Robby Starbuck segir að forsetanum hafi sjaldan brugðist bogalistin að viðhalda góðu samtali við grasrótina sína en nú hafi hann stigið feilspor.
Fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trump, Michael Flynn, skrifaði á X að forsetinn þurfi að átta sig á því að Epstein-málið muni ekki gleymast svo glatt. Það sé mörgum spurningum ósvarað.
Fyrrum félagi Trump, auðkýfingurinn Elon Musk, skorar á forsetann að birta Epstein-skjölin eins og hann hafi lofað.