Metro segir að Trevor Gocan, hafi ráðist á James O´Neill og veitt honum alvarlega áverka með höggum og spörkum og skilið hann eftir liggjandi í garðinum fyrir utan fasteignina sem hann hafði átt heima í síðustu 40 árin.
James var fluttur á sjúkrahús en lést tveimur vikum síðar af völdum áverka sinna en höggin og spörkin, sem hann varð fyrir, voru svo þung að þau orsökuðu heilablæðingu.
Að morgni þessa örlagaríka dags fór Gocan að heiman til að kaupa sér samloku á nærliggjandi veitingastað. James fór einnig að heiman til að sækja sér dagblað í blaðsölubás í Covent Garden. Hvorugur þeirra vissi að þeir voru nágrannar.
Þegar James hafði ekki skilað sér heim fyrir hádegi fór eiginkona hans út til að gá hvort hún sæi til hans. Þegar hún leit fram af svölunum sá hún hann liggjandi á lóðinni, árásin var þá yfirstaðin.
Fyrir dómi sagði stjórnandi lögreglurannsóknarinnar að Gocan hafi kýlt og sparkað í James fyrir framan fullt af vitnum, þar á meðal voru börn, á sunnudagsmorgni.
Gocan sagði að til deilna hafi komið á milli hans og James vegna hliðsins við húsið, þeir hafi ekki verið sammála um hvort það ætti að vera opið eða lokað.
Hann var fundinn sekur um morð og mun dómari ákveða refsingu hans í lok júní.