Nordkurier skýrir frá þessu og segir að sætin sem um ræðir séu öftustu sætin, þau sem eru næst klósettinu. Þetta eru að mati miðilsins vanmetnustu sætin í flugvélum.
Travelbook segir að margir kostir fylgi því að sitja í þessum sætum, eitthvað sem stærstu aðdáendur þess að sitja við neyðarútgang ættu að skoða.
Það er aðallega aukið öryggi fólgið í að sitja í þessum sætum. Time Magazine skoðaði flugslysasögu 35 ára og komst að þeirri niðurstöðu að miðsætið í öftustu sætaröðinni sé öruggasta sætið í flugvélinni.
Þess utan fær maður oft meiri ró og frið í þessum sætum en ef maður situr framar í vélinni. Það sitja engin börn fyrir aftan þig og sparka í sætið, engin hnerrar í hnakkann á þér og kannski situr enginn við hliðina á þér af því að enginn vildi bóka þau sæti.
Það er einnig kostur að klósettið er mjög nálægt og þú þarft ekki að þramma í gegnum farþegarýmið til að komast á klósettið. En á móti kemur að stundum getur myndast röð við hliðina á sætinu þínu þegar fólk bíður eftir að komast á klósettið. Svo er ekki hægt að útiloka að nefið þitt fái öðru hvoru að kenna á því sem farþegar losa sig við á klósettinu.