Lori fékk viðurnefnið Dómsdagsmamman en fjallað var um hana og fjölskyldu hennar í Netflix-þáttaröðinni Sins of Our Mother (Syndir móður okkar). Hún var hluti af öfgafullum sértrúarsöfnuði sem klauf sig frá kirkju mormóna og trúði því statt og stöðugt að heimsendir væri í nánd.
Sjá einnig: Dómsdagsmamman sem myrti börnin sín rýfur þögnina í fyrsta sjónvarpsviðtalinu
Lori var dæmd í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn árið 2023 fyrir að hafa orðið tveimur yngri börnum sínum, Joshua, 7 ára og Tylee Ryan, 16 ára, að bana og tekið þátt í samsæri um að myrða fyrri eiginkonu eiginmanns síns, Tammy Daybell. Eiginmaður Lori, Chad Daybell, var dæmdur til dauða vegna morðanna.
Á þessum tíma taldi lögreglan einnig að Lori og Chad hefðu einnig komið að morðinu á fyrrverandi eiginmanni Lori, Charles Wallow. Hann var skotinn til bana árið 2019.
Það var Alex Cox, bróðir Lori, sem tók á sig sök í því máli og bar við sjálfsvörn. Lögreglan taldi hins vegar að Lori og jafnvel Chad hefðu tengst morðinu. Alex lést af eðlilegum orsökum í desember 2019 og var því aldrei ákærður fyrir morðið.
Lori var hins vegar ákærð og er dómur nú fallinn í málinu. Að mati kviðdóms tókst að færa sönnur á það að Lori og Alex hefðu lagt á ráðin um morð á Charles árið 2019 og ástæðan hafi verið sú að hún vildi fá líftryggingu hans greidda út.