
Saksóknarar sögðu hjúkrunarfræðinginn hafa gert þetta til að minnka álagið á kvöldvöktum sem hann vann.
Dómstóll í Aachen kvað dóminn upp í gær og þarf hinn seki, sem ekki er nefndur á nafn í þýskum fjölmiðlum, að sitja inni í minnst fimmtán ár þar til hann getur sótt um reynslulausn.
Atvikin sem um ræðir áttu sér stað á sjúkrahúsi í Wuerselen í vesturhluta Þýskalands á tímabilinu frá desember 2023 til maí 2024. Hjúkrunarfræðingurinn er sagður hafa gefið sjúklingum sínum, sem voru aðallega aldraðir, banvæna skammta af morfíni og hinu róandi lyfi midazolam.
Saksóknarar lýstu hjúkrunarfræðingnum sem samviskulausum og áhugalausum, og bentu á að hann hefði ekki sýnt neina iðrun á meðan á réttarhöldunum stóð. Hann var greindur með persónuleikaröskun en þó talinn sakhæfur.
Kom fram fyrir dómi að hann hefði reglulega orðið pirraður í vinnu þegar honum voru úthlutaðir sjúklingar sem þurftu meiri umönnun en aðrir.
Hann hafði starfað á sjúkrahúsinu í Würselen frá árinu 2020, en í fréttum þýskra fjölmiðla kemur fram að yfirvöld hafi látið grafa upp lík til að kanna hvort fleiri fórnarlömb kunni að vera til staðar. Hugsanlega verði fleiri ákærur gefnar út.