
Stórfurðulegt mál er nú komið upp í Frakklandi en þar hefur opinber starfsmaður verið sakaður um að hafa byrlað rúmlega 200 konum ólyfjan, til þess að þeim yrði mál að pissa í atvinnuviðtölum.
Starfsmaðurinn heitir Christian Nègre og hefur hann nú verið ákærður fyrir líkamsárásir og byrlanir, málið kom upp árið 2018 þegar Nègre starfaði fyrir franska menningarmálaráðuneytið sem mannauðsstjóri.
Er Nègre gert að sök að hafa sett þvagræsilyf í kaffi og te kvenna sem komu í atvinnuviðtöl til hans.
Einn þolandi, Sylvie Delezenne, segir í samtali við The Guardian að Nègre hafi boðið henni kaffi og svo síðan beðið hana um að koma með sér í göngutúr.
„Mér varð þó sífellt að verða meira mál að hafa þvaglát. Hendurnar á mér skulfu, ég var með hjartsláttartruflanir, svitaperlur láku niður ennið á mér og ég varð öll rauð. Ég sagði: Ég verð að fá smá pásu. En hann hélt bara áfram að labba.
Á endanum varð Delezenne svo mikið mál að hún ákvað að kasta af sér vatni utandyra og bauðst Nègre til að skýla henni. Það þótti henni undarlegt.
Lögmaðurinn Louise Beriot gætir hagsmuna fjölda meintra þolenda Nègre en hún segir að hér sé um að ræða kynóra og vald yfir líkömum kvenna í gegnum niðurlægingu.
Samkvæmt ákærunni áttu brotin sér stað á 9 ára tímabili og fóru flest fram með áþekkum hætti. Konur mættu í atvinnuviðtal til Nègre, hann bauð þeim kaffi og reyndi svo að fá þær með sér í göngutúr til að tryggja að þær hefðu ekki gott aðgengi að salerni. Sumar konurnar enduðu með að pissa á almannafæri í örvæntingu og þó nokkrar lentu í þeirri niðurlægjandi lífsreynslu að komast ekki á salernið í tæka tíð svo þær pissuðu á sig.
Málið komst upp þegar samstarfskona Nègre kvartaði undan honum eftir að hann reyndi að mynda fæturnar á kollega þeirra. Þegar vinnustölva hans var skoðuð kom í ljós að hann hélt bókhald yfir framangreint athæfi sitt sem hann kallaði tilraunir. Þar hafði hann skráð vandlega hvenær konurnar tóku inn þvagræsilyfin og hvernig þær brugðust við.
Aðalmeðferð hefur enn ekki farið fram í málinu og bendir The Guardian á að Nègre, þó að hann starfi ekki hjá hinu opinbera, geti enn óhindrað starfað í einkageiranum.
Málið hefur vakið mikla athygli og reiði enda er stutt síðan kynferðisbrotamál Gisèle Pelicot setti Frakkland á hliðina, en eiginmaður hennar hafði byrlað henni ólyfjan árum saman til að misnota hana og leyfði auk þess fjölda annarra karlmanna að gera slíkt hið sama á meðan hún svaf lyfjasvefni.
Meintir þolendur Nègre eru ósáttir við tafir á málinu, en sex árum eftir að það kom er ekki enn búið boða til aðalmeðferðar.
Anaïs de Vos deilir einnig reynslu sinni með The Guardian. Hún drekkur vanalega ekki kaffi en árið 2011 þegar henni bauðst atvinnuviðtal hjá menningarmálaráðuneytinu ákvað hún að þiggja einn bolla þegar Nègre bauð henni einn. Eftir að hún drakk kaffið bauð hann henni í göngutúr og hún fann fljótlega að hún þyrfti nauðsynlega að pissa. Hún tilkynnti Nègre að hún þyrfti að komast á klósett og segir að viðbrögð hans hafi komið henni á óvart. „Hann horfði í augun á mér og sagði: Þarftu að pissa? Þetta var eins og hvernig fullorðinn talar við barn. Mér fannst þetta stórfurðulegt svo ég varð frekar hvöss við hann.“
Nègre benti henni svo á svæði undir brú sem var þar nærri og sagði að hún gæti pissað þar. De Vos neitaði.
„Það voru viðvörunarbjöllur í hausnum á mér að segja að eitthvað væri ekki í lagi“
Loks fann hún kaffihús og þurfti að hlaupa þar upp á aðra hæð til að komast á salernið. Um leið og hún nálgaðist klósettið missti hún stórn á blöðrunni.
Talið er að Nègre hafi byrlað rúmlega 240 konum í gegnum árin.