
Konan var á eigin vegum í siglingu með Coral Expedition þegar skipið kom við á fyrrnefndri eyju. Innan við hundrað manns hafa fasta búsetu á eyjunni og gekk hópurinn á hæsta tind eyjunnar sem heitir Cook’s Look.
Hópurinn skilaði sér til baka síðar sama dag og hélt skipið áfram, en skipstjórnendur og forsvarsmenn ferðarinnar áttuðu sig ekki á því að konan hafði ekki skilað sér í skipið.
Óvíst er hvað fór úrskeiðis en í áströlskum fjölmiðlum kemur fram að annað hvort hafi konan villst eða dottið. Hvarf konunnar kom ekki í ljós fyrr en daginn eftir og fannst hún látin á eyjunni á sunnudaginn.
Lögregla telur ekki að neitt saknæmt hafi átt sér stað þegar konan lést.
Skipið lagði af stað með 120 farþega þann 17. október síðastliðinn, en um var að ræða 60 nátta siglingu umhverfis Ástralíu.