
Nýlega lést 12 ára drengur í Bretlandi. Hafði drengurinn verið að leika eftir áskorun sem hann mun hafa séð á TikTok og snýst um að anda að sér ýmsum löglegum vörum í gasformi, á úðabrúsum, til að finna fyrir vímuáhrifum. Í þessu tilfelli var um svitalyktareyði að ræða en móðir drengsins varar aðra foreldra eindregið við áskoruninni og ætlar að bejast fyrir því að í Bretlandi verði börnum yngri en 18 ára bannað að nota TikTok og að kaupa svitalyktareyði á úðabrúsum.
Þetta athæfi sem endaði svona hörmulega fyrir drenginn er kallað chroming á ensku og sjá má myndbönd af þessu víðar en á TikTok. Fyrr á þessu ári kom upp tilfelli hér á landi þar sem unglingsstúlkur notuðu brúsa með þurrsjampói í þessum sama tilgangi. Það mun ekki síst vera efnið ísóbútan, einnig kallað bútan, sem stuðlar að þessum vímuáhrifum en afleiðingarnar af innöndun þess geta verið lífshættulegar. Vörur sem notaðar eru í þessum tilgangi þurfa almennt að innihalda rokgjörn efni sem þýðir að þau gufa frekar upp sem gerir innöndun auðveldari.
Breski drengurinn hét Oliver Gorman og var yngstur af þremur bræðrum. Fjallað hefur verið um mál hans í fjölmiðlum víða um heim eftir að rannsókn á dauða hans lauk fyrir nokkrum dögum en hann lést í maí síðastliðnum. Niðurstaða rannsóknarinnar var að Oliver hafi andað að sér úr úðabrúsum, sem innihéldu svitalyktareyðinn Lynx, í svo miklu magni að hann hafi beðið bana. Mun Oliver hafa gert þetta í kjölfar þess að hafa séð myndbönd með chroming, þar sem notast var við svitaleyktareyði, á TikTok.
Móðir hans, Clare Gillespie, kom að honum meðvitundarlausum í herbergi sínu og ljóst var að hann andaði ekki en úðabrúsi utan af Lynx var við hlið Oliver. Endurlífgunartilraunir hennar og viðbragðsaðila báru ekki árangur.
Móðir Oliver segir að hann hafi orðið fyrir einelti í skólanum og þá einkum verið gert grín að honum fyrir að vera með krullað hár. Skólinn sagðist þó ekki hafa fundið neinar vísbendingar um einelti í garð Oliver. Segir hún son sinn hafa glímt við mikla vanlíðan vegna eineltisins.
Fjölskyldan bjó í bænum Hyde sem er úthverfi Manchester-borgar. Dánardómstjóri segir ljóst að Oliver hafi ekki ætlað sér að taka eigið líf. Hvatti hann til þess að aldurstakmörk yrðu sett á sölu svitarlyktareyðis á úðabrúsum og skýrari skilaboðum komið á framfæri um hvað svona misnotkun á þessari algengu vöru geti haft í för með sér.
Clare, móðir Oliver, segist í samtali við Daily Mail vilja vara aðra foreldra við að leyfa börnum sínum að nota TikTok svo ekkert þeirra þurfi að ganga í gegnum það sama og hún.
Krufning leiddi í ljós að Oliver hafði látist af völdum ísóbútaneitrunar.
Fjöldi brúsa utan af Lynx og öðrum svitalyktareyði, Aldi, fundust í herbergi Oliver og voru sumir þeirra tómir. DV er ekki kunnugt um að þessar tegundir séu seldar í verslunum hér á landi.
Clare hafði áður en fjölskyldan fór í ferð til Wales, sem hún var nýkomin heim úr þegar atvikið átti sér stað, tilkynnt skóla Oliver að hann myndi ekki snúa þangað aftur vegna eineltisins. Skólastjórinn segir skólann hafa verið í erfiðri stöðu til að gera nokkuð þar sem Oliver hafi aldrei nefnt nein nöfn, við fjölskyldu sína, á þeim nemendum sem stóðu fyrir þessu. Eftir andlát Oliver hafi enginn nemandi viljað kannast við að honum hafi verið strítt út af krulluðu hári sínu. Hann sagði skólayfirvöld ekki hafa verið meðvituð um hvað chroming væri og það sé stanslaus barátta að halda nemendum meðvituðum um hættur internetsins og raunheima. Það sé svo margt óæskilegt fyrir börn á TikTok.
Móðir Oliver segist alls ekki hafa verið meðvituð um þá hættu sem geti stafað af svitalyktareyði og fleiri vörum sem seldar séu í úðabrúsum og notaðar hafi verið með fyrrgreindum hætti.
Fram kom við rannsóknina að þyki nokkuð ljóst að Oliver hafi kynnst chroming í gegnum TikTok en það sé ekki hægt að staðfesta það með fullri vissu þar sem lögreglu hafi ekki tekist að opna símann hans.
Clare segist telja að ekkert eitt tiltekið atriði hafi orsakað dauða Oliver. Honum hafi liðið illa og samfélagsmiðlar hafi ekki hjálpað við að bæta úr því. TikTok eigi sinn þátt en einnig eineltið.
Fjölskyldan hefur ákveðið að segja sögu Oliver til að hvetja börn og ungmenni til að tala um það einelti sem þau verði fyrir en einnig til að hvetja til banns í Bretlandi við notkun barna yngri en 18 ára á TikTok og banns við sölu til barna á svitalyktareyði á úðabrúsum.
Dánardómstjórinn tók undir með Clare að sonur hennar hafi ekki verið þunglyndur en glímt við vanlíðan. Hann telur ljóst að Oliver hafi kynnst chroming fyrir tilstuðlan TikTok en það sé ekki skýrt nákvæmlega hvernig það bar að. Mun hann beina því til stjórnvalda að skoða það alvarlega að breskum börnum verði annaðhvort bannað að nota TikTok eða notkunin takmörkuð verulega. Ljóst sé að á TikTok sé í dreifingu alls konar efni eins og t.d. myndbönd af chroming sem geti verið óþroskuðum börnum mjög skaðlegt og fyrirtækinu sé greinilega alveg sama.
Hann muni einnig beina því til stjórnvalda að skoðað verði að banna sölu á svitalyktareyði í úðabrúsum til barna yngri en 16 ára og að gera verði viðvaranir á brúsunum meira áberandi en á brúsum utan af Lynx er varað við því að misnotkun á þeim geti valdið dauða.
Clare segir að hún hafi eins og fleiri foreldrar gefið Oliver farsíma ekki síst til að nota sem öryggistæki en ekki getað ímyndað sér að sonur hennar myndi kynnast svona hættulegu athæfi fyrir tilstuðlan símans.