
Hjónin Jennifer Gledhill, 42 ára, og Matthew Johnson, 51 árs, virtust lifa fullkomnu lífi. Þau bjuggu í fallegu húsi í Cottonwood Heights í Utah, áttu þrjú yndisleg börn og gott starf Matthews í þjóðvarðliðinu í Utah, þar sem hann vann sig upp til metorða, tryggði ágæta afkomu fjölskyldunnar.
Jennifer virtist njóta sín í hlutverki fyrirmyndarhúsmóður og það féll ekki skuggi á glæsta fjölskyldumyndina. En undir gljáfægðu yfirborðinu ólguðu heiftarleg átök milli hjónanna. Vildu þau bæði skilnað.
Hafi samkomulagið verið slæmt fyrr þá sauð fyrst upp úr þegar Matthew komst að því að Jennifer átti í ástarsambandi við annan mann. Núna stefndi ekki bara í skilnað heldur mjög ljótan skilnað þar sem mannorð Jennifer gæti beðið hnekki og hún gæti þurft að sætta sig við skipt forræði yfir börnunum þremur.
Þann 28. september leitaði Jennifer til lögreglu og lýsti eftir eiginmanni sínum sem ekki hafði skilað sér heim eftir ráðgerða vikulanga ferð þar sem hann vildi vera einn og ekki láta ná í sig.
En yfirmenn Matthews í þjóðvarðliðinu höfðu þegar látið lýsa eftir honum hjá lögreglu enda hafði hann ekki skilað sér í vinnu.
Sex dögum áður en Jennifer tilkynnti hvarf Matthews fór hún í heimsókn til elskhuga síns og sagðist hafa skotið Matthew með skammbyssunni hans, komið líki hans fyrir í sendibílnum hennar, og ekið með hann nokkra vegalengd frá heimili þeirra og grafið líkið í grunnri gröf.
Eftir heimsóknina hringdi elskhuginn í Jennifer og sagði henni að frásögn hennar hefði fyllt hann skelfingu. Hún sagði: „Vá, þú veist að ég gæti ekki gert flugu mein. En Matt, hann var ekki lengur manneskja í mínum augum. Hann var ekki lengur Matt.“
Elskhuginn hljóðritaði þetta símtöl og nokkur önnur símtöl sem þau áttu um sama umræðuefni. Hann tók líka skjáskot af skilaboðaspjalli þeirra. Með þessi gögn fór hann til lögreglu.
Jennifer var handtekin skömmu síðar og húsleit gerð á heimili hennar. Blóðleifar fundust í hjónaherberginu og þar var sterk klórlykt. Rúmdýnan var ný en lögregla fann gögn sem sýndu að Jennifer hafði fest kaup á henni um það leyti sem Matthew hvarf.
Jennifer var ákærð fyrir morð á eiginmanni sínum en lík hans hefur ekki fundist ennþá. Henni var neitað um lausn gegn tryggingu og hefur setið í gæsluvarðhaldi í um eitt ár. Réttarhöld í máli hennar verða í byrjun desember við dómstól í Salt Lake City. Jennifer neitar sök.
Nánar má fræðast um málið í myndbandi hér fyrir neðan.