Ítölsk fyrirsæta var myrt á þriðjudaginn en talið er að þar hafi fyrrverandi maki hennar verið að verki. Fyrirsætan, Pamela Genini, lést af sárum sínum eftir að hafa verið stungin 24 sinnum með eggvopni. Genini var aðeins 29 ára gömul en fyrrverandi kærasti hennar, Gianluca Soncin, er 52 ára.
Að sögn People reyndu nágrannar fyrirsætunnar að brjótast inn í búð hennar á þriðjudaginn eftir að hafa heyrt skaðræðisöskur. Fyrirsætan hrópaði af örvæntingu á hjálp og lögregluna. Talið er að Soncin hafi dregið fyrirsætuna út á svalir þar sem hann stakk hana með áðurnefndum afleiðingum. Síðan sneri hann vopninu að sjálfum sér og stakk sig tvisvar í hálsinn.
Genini var í símanum að ræða við annan fyrrverandi kærasta þegar hún veitti því eftirtekt að Soncin var kominn óboðinn inn á heimili hennar. Hún bað viðmælanda sinn á hinni línunni að hringja í lögreglu. Hún reyndi svo að halda Soncin góðum á meðan hún beið. Þegar dyrabjallan hringdi sagði fyrirsætan Soncin að þetta væri sendill að koma með mat handa henni. Hið rétta var að þarna var lögreglan mætt. Greinilega hefur Soncin ekki trúað henni því á meðan lögregla hljóp frá anddyrinu að íbúðinni var fyrirsætan myrt.
Soncin er nú í haldi lögreglu, en hann hlaut ekki alvarlega áverka af stungunum sem hann veitti sjálfum sér. Hann hefur reynst ósamvinnuþýður og neitar að tjá sig. Að sögn heimildarmanna hafði Soncin tekið sambandsslitunum illa. Hann elti fyrirsætuna á röndum og í sambandi þeirra hafði hann bæði hótað henni og beitt hana barsmíðum.
People greinir frá.