Í desember 2024 átti háskólaneminn Ethan Scott Brown fastlega von á því að hann myndi þá útskrifast úr grunnnámi sínu í landafræði við Háskólann í Glasgow í Skotlandi. Hann var þá 23 ára en Ethan hafði ávallt staðið sig afar vel í námi og átti fastlega von á því að útskrifast með ígildi þess sem í íslenskum háskólum er kallað ágætiseinkunn en það á við um nemendur með á bilinu 9-10 í meðaleinkunn. Skólinn tilkynnti honum hins vegar að hann gæti ekki útskrifast þar sem hann hefði ekki fengið neina lokaeinkunn fyrir eitt námskeið sem hann þurfti að ljúka. Síðar kom í ljós að það var ekki rétt en þá var það of seint fyrir Ethan sem var svo harmi sleginn við upphaflegu fréttirnar að hann tók eigið líf.
Daily Mail fjallar um málið. Móðir Ethan, Tracy Scott, kom að honum látnum. Hún leitaði eftir svörum frá skólanum en þá kom í ljós að mistök voru gerð og ranglega skráð að Ethan hefði ekki fengið lokaeinkunn í námskeiðinu en hann átti sannarlega að fá slíka einkunn og þar með geta útskrifast. Tracy segir að mistökin hafi farið framhjá starfsfólki og tveimur endurskoðunarnefndum innan skólans og sömuleiðis einni nefnd sem starfar utan skólans.
Hún segir skólann hafa algerlega brugðist syni hennar.
Nú vill Tracy skýrari svör en hún og aðrir í fjölskyldunni telja að um kerfisbundinn vanda sé að ræða hjá Háskólanum í Glasgow og líklegt sé að fleiri nemendur hafi lent í sömum mistökum og Ethan.
Skólinn segist harma mjög þessi mistök sem höfðu svo skelfilegar afleiðingar og vottaði fjölskyldunni sína dýpstu samúð en stendur fast á því að um einangrað tilvik hafi verið að ræða.
Tracy segist harmi sleginn. Ethan hafi verið svo spenntur þegar umsókn hans um nám í skólanum var samþykkt. Hann hafi yfirgefið þennan heim í þeirri trú að honum hafi mistekist. Skólinn hafi brugðist honum ekki eingöngu akademískt séð heldur einnig brugðist þeirri skyldu að veita honum stuðning. Fjölskyldan hafi verið svipt því tækifæri að hafa Ethan áfram í lífi sínu.
Fjölskyldan hefur leitað til lögmanns og segist leita réttlætis til að aðrar fjölskyldur þurfi ekki að upplifa það sama. Lögmaðurinn spyr hvort mistökin hefðu nokkurn tímann uppgötvast ef Ethan hefði ekki látist og fjölskyldan í kjölfarið leitað svara hjá skólanum.
Fjölskyldan krefst einnig svara um stuðning sem nemendum við skólann, sem eiga við andleg veikindi að stríða, er boðið en Ethan hafði leitað til starfsmanna skólans vegna slíkra veikinda en ekki fengið neinn stuðning.
Fjölskyldan vill einnig að yfirvöld í Skotlandi svari því hvernig þau ætli að tryggja að skoskir háskólar styðji við bakið á nemendum sem glíma við andleg veikindi.
Háskólinn í Glasgow segir að rannsókn hafi farið fram innan skólans og fjölskyldunni afhentar niðurstöðurnar og hún beðin innilega afsökunar.
Skólinn viðurkennir einnig að mistök hafi verið gerð þegar Ethan var ekki vísað á stuðningsþjónustu við nemendur. Fullyrt er einnig að allir ferlar hafi verið endurskoðaðir til að tryggja að svona mistök eigi sér ekki aftur stað. Segir í yfirlýsingu Háskólans Glasgow að það sé virkilega leitt að svona hafi farið og skiljanlega hafi það valdið fjölskyldu Ethan miklum harmi. Þessi yfirlýsing mun þó líklega ekki duga til að fjölskyldan láti málinu lokið.
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.