Franskur svæfingalæknir svarar nú til saka fyrir dómstólum en hann er ákærður fyrir að hafa af ásetningi komið sjúklingum sínum í hjartastopp bara svo hann gæti lífgað þá aftur við. Meintir þolendur eru þrjátíu talsins og voru ýmist fullorðnir eða á barnsaldri. Í tólf tilvikum báru endurlífgunartilraunir læknisins ekki árangur og sjúklingarnir létu lífið.
Læknirinn heitir Frederic Péchier og er 53 ára að aldri. Hann starfaði við svæfingar á tveimur læknastofum í borginni Besancon á árunum 2008-2017. Hann er sakaður um að hafa eitrað fyrir sjúklingunum til að koma þeim í hjartastopp bara svo hann gæti látið ljós sitt skína þegar hann svo „hetjulega“ bjargaði þeim. Eins mun hann hafa gert þetta til að kasta rýrð á mannorð samstarfsfélaga sinna.
Yngsti þolandinn var fjögurra ára og lifði af tvö hjartastopp í hálskirtlatöku árið 2016. Elsti þolandinn var 89 ára.
Péchier neitar sök og segist ætla að sanna sakleysi sitt. Pechier hefur ekki starfað sem læknir frá árinu 2017 en fékk sérstakt leyfi árið 2023 til að sinna sérstökum störfum þar sem hann hafði engin samskipti við sjúklinga.
Fjölskyldur hinna látnu telja ljóst að læknirinn verði sannur að sök. Amandine Iehlen segist hafa beðið eftir aðalmeðferðinni í 17 ár, eða allt frá því að faðir hennar lét lífið í nýrnaaðgerð árið 2008. Samkvæmt krufningu lést faðir hennar af afskömmtun svæfingalyfs.
Saksóknari segir málið fordæmalaust. Grunur vaknaði árið 2017 eftir að sjúklingar Péchier sem gengust undir áhættulitlar aðgerðir fóru ítrekað í hjartastopp. Ein þeirra var Sandra Simard, en eftir að hún fór í hjartastopp í aðgerð kom í ljós að banvænum skammti af kalíum hafði verið komið fyrir í saltvatnslausn sem hún fékk í æð í svæfingunni.
„Það sem er verið að saka hann um er að eitra fyrir heilbrigðum sjúklingum til að skaða samstarfsmenn sem hann átti í átökum við,“ sagði saksóknarinn en grunur leikur á að Péchier hafi átt við lyfjapoka samstarfsfélaga til að framkalla hjartastopp. Þannig hafi hann skapað aðstæður þar sem svo virtist sem samstarfsmenn hans hefðu gert mistök og þyrftu að fá hann til að bjarga málum, en Pechier var sá aðili sem var kallaður til þegar um hjartastopp var að ræða.
Sumir kollegar lýsa Péchier sem stjörnu-svæfingalækni. Aðrir segja hann stjórnsaman hrokagikk. Reiknað er með að aðalmeðferð muni taka töluverðan tíma en fyrstu tvær vikurnar verða helgaðar þeim málum sem upp komu árið 2017. Verði Péchier sakfelldur á hann yfir höfði sér lífstíðardóm.