Sjómennirnir áttu sér einskis ills von þegar skotið var í áttina að þeim frá rússneskri lúxussnekkju.
Sjómennirnir særðust ekki en ein af baujunum þeirra eyðilagðist þegar skot hæfði hana.
KNR skýrir frá þessu og segir að snekkjan sé sannkölluðu fljótandi rússnesk James Bond paradís. Hún er 77 metrar á lengd og um borð er þyrla, kafbátur og meira að segja sjúkrahús.
Það er því óhætt að segja að snekkjan hafi borið höfuð og herðar yfir bát Grænlendinganna en hann er aðeins 15 metrar á lengd.
Eins og fyrr sagði, þá er snekkjan í eigu Rússa en það var búlgörsk ferðaskrifstofa sem var með hana á leigu í síðustu viku.
KNR náði sambandi við Búlgarana sem staðfestu að skotið hefði verið frá snekkjunni og að þar hefðu ferðamenn verið að verki. Þeir sögðu hugsanlegt að eitt skot hefði hæft bauju en það væri samt sem áður ekki hægt að staðfesta það. Það hafi alls ekki verið ætlunin að hæfa eitthvað annað en fyrir fram ákveðið skotmark.