Donald Trump Bandaríkjaforseti kann ekki að meta gagnrýni. Að þessu sinni er hann foj yfir gagnrýni á risastóru lúxuseinkaþotuna sem stjórnvöld í Katar ætla að gefa honum.
Þotan er af gerðinni Boeing 747-8 og mun vera innréttuð eins og háloftahöll. Samningaviðræður milli forsetaembættisins og konungsfjölskyldunnar í Katar eru þegar hafnar. Katar segir að ekki sé um að ræða gjöf heldur samkomulag um tímabundna notkun. Þegar Trump lætur af embætti mun þotan vera færð safni forsetatíðar Trump að gjöf.
Þessi gjafagjörningur hefur valdið töluverðu fjaðrafoki í Bandaríkjunum og hafa stjórnmálamenn bæði innan raða demókrata sem og repúblikana gagnrýnt hann. Trump gefur þó lítið fyrir gagnrýnina. Þeir sem gagnrýna hann fyrir að ætla að þiggja risaþotuna séu „heimsklassa aumingjar“.
„Það að varnarmálaráðuneytið sé að fá 747 flugvél AÐ ÓKEYPIS GJÖF til að koma í stað 40 ára forsetaþotunnar, og það tímabundið og fyrir opnum tjöldum, fer svo í taugarnar á spilltu demókrötunum að þeir krefjast þess að við borgum TOPPVERÐ fyrir vélina,“ skrifaði forsetinn á Truth Social og bætti við að demókratar væru heimsklassa aumingjar.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í öldungardeild Bandaríkjanna, Chuck Schumer, segir að um mútur sé að ræða.
„Ekkert segir Bandaríkin fyrst eins og forsetaflugvél í boði Katar. Þetta eru ekki bara mútur heldur erlend afskipti á fyrsta farrými með auka fótplássi.“
Lögmaðurinn Tristan Snell, sem meðal annars fór með saksókn í einu sakamálinu gegn Trump, skrifar:
„Í síðustu viku tilkynnti Trump að hann væri að byggja gólfvöll fyrir 5,5 milljarða dala í Katar. Í dag tilkynnir Katar að þeir ætli að gefa Trump einkaþotu fyrir 400 milljónir dala. Forsetaembætti Bandaríkjanna er bókstaflega falt hæstbjóðanda“
Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders skrifar: „Ég veit ekki hver þarf að heyra þetta en svarið er nei – Donald Trump má ekki þiggja 400 milljóna dala flughöll frá konungsfjölskyldunni í Katar. Ekki bara er það farsakennd spilling heldur líka í hróplegri mótsögn við stjórnarskrána. Þingið má ekki leyfa þessari yfirgengilegu sjálftöku að viðgangast“.