Trump var í viðtali við bandaríska fjölmiðlamanninn Glenn Beck á sjónvarpsstöð hans, Blaze TV, þar sem þetta kom fram.
Þá segir Bandaríkjaforseti að hann sé eina ástæða þess að viðræður hafi yfir höfuð farið fram á milli Rússlands og Úkraínu.
Í viðtalinu vísaði Trump meðal annars í eftirminnilegan fund milli hans og Zelensky í Hvíta húsinu í lok febrúarmánaðar þar sem upp úr sauð. Sagði hann að Úkraínuforseti hefði „öskrað“ á hann.
„Hann vill alltaf meira, meira og meira en er ekki með réttu spilin á hendi,“ sagði Trump við Beck. „Ég held að Pútín myndi ekki standa í þessu fyrir neinn annan en mig, það hafa líka margir haft orð á því,“ sagði Trump og bætti við: „Ég myndi segja að hingað til hefur verið auðveldara að eiga við hann en Zelensky.“
Í kjölfar viðtalsins hafa friðarviðræður aftur siglt í strand þar sem rússnesk yfirvöld höfnuðu áætlun Bandaríkjanna um að binda enda á stríðið, en hún fól meðal annars í sér að viðurkenna yfirráð Moskvu yfir Krímskaga og í raun frysta víglínuna í þeirri stöðu sem hún er núna.
Pútín myndi því halda því landsvæði sem hersveitir hans hafa hertekið gegn því að tryggt yrði að Úkraína gangi ekki í NATO. Rússar vilja hins vegar að Zelensky láti af embætti sem forseti og yfirráð þeirra yfir þeim fjórum héruðum sem þeir hafa innlimað – Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia – verði viðurkennd á alþjóðlegum vettvangi.