The Guardian segir að Google muni eyða öllum upplýsingum um þá staði sem notendur þjónustu fyrirtækisins hafa heimsótt. Fyrir ári síðan hét fyrirtækið að draga úr því magni persónulegra upplýsinga notenda, sem það geymir.
„Timeline“ fyrirtækisins, sem hét áður „Location History“ verður enn í boði fyrir þá sem vilja og geta þeir þannig skoðað hvar þeir voru á ákveðnum tíma. En öll gögn varðandi þetta verða vistuð í símum eða tölvum notendanna sjálfra, ekki á netþjónum Google.
Í tölvupósti sem Google sendi notendum Maps, segir að þeir hafi frest til 1. desember næstkomandi til að vista staðsetningarupplýsingar sínar. Eftir það verður þeim eytt fyrir fullt og allt.