Meinti raðmorðinginn Rex Heuermann var leiddur fyrir dóm á miðvikudag í þinghaldi til undirbúnings aðalmeðferðar. Heuermann hefur verið ákærður fyrir að bana fjórum ungum konum fyrir rúmum áratug síðan, en lík kvennanna fundust við Gilgo-ströndina á Long Island.
Aðdáendur bandarískra sakamálaþátta ættu að kannast við útspil sem nú kemur úr herbúðum verjenda Heuermann. Þar sem kviðdómur má aðeins sakfella ef sekt sé hafin yfir skynsamlegan vafa er gjarnan reynt að skapa slíkan vafa með því að færa rök fyrir því að annar aðili beri ábyrgð á glæpnum. Til að slíkar áætlanir gangi upp þarf helst að nefna til sögunnar nafngreindan aðila og færa sannfærandi rök fyrir að sá sé sekur.
Verjendur Heuermann nefna nú til sögunnar fyrrum lögreglustjórans James Burke, sem áður fór fyrir rannsókn Gilgo-morðanna. Burke þessum hefur verið vikið úr starfi og er fallinn í ónáð. Hann er talinn hafa lifað tvöföldu lífi. Þegar hann var ekki á vakt mátti gjarnan finna hann í vafasömum aðstæðum þar sem hann tók inn fíkniefni, keypti vændi og klæddi sig í drag. Hann er sem stendur í fangelsi að afplána dóm fyrir líkamsárás, óspektir á almannafæri og blygðunarsemisbrot.
Einn verjenda Heuermann, Michael Brown segir grunsamlegt að á sínum tíma, skömmu eftir að lík kvennana fundust, hafi lögreglustjórinn meinað alríkislögreglunni að taka þátt í rannsókninni, þrátt fyrir þá sérfræðiþekkingu sem liðsinni þeirra fylgi. Lögreglustjórinn hafi eins verið handtekinn grunaður um brot sem tengist afbrigðilegri kynferðislegri hegðun. Þetta gefi fullt tilefni til að Burke sé skoðaður nánar í tengslum við Gilgo-morðin. Árið 2015 hafi Burke verið handtekinn og fundust í fórum hans myndbönd með viðbjóðslegu myndefni þar sem mátti sjá konur pyntaðar með hrottalegum hætti.
Brown veltir því fyrir sér hvers vegna Burke hélt alríkislögreglunni frá rannsókninni og hvers vegna hann reyndi að fela sönnunargögn. Nýlega hafi Brown og teymi hans fengið afrit af hátt í 3.000 ábendingum sem lögreglu bárust við rannsókn morðanna. Burke sé nafngreindur í mörgum þeirra og sagður viðriðinn morðin. Brown vildi ekki svara því berum orðum hvort Burke yrði kallaður til sem vitni í réttarhöldum Heuermann, en eðli máls samkvæmt kæmi það til greina.
„Að einhverju leyti tel ég Burke hafa grafið undan rannsókninni og hann hleypti FBI ekki að borðinu, þrátt fyrir þeirra sérfræðiþekkingu. Það sem við eru að leita eftir eru gögn FBI og þau minnisblöð rannsóknar þeirra sem tengjast Burke lögreglustjóra. Við bíðum mjög spennt eftir þessum gögnum“
Eins nefndi Brown til sögunnar annan mann, fyrrum lögreglumann sem notaðist við skammstöfunina W.H. Verjendur séu nú að reyna að afla upplýsinga um þann mann. Eitt helsta sönnunargagnið í morðmálunum er belti sem ein hinnar látnu var bundin með. Á beltinu mátti finna skammstöfunina W.H og hefur ákæruvaldið þá kenningu að það komi frá afa Heuermann, William.
Netverjar hafa að sjálfsögðu tapað sér yfir þessari kenningu Brown og félaga. Ef satt reyndist þyrfti að spyrja hvort að Heuermann sé ákærður bara til að bjarga orðspori lögreglu og fela það sem annars yrði varanlegur smánarblettur á stéttinni. Að lögreglustjóri hafi ekki bara verið raðmorðingi heldur eins settur yfir rannsókn á sínum eigin ódæðum sem hann nýtti til að hylma yfir með sjálfum sér. Það sé þó einn galli á meintri gjöf Njarðar.
Verjendur hafi nefnilega ekki enn náð að koma sér með sannfærandi hætti undan stærstu og veigamestu sönnunargögnunum gegn Heuermann. Erfðaefnið. Ef Heuermann er saklaus, hvernig komst erfðaefni úr honum, dóttur hans og eiginkonu á lík hinna látnu? Mögulega var lögreglustjórinn ekki mannanna bestur en erfðaefni ljúgi ekki. Saksóknari virðist í það minnsta litlar áhyggjur hafa af útspilinu. Yfirvöldum sé ljúft og skylt að afhenda gögn FBI og muni verjendur þá sjá svart á hvítu að Burke var rannsakaður niður í öreindir og ekkert benti til tengsla hans við málið.
Verðandi fyrrverandi eiginkona Heuermann mætti í dómsal á miðvikudag. Ása Guðbjörg Ellerup sótti um skilnað fáeinum dögum eftir að maður hennar var handtekinn, en hefur nú ákveðið að fella engan dóm um sekt eiginmanns síns fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Hún trúir þessu ekki upp á hann og ætlar að leggja mat á sönnunargögnin sjálf.
Þó Heuermann sé ákærður fyrir fjögur morð voru fórnarlömbin sem fundust á Gilgo-ströndinni ellefu talsins. Um er að ræða ungar konur í vændisstarfsemi í flestum tilvika en eins fundust líkamsleifar barns og líffræðilegs karlmanns af asískum uppruna, en mögulega var þar um trans konu að ræða. Rannsókn á andláti fórnarlambanna sjö sem Heuermann er ekki ákærður fyrir að bana er enn í fullum gangi.