Ný skoðanakönnun leiddi í ljós að margir sem stunda ræktina klæðast sveittum nærfötunum allt að sex sinnum aftur áður en þeir þvo fötin. Þvotta- og heilsusérfræðingar segja að þvo ætti líkamsræktarfötin eftir hverja notkun.
2.000 manns sem stunda ræktina reglulega svöruðu könnuninni að sögn Daily Mail, og sagðist aðeins helmingur þeirra sem nota íþróttabrjóstahaldara þvo hann eftir æfingu.
Fimmti hver sagðist nota ræktarfötin allt að þrisvar sinnum áður en fötin færu í þvott. Og einn af hverjum tíu sagðist klæðast fötunum allt að sex sinnum áður en þau færu í vélina.
Hversu slæmt er þetta? Ef þú þværð ekki íþróttabrjóstahaldara og önnur nærföt sem notuð eru á æfingu strax á eftir gæti þú átt á hættu að fá ertingu í húð og viðbjóðslegar sýkingar, að sögn sérfræðinga. „Ef þú ert að endurnota ræktarfötin þá lykta þau ekki aðeins af svita, heldur eru þau að geyma bakteríur og þess háttar, óhreinindi, fitu og olíur,“ segir Dr Anthony Rossi, prófessor í húðsjúkdómafræði við Memorial Sloan Kettering í New York. York. Segir hann bakteríur elska vatn og hita og því safnast vel í sveittum ræktarfatnaði.
Heitur sviti veldur því að bakteríur, sveppir og ger á húðinni fjölga sér, sem getur komist í hársekkina og valdið hnúðum og bólum. „ Til viðbótar við bakteríurnar sem lifa á húðinni þinni, þá er fulltaf bakteríum í ræktinni sem þú getur komist í snertingu við,“ segir Rossi.
Í rannsókn sem gerð var árið 2020 af vísindamönnum við háskólasjúkrahúsið í Cleveland Medical fundust vísbendingar um tvenns konar lyfjaónæmar bakteríur og flensuveiru á 25 prósent af öllum líkamsræktarflötum sem greind voru. Fundu þeir meðal annars bakteríu sem lifað getur í ræktarfatnaði í klukkutíma, daga eða vikur. „Ef MRSA bakterían kemst í skurð eða sár getur þú fengið stór, rauð sár á húðina sem fyllast af vessa, að sögn Dr Mark Fisher, lýtalæknis hjá Johns Hopkins.
„Venjulega er hægt að meðhöndla þessar húðsýkingar, en í mjög sjaldgæfum tilfellum, ef þú leitar ekki hjálpar við ástandinu, er mögulegt fyrir bakteríurnar að komast í blóðrásina sem getur valdið alvarlegum sjúkdómi. Ef þú eyðir tíma í búningsklefum, skólum, líkamsræktarstöðvum eða jafnvel fangelsum, vertu mjög varkár til að forðast skurði og rispur, og ef þú færð húðmeiðsli á þessum stöðum þá skaltu þvo meiðslin vandlega.“
Þrátt fyrir þetta segjast aðeins 46% einstaklinga sem svöruðu könnun breska fyrirtækisins Live Football Tickets hafa áhyggjur af tilvist sýkla þegar þeir hugsuðu hvort þeir ættu að þvo nærfötin eftir ræktina. 55% sögðust bara pæla í lyktinni og nota fötin áfram þar til þau væru farin að lykta.