Það er réttur tími til að spila luftgítar og það er rangur tími. Luftgítar á röngum tíma getur verið lífshættulegur og því miður – banvænn.
Slíkt átti sér stað í Minnesota. Þann 21. mars var ungur maður, Brent Keranen, að aka eftir hraðbraut um hábjartan dag. Skyndilega sveigði bifreið hans út af akbrautinni og hafnaði þar á vegfaranda á sjötugsaldri sem lét lífið.
Þegar lögregla yfirheyrði Brent reyndist hann allsgáður, í lagalegum skilning, en í blóði hans mældist áfengi sem þó var undir mörkum. Andlega var hann þó ekki allsgáður í orðsins fyllstu því í útvarpinu heyrði hann lag sem hann elskaði og við það uppörvaðist hann svo að hann gætti ekki að akstrinum. Þess í stað tók hann hendur af stýri til að spila luftgítar með laginu og kom það svo flatt upp á hann þegar loftpúðar bifreiðarinnar sprungu framan í hann. Hann hafði ekki einu sinni tekið eftir því að hann hafði keyrt yfir manneskju.
Brent taldi sér óhætt að taka hendur af stýri enda var hann að nota hraðastilli bifreiðarinnar, sem hann hafði þó stillt nokkuð yfir hámarkshraðanum.
Hann játaði ekki á sig luftgítar fyrr en við síðari skýrslutökur en fyrst sagði hann lögreglu að hann hefði sofnað.
Hann hefur verið ákærður fyrir manndráp, en ákvæði hegningarlaga sem kært er fyrir fjallar um það þegar mannsbani hlýst af saknæmri háttsemi fyrir tilstuðlan ökutækis.