Það sem vísindamennirnir og ferðamennirnir sáu var árás háhyrnings, sem gengur undir nafninu „Starboard“, á um 2,5 metra langan hvíthákarl. Þetta átti sér stað um 400 km austan við Höfðaborg í Suður-Afríku. Það tók háhyrninginn aðeins um tvær mínútur að drepa hvíthákarlinn.
Dr. Primo Micarelli, sjávarlíffræðingur, var meðal þeirra sem urðu vitni að drápinu á hvíthákarlinum. CNN segir að í tilkynningu frá honum komi fram að hann segi árásina vera „ógleymanlega“ en hefur um leið áhyggjur af hvíthákarlsstofninum við Suður-Afríku vegna veiða háhyrninga á þeim. Segir hann að þrátt fyrir þá virðingu og ótta sem hann ber fyrir hvíthákörlum, þá hafi hann vaxandi áhyggjur af jafnvæginu í vistkerfinu við strendurnar.
Micarelli er meðhöfundur að rannsókn um veiði háhyrninga á hvíthákörlum og áhrif veiðinnar á hvíthákarlsstofninn við Suður-Afríku. Rannsóknin hefur verið birt í African Journal of Marine Science.
Í rannsókninni kemur fram að eftir að Starboard hafði drepið hvíthákarlinn hafi náðst mynd af honum með lifur hans í kjaftinum. Það er einmitt lifrinn úr hvíthákörlum sem háhyrningarnir sækja í vegna þess hversu næringarrík hún er. Lifrinn er svo stór að hún er 5% af líkamsþyngd hákarlanna.
Hvíthákarlar eru að meðaltali þrír til fjórir metrar á lengd og vega 680 til 1.100 kg. Til samanburðar er rétt að nefna að háhyrningar vega um 6 tonn og eru 5-9 metra langir.
Í fyrri árásum háhyrninga á hvíthákarla við strendur Suður-Afríku hafa tveir til sex háhyrningar tekið þátt í árásunum og gat það tekið þá allt að tvær klukkustundir að drepa hákarlana.
Það að það tók Starboard aðeins tvær mínútur að drepa hvíthákarlinn getur verið til merkis um að hann sé duglegt og klókt rándýr.
Vísindamenn vita ekki hvaðan háhyrningarnir koma og af hverju þeir byrjuðu að veiða hvíthákarla í hópum og nú einir.
Alison Towner, einn af höfundum rannsóknarinnar, segir að ekki liggi traust gögn fyrir um ástæðurnar en hugsanlega tengist þetta stórum breytingum á vistkerfinu. Ljóst sé að áhrif af völdum manna, til dæmis fiskveiðar og loftslagsbreytingarnar, hafi áhrif á hafið.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndband af þessum atburði.