fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Pressan

14 ára stúlka hvarf sporlaust um miðja nótt – 9 mánuðum síðar kom símtalið sem breytti öllu

Pressan
Laugardaginn 2. desember 2023 22:00

Elizabeth með móður sinni og Mary. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. júní 2002 fór Elizabeth Smart, 14 ára, í rauðu náttfötin sín og lagðist upp í rúmið sitt en því deildi hún með yngri systur sinni Mary Katherine sem var 9 ára. Þetta var búinn að vera langur heitur dagur í Salt Lake City í Utah. Stúlkurnar, sem eru mormónar, báðu bænina sína saman og sofnuðu síðan þétt saman.

Í kolniðamyrkri vaknaði Mary við brak í gólffjölum. Hún nuddaði augun og sá hávaxinn, grannan mann með alskegg standa yfir rúminu. Hann var í síðum kyrtli sem flögraði laus um hann. Hann var með hníf í höndinni.

Mary var viss um að hana væri að dreyma og kreisti augun aftur en það hélt áfram að braka í gólffjölunum. Hún opnaði augun aftur og sá manninn beygja sig yfir Elizabeth sem hrökk upp þegar maðurinn lagði ískaldan hníf að hálsi hennar. „Ekki hljóð. Stattu upp og haltu þig hjá mér. Ég drep systur þína ef þú hlýðir ekki,“ hvæsti maðurinn.

Rúm systranna. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

Mary kreisti augun aftur og lést sofa en á meðan ýtti maðurinn systur hennar út úr herberginu. Elizabeth sem var ekki alveg vöknuð og skildi ekki alveg hvað var að gerast rak tá í dyrakarminn og kveinkaði sér. „Ef það heyrist aftur í þér, drep ég þig,“ hvæsti maðurinn. Mary þekkti röddina, hún hafði heyrt hana áður en kom ekki fyrir sig hverjum hún tilheyrði.

Þetta var upphafið að því sem varð eitt umtalaðasta og ótrúlegasta mannrán sögunnar.

Undarleg athöfn

Um leið og þau voru horfin út úr herberginu spratt Mary upp og fór hljóðlaust að dyrunum. Hún sá manninn ýta Elizabeth eftir löngum ganginum á efri hæðinni. Hún var viss um að hann væri á leið að svefnherbergi eldri bróður hennar og hljóp því aftur upp í rúm og faldi sig undir sænginni. Í næsta herbergi sváfu foreldrar hennar og fjórir bræður og vissu ekki að þau myndu fljótlega vakna upp í sannkallaðri martröð.

Maðurinn neyddi Elizabeth út úr húsinu og dró hann inn í skóginn fyrir aftan það. Þau gengu klukkustundum saman í fjalllendi án þess að segja orð, allt þar til þau komu að einhverskonar búðum. Þar sá hún konu standa og bíða eftir þeim. Hún var líka í kyrtli.

Um leið og konan, sem virtist ekki hafa þvegið sér árum saman, sá Elizabeth hóf hún einhverskonar brúðkaupsathöfn. Konan, sem heitir Wanda Barzee og var 59 ára, var gift skeggjaða manninum, Brian Mitchell 51 árs. Áratugum saman hafði hann heilaþvegið Wanda og gerði hún allt sem hann sagði. Hún var eins og hann, sannfærð um að hann væri útvalinn fulltrúi guðs. Elizabeth vissi ekki að Brian var heimilislaus farandprédikari sem var heltekinn af sálmum og grófu klámi. Hún vissi heldur ekki  hvað hún átti eftir að ganga í gegnum.

Það var undir þessu tjaldi sem Brian beitti Elizabeth hrottalegu ofbeldi. Mynd:Lögreglan

Hún var ofsahrædd og líkami hennar skalf og nötraði. Hún hafði gengið 15 kílómetra í myrkri, aðeins í náttfötunum sínum. Á meðan Wanda söng sálma hugsaði Elizabeth með sér: „Hvað er að gerast?  Er þetta ekki bara martröð? Ef ég verð að giftast þessum manni, hvað gerist þá næst? Hvaða fólk er þetta? Þetta er bara ekki að gerast?“

Tárin streyma niður kinnarnar en Brian og Wanda sýndu enga samúð. Wanda neyddi hana inn í tjald og bað hana um að fara úr náttfötunum. Elizabeth neitaði því en það sagði Wanda: „Gerðu það bara. Annars kemur hann og rífur þau utan af þér.“ Elizabeth fór þá úr þeim og fór í kyrtil sem Wanda lét hana fá. Því næst kom Brian inn í tjaldið og hélt áfram með þessa undarlegu brúðkaupsathöfn með því að leggjast ofan á Elizabeth og nauðga henni. „Nú ertu konan mín,“ sagði hann.

„Hringdu í lögregluna! Hringdu í lögregluna!“

Heima í Salt Lake City var allt í uppnámi. Mary hafði falið sig undir sænginni í tvær klukkustundir áður en hún þorði að hlaupa inn til foreldra sinna. „Elizabeth er horfin. Maður með byssu kom og tók hana,“ sagði hún. Foreldrar hennar, Lois og Ed Smart, voru viss um að hana hefði bara dreymt illa. Þau voru viss um að Elizabeth hefði eins og svo oft áður bara farið í sófann og væri sofandi þar en þar var hún ekki.

Stóll var utan við eldhúsgluggann. Mynd:Lögreglan

Foreldrarnir leituðu í 600 fermetra húsinu en þar voru sjö svefnherbergi og sex  baðherbergi auk annarra rýma. Elizabeth var hvergi að finna en það var ekki fyrr en Lois fór inn í eldhúsið sem hún áttaði sig á að eitthvað var að. Hún hafði opnað eldhúsgluggann kvöldið áður eftir að það brann við við matseldina en það sem vakti athygli hennar var að búið var að fjarlægja flugnanetið. „Þá vissi ég það,“ sagði hún síðar. Utan við gluggann var stóll. „Ég fékk móðursýkiskast. Allir öskruðu. Ég öskraði á Ed: „Hringdu í lögregluna! Hringdu í lögregluna!“ Þetta var hræðileg tilfinning,“ sagði hún síðar.

Flugnanetið sem hafði verið klippt. Mynd:Lögreglan

Leitin að mannræningjanum

Þegar fór að birta var Elizabeth hlekkjuð við tré en hún var aðeins í þunna kyrtlinum. Á sama tíma streymdu lögreglumenn heim til hennar og hófst ein umfangsmesta leit sögunnar í Utah.

Mary var eina vitnið og hún var í áfalli og gat ekki lýst mannræningjanum. Í hvert sinn sem hún ræddi við lögregluna brotnaði hún saman. Hún sagði að maðurinn hafi verið með byssu eða kannski hníf, kannski hafi hann verið í hvítum fötum eða kannski í svörtum. Hún mundi ekki hvort hann var með sítt eða stutt hár og hafði gleymt að hún hafði þekkt röddina.

Ed og Lois ræða við fréttamenn. Mynd:Getty

Ed ræddi við fjölmiðla í þeirri von að einhver myndi sjá Elizabeth og láta lögregluna vita. Bæði hann og lögreglan vissu að með hverri klukkustundinni minnkuðu líkurnar á að Elizabeth myndi finnast heil á húfi.

Margir óttuðust að hún myndi bætast í hóp fjölda barna sem hafði verið rænt og myrt undanfarið ár. Þeirra á meðal voru Danielle van Dam, 7 ára, Samantha Runnion, 5 ára, og Cassandra Williamson, 6 ára, en þau höfðu öll fundist myrt ekki svo löngu áður eftir að þau höfðu verið numin á brott.

Leit skipulögð í júní 2002. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

Fjölmiðlar um allan heim fjölluðu um hvarf Elizabeth og fjölskyldu hennar. Ed var fasteignasali en Lois heimavinnandi. Þau áttu sjö ljóshærð börn. Margir voru heillaðir af óbilandi trú fjölskyldunnar á að Elizabeth væri á lífi.

Á meðan Elizabeth var leitað sat hún hlekkjuð við tré uppi í fjöllunum nærri heimili sínu. Brian sat oft í tjaldinu sínu sem var hulið trjágreinum og mosa. Hann var að skrifa eigin guðspjöll og skoða gróf klámblöð. Hann var sannfærður um að hann gæti talað beint við guð og að guð hefði falið honum það verkefni að eignast margar konur. Hann lét Elizabeth hafa dagbók sem hún átti að skrifa um líðan sína í. Hann var sannfærður um að hún yrði sæl og glöð hjá þeim í búðunum. Hún vissi að Brian myndi lesa allt sem hún skrifaði svo hún skrifaði að henni liði vel og sætti góðri meðferð. En hún kunni frönsku en ekki Brian og með örsmárri skrift skrifaði hún á frönsku: „Ég hata þetta. Ég hata þau. Ég vil komast heim til fjölskyldu minnar.“

Neydd til að drekka áfengi og taka eiturlyf

Brian nauðgaði Elizabeth margoft á hverjum degi og neyddi hana til að drekka áfengi og taka eiturlyf. Með þessu tryggði hann að mótspyrna hennar varð minni. Hún hafði aldrei áður neytt áfengis eða vímuefna og svimi og uppköst herjuðu á hana. Flesta morgna vaknaði hún á grúfu með andlitið ofan í eigin ælu. Hún var enn hlekkjuð við tré. „Í hvert sinn sem ég hélt að ég hefði náð botninum versnaði þetta enn,“ sagði hún síðar.

Dag einn kom Brian hlaupandi út úr tjaldinu og var í uppnámi. „Ég verð að sýna þér þetta, þú verður að sjá þetta,“ sagði hann og dró gróft klámblað upp og benti á nöktu konurnar. „Nú gerum við þetta,“ sagði hann og kastaði sér á Elizabeth og nauðgaði henni enn einu sinni.

Elizabeth var farin að sætta sig við að hún myndi aldrei finnast. Brian sýndi henni öðru hvoru auglýsingar þar sem lýst var eftir henni. „Fólk er hætt að leita að þér. Þú munt aldrei finnast,“ sagði hann hvað eftir annað við hana og hún trúði honum óafvitandi að fjölskyldan hennar, lögreglan, allt mormónasamfélagið í Salt Lake City og fleiri leituðu hennar dag og nótt. Faðir hennar var með daglega fréttamannafundi og skipulagði leitaraðgerðir til að tryggja að fólk myndi ekki gleyma Elizabeth.

Hárkolla sem Elizabeth var látin nota. Mynd:Lögreglan

Elizabeth var sífellt undir áhrifum eiturlyfja og var örmagna eftir að hafa ekki fengið mat né vatn dögum saman. Hún varð sífellt sannfærðari um að hún myndi eiða restinni af lífinu með Brian og Wanda. Þegar hún hafði gefið upp alla von um að fá að fara heim fékk hún leyfi til að ganga um tjaldbúðirnar án hlekkja en Brian og Wanda fylgdust náið með öllum hreyfingum hennar.

Þar sem hún var hætt að veita mótspyrnu tóku þau hana með í bæinn til að stela mat og kaupa fatnað sem hentaði í skóginum. Elizabeth varð að hylja andlit sitt með trefli og sólgleraugum. Hún skildi ekki af hverju af því að hún var sannfærð um að engin leitaði hennar og að öllum stæði á sama um hana. „Heimurinn er ekki tilbúinn fyrir birtuna sem skín úr augum þínum,“ sagði Brian.

Tilkynningin

Þau fóru síðan aftur í bæinn til að stela mat. Þá heyrði Elizabeth rödd hrópa nafn hennar: „Elizabeth? Ertu hérna?,“ hrópaði maður sem var greinilega að leita að henni. Hún áttaði sig á að þetta var frændi hennar en hún sagði ekkert. „Ef þú lætur heyra í þér, drep ég þig,“ sagði Brian við hana.

Þann 9. ágúst 2002 tóku Brian og Wanda hana með á bókasafn í Salt Lake City til að leita að trúarritum. Starfsmaður á bókasafninu veitti þrenningunni athygli enda voru þau öll í kyrtlum. Hún virti Elizabeth vel fyrir sér og bar kennsl á hana enda ótal auglýsingar með myndum af henni uppi um allt. Hún hringdi strax í lögregluna.

Lögreglan hafði fengið mörg þúsund ábendingar og daglega var tilkynnt um Elizabeth en í hvert sinn var í besta falli um einhvern að ræða sem líktist henni lítillega.

Lögreglumaður var sendur á bókasafni, gegn vilja sínum, og gekk að þremenningunum og bað um að fá að sjá andlit stúlkunnar. „Af hverju? Hún er dóttir mín,“ sagði Brian og sagði að andlit hennar væri hulið af trúarlegum ástæðum. Lögreglumaðurinn, sem var leiður á að sinna tilhæfulausum tilkynningum, sætti sig við það og yfirgaf bókasafnið. „Þegar hann fór var það eins og síðasta vonin gengi út um dyrnar,“ sagði Elizabeth síðar.

Elizabeth og Lois hittu George W. Bush nokkrum mánuðum eftir að hún öðlaðist frelsi. Mynd:Getty

Í október 2002 hafði Mary náð sér af mesta áfallinu sem hún hafði orðið fyrir og minni hennar var að hressast. Hún mundi nú að hluta hvernig mannræninginn leit út, hann líktist heimilislausum manni sem foreldrar hennar höfðu fengið til að sinna smáverkum á heimilinu um ári áður en Elizabeth var rænt. Hún mundi að hann kallaði sig „Emmanuel“. Hún náði loks að tengja röddin sem hún heyrði nóttina örlagaríku við hann. „Ég veit að það var hann sem rændi Elizabeth. Ég man eftir röddinni hans,“ sagði hún.

Skömmu síðar birti lögreglan teikningu af „Emmanuel“ og var hún meðal annars sýnd í sjónvarpsþættinum „America‘s Most Wanted“.

Teikningin sem var birt af Brian. Mynd:Getty

Loksins barst símtalið sem lögreglan hafði beðið eftir mánuðum saman. Áhorfandi hringdi og sagðist hafa séð Elizabeth með þessum manni um 30 kílómetrum frá heimili hennar. Annar sagðist vera skyldur „Emmanuel“ og að hann héti í raun Brian Mitchell og væri kvæntur Wanda Barzee. Hann sagði að Brian hefði árum saman búið í tjaldi og væri líklega í fjöllunum nærri Salt Lake City.

Nú fór hringurinn að þrengjast um Brian og Wanda. Nú þurfti bara að finna dvalarstað þeirra í fjöllunum.

„Ég er Elizabeth“

Brian hafði ekki hugmynd um að lögreglan var komin á slóð hans. Hann tók því Wanda og Elizabeth með sér í samkvæmi hjá kunningja sínum. Þær voru báðar með höfuðklæði og slör fyrir andlitinu. Án þess að þær vissu af var ljósmynd tekin af þeim af einum gestanna en hann hafði ekki hugmynd um að á bak við slörið leyndist Elizabeth Smart.

Myndin sem var tekin í samkvæminu.

 

 

 

 

 

 

Þann 12. mars 2003 fóru Brian, Wanda og Elizabeth til Sandy í Utah en bærinn er um 30 kílómetra frá heimili hennar. Þau höfðu verið matarlaus dögum saman í skóginum og fóru því inn á Burger King skyndibitastað til að kaupa ódýran mat. Þau vöktu að vonum athygli því öll voru þau í kyrtlum, með sólgleraugu og silfurgráar hárkollur.

Wanda Barzee. Mynd:Lögreglan

Trvelein Colianni, uppgjafahermaður, var staddur á staðnum og tók sérstaklega eftir að yngsta manneskjan var mjög taugaóstyrk. Hann virti manninn síðan fyrir sér og sá að þetta var maðurinn sem lögreglan hafði birt teikningar af. „Ég gleymi aldrei augnaráði litlu stúlkunnar. Hún var svo hrædd. Maðurinn hélt um úlnlið hennar allan tímann. Það var eitthvað sem passaði ekki,“ sagði hann síðar.

Hann hringdi í neyðarlínuna og skömmu síðar voru fjórir lögreglumenn komnir á vettvang. Elizabeth þvertók fyrir að vera Elizabeth Smar og sagðist heita Esther og væri í bæjarferð með foreldrum sínum. Hún neitaði að taka sólgleraugun af sér og sagðist nýlega hafa farið í augnaðgerð. Lögreglumennirnir sáu að eitthvað mikið var að. „Hjarta hennar sló svo hratt að ég gat næstum séð það í gegnum bringuna á henni,“ sagði einn þeirra síðar.

Brian Mitchell. Mynd:Lögreglan

Lögreglumennirnir fóru með Elizabeth út og um 50 metra neðar í götuna. Þá fyrst þorði hún að segja þeim sannleikann. „Það voru liðnar 30 eða 40 mínútur og við vissum að hún var ekki að segja satt en við vissum að hún hafði gengið í gegnum svo margt að við gátum ekki einu sinni ímyndað okkur það,“ sagði annar lögreglumaður.

Lögreglumennirnir þrýstu hart á hana. „Fyrir fjölskyldu þína, fyrir þig sjálfa, fyrir alla sem hafa leitað þín um allt land. Segðu okkur bara að þú sért Elizabeth Smart,“ sagði lögreglumaður við hana og spurði hana síðan aftur: „Ert þú Elizabeth Smart?“

Hún kinkaði kolli, hendurnar skulfu og hún svaraði: „Ég er Elizabeth.“

Sannkallað helvíti

Brian og Wanda voru handjárnuð og sett inn í lögreglubifreiðar en Elizabeth var í skyndingu flutt á lögreglustöð. Hringt var í foreldra hennar og byrjað að ræða við hana. Foreldrar hennar trúðu ekki eigin eyrum og hlupu út í bíl og óku af stað.

Þegar þau gengu inn á lögreglustöðina höfðu mörg hundruð manns safnast saman utan við hana. Ed sagði við fólkið: „Ég veit ekki hvað hún hefur gengið í gegnum en ég er viss um að það hefi verið sannkallað helvíti.“

Þegar Elizabeth sá föður sinn upplifði hún í fyrsta sinn í níu mánuði öryggistilfinningu.

Hún yfirgaf síðan lögreglustöðina með foreldrum sínum og ljósmyndarar smelltu myndum af þeim í gríð og erg.

Réttarhöldin

Á meðan Elizabeth var að jafna sig og komast aftur inn í rútínu eðlilegs lífs unnu saksóknarar að því að byggja upp mál gegn Brian og Wanda. Stóra spurningin var hvort Brian, sem sagðist vera útvalinn af guði, væri sakhæfur og hægt væri að dæma hann fyrir mannrán og nauðganir.

Í hvert sinn sem hann kom fyrir dóm byrjaði hann að syngja sálma og söng svo hátt að dómarinn varð að víkja honum úr salnum.

Elizabeth Smart. Mynd:Getty

Málið tafðist árum saman því dómari taldi Brian vera veikan á geði og ekki færan um að mæta fyrir dóm. Sálfræðingar voru hins vegar á þeirri skoðun að hann létist bara bara vera veikur á geð til að sleppa við refsingu. Að lokum varð niðurstaðan sú að hann væri sakhæfur og hafi verið það á þeim tíma þegar hann rændi Elizabeth og nauðgaði henni.

Sex árum eftir að hann rændi henni var málið loksins tekið fyrir hjá dómstól í Utah.

Kviðdómur var ekki í neinum vafa um sekt hans og var hann dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi.

Wanda var dæmd í 15 ára fangelsi og til meðferðar á geðsjúkrahúsi. Hún var látin laus úr fangelsi 2018.

Brian þarf ekki að gera sér neinar vonir um að losna úr fangelsi. Hann mun eyða því sem hann á eftir ólifað í Terre Haute öryggisfangelsinu í Indiana.

Elizabeth er gift Matthew Gilmour og þau eiga þrjú börn. Hún hefur skrifað bækur um hryllinginn sem hún gekk í gegnum. Komið fram í heimildarmyndum og kvikmynd.

Byggt á umfjöllun CNN, AP, ABC News, People, AZCentral, NBC News, USA Today og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Pressan
Fyrir 4 dögum

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum