Ekkert hefur spurst til Madeleine síðan 3. maí 2007 þegar hún hvarf úr sumarleyfisíbúð í Ocean Club í Praia da Luz í Portúgal. Brueckner var handtekinn árið 2020 og í kjölfarið hélt saksóknaraembættið blaðamannafund þar sem fram kom að Madeleine væri látin og gengið væri út frá því að hún hefði verið myrt.
Brueckner var á svæðinu þegar Madeleine var numin á brott en hann hefur ekki enn verið formlega ákærður vegna málsins.
Wolters, saksóknari málsins, sagði í samtali við fréttaskýringaþáttinn Panorama á BBC að embættið teldi að Madeleine hefði verið myrt í Portúgal og gerandinn væri títtnefndur Brueckner.
Í þættinum sagði hann að óhugnanleg netsamskipti Brueckner við annan barnaníðing gefi hugsanlega einhverja mynd af því sem gerðist.
Í samskiptunum kom skammstöfunin „MM“ meðal annars fyrir og telur lögregla að hún standi mögulega fyrir nafnið Madeleine McCann. Samskiptin fundust á tölvu Brueckners við annan ónafngreindan barnaníðing.
Í samtalinu talar Brueckner tæpitungulaust um að hann langi að nema litla stúlku á brott, myrða hana og taka það upp. Hann segir svo að hann myndi láta sönnunargögnin hverfa og níðingurinn í samtali Brueckners svarar að bragði: „MM“.
„Þetta gæti verið vísbending. Þetta er mögulega eitt púsl í myndina,“ sagði Wolters í Panorama. Hann vildi ekki fara mjög djúpt ofan í rannsókn málsins en sagði þó að lögregla hefði aðeins einn mann grunaðan og lögregla telji sig vita hvar Madeleine var myrt.
Brueckner afplánar nú sjö ára fangelsisdóm í Odenburg, skammt frá borginni Bremen, í Þýskalandi fyrir kynferðisbrot. Hans bíða fleiri ákærur vegna kynferðisbrota, þar á meðal eru tvö mál sem varða kynferðisbrot gegn börnum. Sem fyrr segir hefur hann ekki verið ákærður vegna Madeleine McCann-málsins en saksóknaraembættið hefur gefið til kynna að ákæra verði mögulega gefin út á næsta ári.