Nikki sagði upp starfi sínu fyrr á þessu ári vegna alvarlegra veikinda sem eiginmaður hennar glímir við. Staðan hjá þeim hjónum er þannig að hann þarf að vera undir eftirliti allan sólarhringinn en til að hafa tekjur ákvað Nikki að athuga hvort hún fyndi hentuga vinnu á netinu sem hún gæti sinnt í fjarvinnu.
Hún segir við ástralska fjölmiðla að hún hafi verið búin að leita lengi en ekkert gengið. Dag einn fékk hún þó áhugaverð skilaboð í gegnum LinkedIn-síðuna frá einstaklingi sem sagðist hafa fullkomið starf fyrir hana. Samskiptin færðust yfir á WhatsApp þar sem maðurinn, sem sagðist heita Alvis, útskýrði starfið fyrir hana.
Maðurinn sagðist vera framkvæmdastjóri hjá markaðsfyrirtækinu DUNE7 og í fyrstu virtist ekkert athugavert vera við fyrirtækið. Eftir að hafa slegið nafninu upp á leitarvél Google sá hún að um var að ræða fyrirtæki í New York sem sannarlega er til. Síðar kom á daginn að svikahrappurinn hafði notað merki og nafn fyrirtækisins í svindlinu.
Alvis sagði að starfið sem Nikki þyrfti að sinna fæli í sér að bæta ímynd ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja á netinu. Hún fengi svo góða þóknun í kjölfarið. Eftir að hafa farið í gegnum stuttan kúrs þar sem Alvis kenndi henni réttu handtökin hófst Nikki handa við að vinna. Eftir að hafa leyst fyrsta verkefnið fékk hún 263 dollara greidda og allt virtist ganga vel.
Í kjölfarið fékk Nikki svo annars konar verkefni þar sem hún þurfti sjálf að leggja pening inn til að klára ákveðin verkefni. Þessu trúði Nikki enda hafði Alvis þegar greitt henni 263 dollara og átti hún von á því að svona virkaði þessi heimur einfaldlega. „Hann sagði að til að græða peninga þyrfti ég að eyða peningum.“
Áður en hún vissi af var hún búin að leggja sem nemur tæpum tveimur milljónum króna á reikning svikahrappsins. Hann bað hana svo að leggja inn milljón í viðbót og þá fengi hún loksins greitt stóra upphæð. Nikki ákvað að ráðfæra sig við systur sína sem sagði augljóst að hún hafði verið svikin.
„Mér leið eins og ég væri svo heimsk,“ segir hún.
Alvis notaði öll trixin í bókinni til að ávinna sér traust Nikki. Hann sagði henni frá hjónabandi sínu og sendi henni myndir af sér með konunni sinni og tveimur börnum – en vitanlega voru þetta myndir sem svikahrappurinn hafði fundið á netinu.
„Ég hafði ekki hugmynd um að eitthvað svona gæti gerst. Það er fólk þarna úti sem situr á ævisparnaðinum mínum og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég næ honum til baka.“
Nikki segist stíga fram svo aðrir lendi ekki í svipuðum sporum og hún. „Þessir svikahrappar leggjast á fólk í viðkvæmri stöðu – fólk sem bráðvantar peninga.“