Leishmaníusýki hefur einkum verið bundin við hitabeltislöndin en nú hefur bandaríska sóttvarnastofnunin, CDC, vakið athygli á málinu.
Í nýrri skýrslu stofnunarinnar kemur fram að Leishmaníusýkin sé orðin landlæg í Bandaríkjunum, einkum suðurríkjunum þar sem loftslag er tiltölulega milt allt árið. Flest tilfellin hafa komið upp í Texas og þá hafa einnig komið upp tilfelli í Arizona og Oklahoma.
Þó nokkur fjöldi fólks hefur greinst með sýkinguna þrátt fyrir að hafa ekki farið út fyrir landsteinana.
Fjallað er um Leishmaníusýki á Vísindavefnum en þar kemur fram að fimmtán tegundir frumdýrsins geti sýkt menn. Sýkingin er oftast bundin við húð en getur einnig lagst á slímhúðir og innri líffæri og er hún þá mun alvarlegri.
Bent er á að leishmaníusýki í húð sé algengasta sýkingin og eru einkenni hennar sárir blettir á húð sem koma fram nokkrum vikum eða mánuðum eftir bit sandflugu.
„Þessi sár gróa á mánuðum eða ári en skilja eftir sig ör. Þessi sýking getur dreift sér, en hvort það gerist fer eftir tegundinni sem sýkir. Sýkingin getur dreifst um húðina og valdið þar stórum skemmdum sem nokkuð erfitt er að meðhöndla. Einkennin minna nokkuð á holdsveiki,“ segir enn fremur í greininni á Vísindavefnum.
Þá kemur fram að sýkingin geti einnig dreift sér í slímhúð og valdið þar vefjaskemmdum, sérstaklega í nefi og munni.
„Alvarlegast er ef sýkingin berst í innri líffæri. Afleiðingar þess eru meðal annars hiti, blóðleysi og stækkun á lifur og milta. Þessi tegund sýkingar getur verið banvæn ef ekkert er að gert,“ segir á Vísindavefnum.