fbpx
Miðvikudagur 17.desember 2025
Pressan

Huldurakarinn frá Pascagoula sem klippti hár saklausra fórnarlamba í skjóli nætur

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 29. september 2023 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sönn sakamál njóta gífurlegra vinsælda meðal fjölmiðla, hlaðvarpsstjórnenda, YouTuber-a og svona mætti áfram telja. Hvers vegna? Erum við afbrigðileg með ógnvekjandi áhuga á óförum annara? Líklega ekki. Eitt það sem gerir okkur mannfólkið einstakt er forvitnin. Þegar við stöndum andspænis ráðgátu þá er það í eðli okkar að vilja vita, hver, hvað, hvenær, hvar og hvers vegna. Hvað sakamálin varðar þá má rekja forvitnina til sjálfsbjargarviðleitni. Ef við skiljum óþokkana betur þá kannski getum við betur varið okkur sjálf og þá sem standa okkur næst.

En ekki öll sönn sakamál eru sköpuð jöfn og sum eru hreinlega eftirminnileg fyrir eitthvað sem engum hefði getað órað fyrir. Víkur þá sögunni að huldurakarann frá Pasacula. Hér er á ferðinni ein furðulegasta glæpasagan frá Bandaríkjunum, en sögusviðið er borgin Pascagoula í Mississippi og árið er 1942.

Þetta ár voru íbúar í smábænum Pascagoula hrelldir af dularfullum karlmanni sem fékk viðurnefnið huldurakarinn í Pascagoula. Hann braust inn á heimili að nóttu til, en ekki til að ræna og rupla, heldur til að klippa hár stúlkna og kvenna, í þeirra óþökk. Hann hvarf svo aftur út í nóttina með ekkert góss nema hárið sem hann hafði rakað.

Fyrstu íbúarnir sem fengu heimsókn frá huldumanninum voru stúlkurnar Mary Evelyn Briggs og Edna Marie Hydel. Þær vöknuðu þó við vondan draum um miðja nótt og sáu karlmann skríða út um gluggann hjá þeim. Mary lýsti manninum sem svo:

„Ég sá útlínur af frekar lágvöxnum feitum manni, sem beygði sig yfir mig með eitthvað sem glampaði í hönd sinni og hann var að fikta í hárinu á mér. Þegar hann sá mig opna augun sagði hann „uss“ … Ég æpti … Hann stökk út um gluggann.“

Eftir að maðurinn var farinn tóku stúlkurnar eftir því að búið var að klippa hár þeirra. Lögregla var í kjölfarið kölluð út með sporhunda til að reyna að rekja slóðir huldumannsins. Svo virtist sem hann hefði farið út um gluggann, síðan farið að skógi nokkrum og þaðan komist undan á hjóli.

Næsta fórnarlamb var hin sex ára gamla Carol Peattie. Hún vaknaði af svefni við hlið tvíburabróður síns og uppgötvaði að einhver hafði klippt hár hennar. Foreldrar hennar fundu fótspor í herbergi hennar sem talið var tilheyra huldurakaranum.

Lögreglustjórinn A. W. Ezell greindi fjölmiðlum frá því að hann botnaði ekkert í málinu. Hvað vakti fyrir þessum furðulega huldumanni sem virtist vera að sækja í sig veðrið þar sem kvartanir bárust þvers og kruss. Til að reyna að upplýsa málið voru boðin vegleg peningaverðlaun fyrir allar vísbendingar sem gætu leitt til handtöku. Eins var sjálfboðaliðum boðið að bera vopn til að vakta bæinn og hafa hendur í hári huldurakarans.

Á þessum tíma var seinni heimsstyrjöldin í hámæli og að fyrirmælum hersins í Bandaríkjunum þurfti bærinn að slökkva á götuljósum að nóttu til. Þetta gerði huldurakaranum kleift að athafna sig í myrkrinu án þess að óttast að til hans sæist. Herinn átti svo eftir að slaka á þessum kröfum til að aðstoða rannsóknina.

Eftirlit á götum úti var hert og lögreglan fékk liðsauka. Ezell sagði við fjölmiðla að nú væri staðan sú að nánast hver einasti karlmaður í bænum væri vopnaður svo óprúttnir aðilar ættu að hafa hægt um sig. Sögur fóru að berast að huldurakarinn hefði einnig herjað á nágrannabæi og voru peningaverðlaunin hækkuð. Fórnarlömbin voru nú orðin minnst tíu, en ekki voru það bara börn sem urðu fyrir barðinu á rakaranum dularfulla. Kona að nafni R. E. Taylor taldi ljóst að draugalegi rakarinn notaði klóróform til að svæfa þolendur sínar og ná af þeim hárinu, en hún hafði verði sofandi í herbergi með bæði eiginmanni sínum og dætrum. „Ég hafði það óljóst á tilfinningunni að eitthvað væri að hreyfast við andlitið á mér. Svo vaknaði ég og var hálfslöpp.“

Engan hafði þó sakað eftir heimsókn frá huldurakaranum, nema kannski andlega eftir hármissinn. Þrjóturinn braust inn með því að skera á vírnet glugga, laumaði sér svo inn, klippti hár, og tók það svo með sér út í nóttina. En víkur þá sögunni að Heidelberg fjölskyldunni.

Inn á heimili þeirra var ráðist á þessum tíma. Terrell og eiginkona hans urðu fyrir barðinu á innbrotsþjófi sem barði þau illa með járnpípu þar sem þau lágu í rúmi sínu. En var þetta huldurakarinn? Þessi innrás var um margt ólík. Eins höfðu heimili orðið fyrir því að einhver braust inn og í stað þess að klippa hár þá virtist þessi innbrotsþrjótur taka fatnað og dreifa á víð og dreif um heimili, sem og diska og bollastell sem hann henti um gólfin.

Gat verið að þetta tengdist allt?

Að lokum ákvað lögregla að láta til skára skíða og maður að nafni William Dolan var handtekinn og ákærður fyrir að reyna að bana Heidelberg hjónunum. Mannshár fundust nærri heimili hans og hann hafði einmitt átt í útistöðum við Heidelberg hjónin nokkru áður. William var þýskur, vel menntaður efnafræðingur. Töldu ýmsir í bænum að William væri í raun vilhallur undir málstað Þjóðverja í stríðinu og hann hefði framið áðurnefnda glæmi til að villa um fyrir hernum og draga úr þeim dár. William hélt þó fram sakleysi sínu og bauðst jafnvel til að gangast undir lygapróf. Hann var dæmdur í 10 ára fangelsi en þó voru ekki allir sannfærðir um að huldurakarinn væri í raun í haldi lögreglu. Hann var ekki sakfelldur fyrir næturklippingarnar og aldrei formlega nafngreindur sem hyldurakarinn. Honum var sleppt úr fangelsi árið 1951 og enn þykir óvíst að hann hafi verið næturrakarinn alræmdi. Í raun er málið því enn óleyst, en hins vegar lentu íbúar þessa smábæjar ekki aftur í því að vera klipptir á meðan þeir sváfu.

Og hvers vegna þessi huldurakari ákvað að fremja þessi brot, það mun líklega aldrei verða upplýst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Karl konungur með tilfinningaþrungna uppfærslu um krabbameinsbaráttuna

Karl konungur með tilfinningaþrungna uppfærslu um krabbameinsbaráttuna
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ráðherrann staðinn að lygum í þinginu – Reyndi að fara undan í flæmingi og flúði svo þingsal

Ráðherrann staðinn að lygum í þinginu – Reyndi að fara undan í flæmingi og flúði svo þingsal
Pressan
Fyrir 1 viku

Faðir varar ungmenni við eftir dauða 13 ára dóttur sinnar

Faðir varar ungmenni við eftir dauða 13 ára dóttur sinnar
Pressan
Fyrir 1 viku

Telur að Weinstein hafi afplánað sinn dóm vegna kynferðisbrota og segist fyrirgefa honum í hneykslanlegu viðtali

Telur að Weinstein hafi afplánað sinn dóm vegna kynferðisbrota og segist fyrirgefa honum í hneykslanlegu viðtali