fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

BBC-skandallinn skiptir fólki í fylkingar – Þjóðþekkti sjónvarpsmaðurinn æfur af reiði á geðdeildinni

Pressan
Fimmtudaginn 13. júlí 2023 11:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur verið fjallað um mál sem tengist ríkisfjölmiðlinum breska, BBC, eftir að það spurðist út að þjóðþekktur starfsmaður þar innanhúss hefði verið ásakaður um að senda ólögráða barni kynferðisleg skilaboð og greiða viðkomandi rúmlega 6 milljónir fyrir kynferðislegt myndefni. Framan af var umræddur aðili ekki nafngreindur sem olli því að flestir starfsmenn miðilsins voru undir grun og miklar vangaveltur áttu sér stað á netheimum.

Bættust svo fleiri ásakanir við og var sjónvarpsmaðurinn sakaður um að ganga hart fram gegn ungmennum á stefnumótaforritum og samfélagsmiðlum, bregðast ókvæða við ef honum var neitað um stefnumót og jafnvel reynt að múta þeim.

Það var svo í gær sem ljóst varð um hvern ræddi þegar Vicky Flind sendi út yfirlýsingu fyrir eiginmann sinn, sjónvarpsmanninn Huw Edwards. Huw er 61 árs að aldri og hefur starfað fyrir BBC í rétt tæpa fjóra áratugi. Hann er meðal virtustu starfsmanna miðilsins og á seinasta ári hafði hann um 75 milljónir í árslaun.

Í yfirlýsingunni í gær sagði að Huw sé sem stendur á sjúkrahúsi þar sem hann mun dvelja um ótilgreindan tíma. Bað hún um frið fyrir fjölskyldu sína og sagðist hafa áhyggjur af andlegri heilsu manns síns. Hann ætli að bregðast við ásökunum þegar heilsa hans leyfi.

Enginn glæpur að mati lögreglu

Nú er ljóst að lögreglan mun ekki taka meint brot Huw til rannsóknar, en að þeirra mati átti enginn glæpur sér stað. BBC mun þó halda áfram rannsókn innanhúss þar sem fullt tillit verði veitt til bæði þeirra sem hafa ásakað Huw sem og til hans sjálfs. BBC hefur legið undir ámæli vegna málsins en fram hefur komið að ungmennið sem fyrst steig fram með sögu sína hafði áður snúið sér til BBC beint en mætt þar tómlæti. Aðeins hafi verið haft samband við fjölskyldu þess tvisvar, þrátt fyrir alvarleika málsins, en foreldrar ungmennisins segja að Huw hafi greitt því fyrir kynferðislegar myndir og það svo notað peningana til að fjármagna neyslu sína. Sökum strangra persónuverndarlaga í Bretlandi var Huw ekki nafngreindur framan af og eins hafa meintir þolendur hans ekki verið nafngreindir og ekki tekið fram hvers kyns þeir eru.

Nú hefur enn bæst í hóp þeirra sem hafa lýst óviðeigandi samskiptum við sjónvarpsmannsins en tveir starfsmenn BBC og einn fyrrum starfsmaður hafa greint frá því að hafa fengið frá honum skilaboð sem hafi verið óþægileg, og kynferðisleg. Eitt þeirra lýsti upplifuninni sem svo að þarna væri valdamikil maður að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart undirmönnum. Starfsfólkið sagðist hafa hikað við að leita með mál sín til yfirmanna af ótta við að slíkt hefði neikvæð áhrif á framtíðarhorfur þeirra í starfi. BBC hefur lýst því yfir að sú afstaða sé miður, það sé stefna miðilsins að halda vel utan um starfsfólk og eigi þeir ekki að  hika við að leita með áhyggjur sínar í viðeigandi ferla. Um sé að ræða flóknar aðstæður og þurfi að stíga varlega til jarðar.

Einkamál eða mál sem varðar almenning?

Þar sem um er að ræða eitt stærsta fréttamálið í Bretlandi þessa stundina hefur BBC óhjákvæmilega fjallað um málið, þó það varði miðilinn með beinum hætti. Bæði almenningur sem og Huw sjálfur hafa þó gagnrýnt nálgun miðilsins, bæði hvað varðar fréttir af málinu sem og viðbrögð stjórnenda við þessu öllu. Fyrrum kollegi Huw segist hafa það frá sjónvarpsmanninum að hann sé æfur af reiði og engan veginn sáttur með vinnustaðinn sinn.

Aðrir hafa stigið fram og lýst áhyggjum af því að valdamestu aðilarnir innan miðilsins haldi verndarvæng yfir Huw. Ljóst sé að ekki sé um viðkvæmt einkamál að ræða þar sem um ríkismiðil sé að ræða og ekki nóg með það heldur manninn sem flytur þjóðinni fréttir þaðan. Hann sé sakaður um lygar, að hafa svikið fjölskyldu sína og kynferðislega misnotað sér ungling með fíknivanda. Þetta sé því mál sem varði almenning. Almenningur virðist þó klofinn enda nýtur Huw mikillar virðingar. Blaðamaður greindi frá því að vegfarandi hafi vikið sér að blaðamönnum sem stóðu fyrir utan höfuðstöðvar BBC í morgun og spurt hvers vegna ekki væri hægt að láta vesalings manninn í friði, en vegfarandi taldi að sparkað væri í liggjandi mann þar sem fram hafi komið að Huw sé á sjúkrahúsi.

Forstjóri BBC verður boðaður fyrir þing í Bretlandi í næstu viku og þarf þar að svara fyrir málið og viðbrögð stjórnenda við því. Fyrrum fréttaritari BBC, Jon Sopel, hefur lýst málinu svo að um sé að ræða ruddalega hegðun sjónvarpsmannsins, en ekki glæp og því sé ekki um neina forsíðufrétt að ræða heldur einkamál.

„Ef það er ekkert sem bendir til saknæmrar háttsemi og þetta varðar bara fréttaþul sem var svolítið ruddalegur við einhvern á stefnumótaforriti, eða hvað sem þetta endar með að vera þegar öll kurl eru komin til grafar, þá er þetta einkamál. Ef þú hefðir hringt í mig og sagt að þú hefðir átt í dónalegum orðaskiptum við fréttaritara BBC og hann væri eitthvað fúll út í þig, þá hefði einhver yppt öxlum. Þetta er ekki forsíðufrétt.“

Málið hefur vakið miklar umræður. En margir fyrrum og núverandi fjölmiðlamenn hafa gagnrýnt hversu mikið hefur verið fjallað um málið og spurt hvort forsvaranlegt sé að fjölmiðlar hnýsist í einkalíf opinberra aðila. Á móti hefur verið bent á þá staðreynd að stjórnendur BBC voru meðvitaðir um ásakanir í garð Huw áður en að fyrstu fréttir bárust, en það hafi verið viðbrögð miðilsins sem leiddu til þess að meintur þolandi leitaði með þetta til götublaðanna. Slíkt gefi fullt erindi til fréttaflutnings enda þurfi að vera ljóst að ríkismiðillinn sé með virka ferla og skýrt verklag hvað varðar ásakanir af þessum garði til starfsmanna. Foreldrar meints þolanda segjast hafa opinberað ásakanirnar til að vernda barn sitt, en það hafi glími við fíknivanda sem greiðslur frá Huw hafi ýtt undir og ljóst að illa hefði geta farið fyrir  ungmenninu.

Huw er nú sem stendur bálreiður á sjúkrabeði sínu, en eftir að málið kom upp þurfti hann að leita sér læknisaðstoðar sökum þunglyndis, en hann hefur glímt við þann sjúkdóm árum saman. Ljóst er að þó lögregla ætli ekkert að aðhafast þá mun mæða á BBC að taka á málinu, einkum þar sem núverandi og fyrrverandi starfsmenn hafa nú opnað sig um reynslu af fréttaþulinum, og sakað hann um að misnota yfirburðastöðu sína hjá miðlinum. Eins er ljóst að margir starfsmenn eru í áfalli vegna málsins sem varði vinnustaðarmenninguna og slíkt gefi fullt tilefni til ítarlegrar rannsóknar og eftir atvikum viðbragða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni
Pressan
Fyrir 3 dögum

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin
Pressan
Fyrir 4 dögum

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli