Hvað gerir fólk þegar ástvinur hverfur upp úr þurru? Það hefur samband við ættingja og vini og finnist ekki viðkomandi er haft samband við lögreglu.
Og það heldur í þá trú að ekkert alvarlegt hafi komið fyrir, ekki slys, sjálfskaði eða jafnvel glæpur.
Fæstum dettur í hug að elskaður fjölskyldumeðlimur, sem kominn er til vits og þroska, láti sig einfaldlega hverfa. Tilhugsunin er of fjarstæðukennd í hugum flestra.
En það er nákvæmlega það sem gerðist hjá Hoagland fjölskyldunni sem bjó í Connecticut í Bandaríkjunum.
Hin (næstum því) fullkomna fjölskylda
Robert Hoagland var fimmtugur, giftur Lori heimilisfræðikennara og saman áttu þau þrjá syni.
Cristopher, 26 ára, var þeirra elstur og var hann fluttur að heiman. Hinn 24 ára gamli Sam og Max, 22 ára bjuggu enn hjá foreldrum sínum.
Fjölskyldan var eins og hver önnur, virtist að mestu hamingjusöm og samheldin.
En yngsti sonurinn var foreldrum sínum höfuðverkur.
Max átti við vímuefnavanda að stríða og hafði farið í meðferð snemma árs 2013.
Robert var matreiðslumeistari og hafði átt eigin veitingastað sem gekk afar vel. Hann seldi þó staðinn og hóf störf á lögfræðiskrifstofu auk þess að afla sér tilskilinna leyfa sem fasteignmatsmaður.
Ástæðan var sú að Robert vildi ekki vera fastur við rekstur veitingastaðarins kvöld og helgar. Hann vildi vera til staðar fyrir son sinn og styðja hann í edrúmennskunni.
Höfðu Robert og Lori einnig ákveðið að fara í nokkra daga göngu með Max um hinn þekkta Appalachian slóða síðsumars þetta sama ár, 2013.
Var hugmyndin að koma Max frá hættum borgarinnar og láta hann njóta útivistar með foreldrum sínum.
Tyrklandsferðin
En áður en að því kæmi fór Lori til Tyrklands í 17 daga í júlí ásamt vinkonum, í ferð sem lengi hafði verið í undirbúningi.
Lori og Robert skiptust daglega á tölvupóstum á meðan Lori var í Tyrklandi.
Nokkrum dögum fyrir heimferð Lori skrifaði Robert konu sinni póst og sagði að tveimur fartölvum hefði verið stolið af heimilinu og grunaði hann Max um að hafa selt þær fyrir eiturlyf.
Hann var miður sín, bað Lori afsökunar að hafa ekki fylgst betur með Max sem harðneitaði þjófnaðinum og nafngreindi einstaklinga sem hann sagði seka.
Síðar kom í ljós að Robert hafði leitað uppi þessa skuggalegu menn og hótað þeim lögreglu.
Lori heyrði ekkert frá manni sínum síðustu dagana sem hún var í Tyrklandi.
Þau höfðu talað sig saman um að hann sækti hana á flugvöllinn þegar hún kæmi heim þann 29. júlí en Robert var hvergi að sjá. Lori marghringdi í mann sinn en símtölin fóru beint í talhólf. Hún gafst upp eftir tvær klukkustundir og tók leigubíl heim.
Báðir bílar fjölskyldunnar voru í heimkeyrslunni. En Robert var ekki heima og hóf Lori að hringja í ættingja og vini.
Allt á sínum stað
Hún komst að því að Robert hafði ekki mætt í vinnu þennan dag. Sími hans var í stofunni, nú batteríislaus, og gleraugu hans við hlið símans. Öll hans lyf, meðal annars nauðsynleg blóðþrýstingslyf, voru ósnert í lyfjaskápnum og vegabréf hans á sínum stað, svo og ferðatöskur og fatnaður Roberts.
Lori fylltist skelfingu og hafði samband við lögreglu.
Það eina sem Lori fann ekki var seðlaveski Roberts og lyklar. Hún fann þó hvort tveggja tíu dögum síðar, undir skrautpúða í stól í svefnherbergi þeirra.
Lögregla komst að því að Robert hafði síðast sést daginn áður en Lori kom heim frá Tyrklandi, þann 28. júlí.
Eftirlitsmyndavélar sýndu að hann tók 600 dollara, eða um 86 þúsund krónur, úr hraðbanka af einum af reikningum fjölskyldunnar, fór á benínstöð og keypti beyglur og kort.
Hann fór því næst heim og snæddi beyglurnar með Max syni þeirra.
Nokkrum klukkustundum síðar sagðist hann ætla að slá grasið og Max sagðist þurfa að skjótast frá. Þeir kvöddust á lóðinni og bar nágrannni vitni um það, Max steig upp í bíl og ók í burtu og Robert hóf að slá grasið.
Nágranninn fór aftur inn til sín og eftir það sá enginn Robert Hoagland. Aftur á móti hafði verið gengið snyrtilega frá sláttuvélinni.
Fjöldi ábendinga
Lögregla byrjaði á að ræða við hina skuggalegu vini Max sem Robert hafði hótað en það kom fljótlega í ljós að þeir höfðu ekkert með hvarfið að gera.
Lori og synirnir voru miður sín og komu fram í fjölmiðlum og grátbáðu hvern þann er hefði upplýsingar um hvarf Roberts að stíga fram.
Fjöldi ábendinga barst en engin þeirra skilaði neinu.
Lori viðurkenndi að það hefði verið spenna í hjónabandinu á tímabili, ekki síst vegna eiturlyfjanotkunar Max, en þau hjón hefðu farið til ráðgjafa og allt hefði verið í himnalagi þegar Robert hvarf.
Þau voru meira að segja farin að huga að eftirlaunaárum sínum.
Elsti sonurinn Christopher sagði upp vinnu sinni í öðru fylki og flutti heim til móður sinnar, henni til stuðnings. Sam flutti aftur á móti að heiman, fór í háskólanám í öðru fylki og Max hélt áfram í sínum vítahring eiturlyfjanotkunar og meðferða.
Og þannig leið ár eftir ár eftir ár og hvergi sást tangur né tetur af Robert Hoagland. Sársauki og söknuður þjáðu Lori og synina.
Lori var þess fullviss um að Robert hefði verið rænt. Smám saman meðtók hún að það væri svo að segja engar líkur á að hann væri á lífi en vonaðist til að líkamsleifar hans fyndust svo hún gæti í það minnsta jarðað eiginmann sinn.
Og sú ósk átti eftir að rætast, þó ekki á þann hátt sem hún hafði ímyndað sér.
Richard King
Tæpum tíu árum síðar, í desember síðastliðinn, hringdi maður nokkur í New York í neyðarlínuna og sagði herbergisfélaga sinn, Richard King, vera meðvitundarlausan og engan púls að finna.
Í ljós kom að King hafði fengið hjartaáfall og látist samstundis. Það var ekkert grunsamlegt við lát hans.
Aftur á móti fundust engin skilríki í fórum hins látna en við nánari leit í íbúð þeirra félaga fundust skjöl falin í svefnherbergi Richard Kings, öll merkt Robert Hoagland.
Í ljós kom að Robert hafði búið undir nafninu Richard King í aðeins 140 kílómetra fjarlægð frá fjölskyldu sinni.
Óskiljanlegt
Elsti sonur hans Christopher sagði í viðtali nú í janúar að hann og fjölskyldan væri enn að reyna að ná áttum, væri þeim óskiljanlegt hvað hefði valdið því að faðir hans lét sig hverfa á þennan hátt.
Sagði hann hjónaband foreldra sinna til 27 ára, þegar Robert hvarf, hafa verið hamingjuríkt, svo og samband hans við syni sína, þótt að vímuefnanotkun Max hafi verið áhyggjuefni.
Robert hefði verið ánægður í starfi, það hefðu engir fjárhagsörðugleikar plagað fjölskylduna og reyndar hafði ekkert í hegðun Roberts bent til annars en hann væri sáttur við guð og menn.
Maðurinn sem bjó með Robert og hringdi til að tilkynna lát hans samþykkti einnig að segja sögu sína í viðtali gegn nafnleynd og er því aðeins nefndur David.
Frásögn Davids
David sagði að í nóvember 2013, fjórum mánuðum eftir hvarf Roberts, hafi hann sett inn auglýsingu á smáauglýsingavefinn Craigslist í leit að einstaklingi til að leigja með sér. David, sem er tónlistarkennari, var nýskilinn og þurfti að greiða háar meðlagsgreiðslu.
Var hann í leit að leigjanda til að létta á útgjöldunum.
Richard King svaraði auglýsingunni. David var óviss í fyrstu enda gat King ekki framvísað neinum skilríkjum. Sagði hann konu sína hafa hent sér á dyr, eftir svo að segja allslausan eftir erfiðan skilnað, og hefði hann gleymt að taka skilríki sín með. Hún hefði skipt um lás og hann hefði því ekki getað sótt þau.
Börn hans væru uppkominn og sýndu engan áhuga á að vera í sambandi við hann.
David leist vel á King, fann til samhygðar með honum, enda sjálfur nýskilinn, og samþykktu þeir að deila húsnæði. Flutti King inn til Davids, með eitt rúm og eina ferðatösku.
King sagðist vera fasteignamatsmaður, sem reyndar var rétt, og fékk hann strax starf sem slíkur í New York.
Djúp og innileg vinátta
David og RIchard King urðu nánir vinir, nánast óaðskiljanlegir. Það var ekkert kynferðislegt við samband þeirra, aðeins djúp og með árunum einlæg vinátta. Þegar David seldi hús sitt og keypti annað árið 2020, flutti King með honum.
David var algjörlega orðlaus yfir að besti vinur hans í tæpan áratug hefði aldrei minnst orði á sitt fyrra líf. King sagði þó vini sínum frá einstaka atburðum í fortíðinni, til að mynda fríum sem fjölskyldan hefði farið í áður en hinn bitri skilnaður varð til þess að fjölskylda hans neitaði að tala við hann.
Hann minntist einnig á að eitt barna hans væri fíkniefnaneytandi og hefði hann misst samband við son sinn fyrir mörgum árum.
Sögurnar af fríunum reyndust réttar en fjölskylda Roberts hafði aldrei afneitað honum og hann hafði aldrei misst samband við Max, svo frásagnir King voru blanda af sannleika og lygi.
„Hann var frábær kokkur og kenndi mér að elda. Hann var gríðarlega fróður og vel lesinn og við töluðum um heima og geima, hlustuðum á klassíska tónlist og tefldum skák.
Ég stóð í þeirri trú að á milli okkar ríkti fullur trúnaður. Það væri ekkert sem við vissum ekki hvor um annan. Eða svo hélt ég,“ sagði David í viðtalinu.
Lét aldrei mynda sig
Richard King lét ekki mikið fyrir sér fara. Hann stóð sig vel í vinnu en var í engu sambandi við vinnufélaga utan vinnustaðar né mætti hann í jólaboð eða annað slíkt. Hann samþykkti, en með semingi þó, að vera með á hópmynd sem tekin var á vinnustað hans.
Er það í eina skiptið í öll þessi ár sem vitað er að hafi verið tekin mynd af Robert/Richard.
Hann fór aldrei á stefnumót svo vitað sé né kom nokkur sála í heimsókn til hans þessi tæpu tíu ár sem þeir David bjuggu saman.
En hann lokaði sig þó ekki alveg af og var til að mynda öflugur sjálfboðaliði við matargerð í skýlum fyrir heimilislausa.
Síðustu sex mánuðina fyrir andlátið hafði David haft áhyggjur af heilsu vinar síns og viljað fara með hann til læknis en King tók það ekki í mál.
Og eins og fyrr segir kom David að vini sínum í desember síðastliðinn og reyndist King látinn.
Ég mun aldrei skilja þetta
David var miður sín yfir að heyra sannleikann og segist ekki skilja hvað kom Robert til að láta sig hverfa, skipta um nafn og hefja nýtt líf.
„Það var ekkert sem benti til að sá Richard sem ég þekkti væri ekki í jafnvægi eða með einhvers konar geðraskanir. Ég skil þetta ekki. Ég mun aldrei skilja þetta en efast ekki um að hann hefur haft sínar ástæður sem hann deildi ekki með neinum.“
Fyrir utan viðtalið við Christopher hafa meðlimir Hoagland fjölskyldunnar neitað að tjá sig og mun Lori vera í miklu áfalli.
Það er enn ekki vitað hvar Robert hélt sig fá því hann hvarf í lok júlí 2013 og þar til hann flutti inn til Davids í nóvember sama ár.
Fleiri spurningar er svör
Rannsókn málsins er formlega lokið en fjölskyldan situr uppi með fleiri spurningar en svör.
Hvað kom Robert til að yfirgefa ástríka fjölskyldu og að því virtist gott líf? Og leggja slíkar þjáningar á sína nánustu?
Vissulega átti yngsti sonur hans við vandamál að stríða en fjöldi foreldra glímir við slíkt hið sama og stóðu þau Lori þétt við bak hvort annars við að veita Max alla mögulega hjálp.
Því miður munu þau aldrei frá svör þar sem Richard er látinn og tók leyndarmál sitt með sér í gröfina.
En Lori fékk þó ósk sína uppfyllta um að fá að jarða mann sinn.