Grunnskóli í Bandaríkjunum stendur í ströngu þessa dagana vegna ásakana um að hafa endað skólaferð á strípibúllu. Atvikið á að hafa átt sér stað þann 16. nóvember síðastliðinn en þá fóru nemendur í hljóðfæranámi í Hart Middle School í Michigan-ríki út að borða eftir ferð á sinfóníutónleika. Nemendurnir fóru og gæddu sér á pizzum á veitingastaðnum Niki’s Pizza en staðurinn er samofin strípibúllunni Niki’s Lounge.
Þar sem ekki var nógu mikið pláss á pizzastaðnum voru nemendurnir færðir yfir á strípibúlluna, að því segir í færslu sem Andrew Weaver, foreldri sem fylgdi börnunum í ferðina fyrir hönd skólans, birti á Facebook. Í færslunni sagði Andrew að nemendurnir hafi fengið að prófa að dansa á súlunum á staðnum en með færslunni fylgdu myndir af nemendunum að leika sér á súlunum.
Skjáskot af færslunni vöktu fljótt athygli á samfélagsmiðlum og í kjölfarið fjölluðu fjölmiðlar um málið. Daily Caller fékk yfirlýsingu frá skólanum í tengslum við málið en í yfirlýsingunni neitar skólinn að hafa farið með nemendurna á veitingastað sem tengist strípibúllu. Í sömu yfirlýsingu segir þó að nemendurnir hafi farið á Niki’s Pizza en staðurinn er, sem fyrr segir, samofinn strípibúllu.
Þá staðfesti eigandi veitingastaðarins og strípibúllunnar að nemendurnir hafi komið þangað og bætti auk þess við að skólinn hafi vitað af því að hópurinn þyrfti að sitja á efri hæðinni sem hýsir strípibúlluna. „Venjulega þegar við erum með hóp af yfir 100 manns þá gefum við þeim möguleikann á að fara upp á efri hæðina, sem er klúbbur á laugardagskvöldum en hann er lokaður á daginn,“ útskýrði Agatha Kefallinos, eigandi Niki’s, í samtali við Daily Caller.
„Við erum búin að gera þetta í 20 ár. Við erum búin að fá fullt af skólahópum og það hefur aldrei verið neitt vandamál.“
Agatha fullyrti þá að súlurnar á staðnum væru ekki fyrir strippara. Hún átti þó erfitt með að útskýra hvert hlutverkið væri hjá þessum súlum en að lokum sagði hún þær vera „hluta af skreytingunum.“