Hræðilegt slys varð í gær í Pauri Garhwal á norður Indlandi er rúta féll ofan í gljúfur. Um 45 til 50 farþegar voru í rútunni en að minnsta kosti 25 þeirra létu lífið í slysinu á meðan 20 aðrir særðust. Samkvæmt Hindustan Times voru börn á meðal þeirra látnu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á svæðinu voru allir farþegar rútunnar í brúðkaupsfögnuði. Lögreglan vann hörðum höndum við að bjarga 21 farþegum rútunanar og fékk aðstoð frá björgunarsveitum og íbúum í nágrenninu.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, segir í færslu sem hann birti á Twitter-síðu sinni í dag að þau sem lentu í slysinu muni fá alla mögulega aðstoð. „Á þessari sorglegu stundu eru hugsanir mínar hjá syrgjandi fjölskyldunum. Ég vona að þau sem særðust nái sér aftur sem fyrst,“ segir hann.
Samkvæmt National missti bílstjóri rútunnar stjórn á henni, rásaði og lenti svo í gljúfrinu. Banaslys í umferðinu eru algeng í Indlandi og skrifast það á glæfraakstur, lélegt viðhald á vegum og hækkandi aldur á ökutækjaflota landsins. Alls deyja yfir 110.000 manns í umferðarslysum á hverju ári á Indlandi.