fbpx
Fimmtudagur 07.júlí 2022
Pressan

Lögreglan var viss um að hafa fundið morðingja stúlknanna – En málið tók óvænta og banvæna stefnu

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 23. janúar 2022 07:00

Claire og Barbara voru myrtar með sex ára millibili á sömu ströndinni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með sex ára millibili fundust tvær ungar stúlkur myrtar á sömu ströndinni í Kaliforníu. Þær tengdust ekki neitt en búið var að veita þeim samskonar áverka á brjóst. Allt benti því til að sami morðinginn hefði verið að verki í báðum tilfellum. En málið tók síðan óvænta og banvæna stefnu.

Kom aldrei aftur heim

Í lok ágúst 1984 var Claire Hough, 14 ára, í heimsókn hjá ömmu sinni og afa í San Diego í Kaliforníu en hún bjó á Rhode Island sem er norðan við New York. Hún fór aldrei aftur heim. 24. ágúst fannst illa farið lík hennar á Torrey Pines ströndinni. Það lá á blóðugu handklæði og við hlið þess lá útvarp, sígarettupakki og skópar. Allt benti til að hún hefði orðið fyrir árás einhvers sem átti leið framhjá fyrir tilviljun. Krufning leiddi í ljós að hún hafði verið kyrkt. Þess utan hafði annað brjóst hennar verið skorið af að hluta og morðinginn hafði veitt henni hræðilega skaða á kynfærin.

Lögreglan náði ekki að leysa morðið sem var keimlíkt öðru morði á sömu strönd árið 1978. Þá var hin 15 ára Barbara Nantais myrt þegar hún var í tjaldútilegu með unnusta sínum. Annað brjóst hennar var skorið af að hluta.

Mál af þessu tagi gleymast ekki og 2012 voru þau bæði tekin til rannsóknar á nýjan leik í þeirri von að með nýjum rannsóknaraðferðum næðist árangur við rannsóknina.

Fundu lífsýni

Lögreglumennirnir fundu það sem þeir leituðu að, héldu þeir. Rannsókn á fatnaði Claire leiddi til þess að lífsýni fannst. DNA-rannsókn á því sýndi að það væri úr Ronald Tatro sem hafði hlotið dóma fyrir kynferðisbrot. Hann hafði látist í slysi ári áður og því var hvorki hægt að yfirheyra hann né sækja til saka. En lögreglan var komin með sönnunargagn sem tengdi hann við annað morðið. En það var ekki hægt að tengja hann við hitt morðið sem allir töldu hafa verið framið af sama manninum.

Lífsýni úr Tatro fundust á öðru líkinu.

Tatro var með skothelda fjarvistarsönnun þegar Barbara var myrt. Hann sat í fangelsi. Lögreglan taldi því að hann hefði myrt Claire 1984 í slagtogi við annan mann, manninn sem hefði myrt Barbara 1978. Það hlaut því að vera maðurinn sem stóð á bak afskornu brjóstin.

Tók óvænta stefnu

En skyndilega tók rannsóknin nýja stefnu. Þrátt fyrir að ekki hefði fundist sæði í leggöngum Hough 1984 var sæðissýni meðal gagna málsins. Rannsókn á því leiddi í ljós að það var úr Kevin Brown sem starfaði við tæknirannsóknir á vegum lögreglunnar þegar morðið á Claire var til rannsóknar 1984.

Á næstu mánuðum beindu lögreglumennirnir orku sinni að því að rannsaka líf Kevin Brown. Reynt var að draga upp mynd af honum. Michael Lambert, sem stýrði rannsókninni, byggði málið upp í kringum ásakanir um að Brown hefði á níunda áratugnum stundað það að taka nektarmyndir af konum, að hann hefði tengst grófri klámframleiðslu og að hann hefði heimsótt strippklúbba. Samstarfskona Brown sagði lögreglumönnunum að henni hefði ekki liðið vel þegar hún þurfti að starfa ein með honum. Hún sagði að hann hefði einu sinni lesið upphátt fyrir hana úr skýrslu um gróft kynferðisofbeldi og lýst skýrslunni sem „fyndinni“.

Þegar Brown var yfirheyrður komust lögreglumennirnir á þá skoðun að hegðun hans og framburður hefðu „beinlínis talað hann inn í málið“. Hann sagði meðal annars að fyrra bragði frá kynnum sínum af konu einni á níunda áratugnum. Hann hélt að hún héti Claire og taldi Brown að hún vildi stunda kynlíf með honum. Hún hafði ekki verið frá Kaliforníu, bara verið í heimsókn. Lögreglumennirnir töldu þetta beina tengingu við Claire Hough. Þegar lygamælir sýndi frávik þegar Brown var spurður hvort hann hefði drepið Claire styrktist grunur þeirra enn frekar.

Claire og Barbara voru myrtar með sex ára millibili á sömu ströndinni.

Það hafði engin áhrif á þá að fólk sem þekkti Brown sagði að viðbrögð hans mætti rekja til þess að hann væri mjög viðkvæmur og þyldi illa að vera sakaður um eitthvað. „Hann var með kvíða og var taugaóstyrkur. Ef maður pressaði á hann gat hann orðið svo stressaður að hann mundi varla hvað hann hét. Lögreglan vissi þetta,“ sagði Rebecca Brown, eiginkona Brown til 20 ára, síðar.

Hún sagði að lögreglan hefði komið og farið af heimili þeirra eins og henni sýndist og hafi lagt hald á fjölda hluta því vitað hafi verið að þetta myndi gera eiginmann hennar órólegan.

Nú var kenning lögreglunnar að Tatro og Brown hefðu kynnst á strippklúbbum snemma á níunda áratugnum en þá voru þeir báðir iðnir við að heimsækja slíka staði. Þeir hafi síðan ákveðið að finna konu saman sem þeir gætu nauðgað og myrt.

Einföld skýring

En það var önnur hugsanleg skýring á af hverju sæði úr Brown var meðal gagna málsins. Vinnufélagar hans sögðu Lambert að á níunda áratugnum, áður en DNA-rannsóknir komu til sögunnar, hafi verið algengt að karlkyns starfsmenn rannsóknarstofa lögreglunnar létu sæðissýni í té til að hafa samanburðarefni við rannsóknir. Brown hafði gert þetta.

Lögreglan taldi að Tatro og Brown hefðu þekkst.

Fram kom hjá þeim að 1984 var venja á rannsóknarstofunni að sýni væru látin standa hlið við hlið á meðan verið var að loftþurrka þau. Það var því hugsanlegt að sýnum hefði verið víxlað, blandast eða mengað hvert annað.

En Lambert lét þetta sig engu skipta. Hann vísaði í framburð Jennifer Shen, yfirmanns rannsóknarstofunnar, sem sagði „útilokað“ að sæði úr Brown hefði getað lent meðal málsgagnanna fyrir mistök. Ástæðan var að Brown hefði aldrei unnið við rannsókn málsins.

Álagið varð of mikið

Í lok október 2014 réði Kevin Brown ekki lengur við álagið sem hvíldi á honum vegna rannsóknar málsins. Þegar eiginkona hans kom heim úr vinnu var hann horfinn. Hann fannst næsta dag tæpan kílómetra frá heimili sínu. Hann hafði hengt sig í tré. Á borðstofuborðinu heima hjá honum lá opin biblía, á opnunni var fjallað um það þegar einhver er saklaus sakaður um eitthvað.

„Þeir ýttu manninum mínum til að taka eigið líf. Kevin var bara góður og elskulegur maður sem hefði aldrei skaðað neinn. Það er óskiljanlegt að þeir hafi getað gert honum þetta,“ sagði Rebecca Brown í kjölfarið.

Málinu var ekki lokið

En málinu var ekki lokið þrátt fyrir að Kevin Brown hefði tekið eigið líf. Rebecca krafðist skýringa á af hverju lögreglan hefði gengið svona harkalega fram gegn honum, ekki síst þar sem fyrrnefnd Jennifer Shen gat alls ekki útilokað að sæði úr Brown hefði fyrir mistök lent meðal gagna málsins en það var þvert á það sem Lambert sagði um framburð Shen.

Tæknimaðurinn sem hafði unnið við Hough-málið gat heldur ekki útilokað að hann hefði notað sæði úr Brown til samanburðar við rannsókn málsins. Þess utan var Brown með fjarvistarsönnun kvöldið sem Barbara var myrt. Lögreglunni hafði heldur ekki tekist að finna neina tengingu eða tengsl á milli Brown og Tatro þrátt fyrir miklar tilraunir.

Rebecca og Kevin Brown.

Rebecca Brown fór með málið fyrir rétt og á síðasta ári voru borgaryfirvöld í San Diego dæmd til að greiða henni 6 milljónir dollara í bætur. Lambert var dæmdur til að greiða 50.000 dollara í bætur fyrir að hafa veitt rangar upplýsingar og meðvitað að hafa horft framhjá þeim möguleika að sæðið úr Brown hefði hafnað meðal málsgagna fyrir slysni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Stjörnufræðingar telja sig hugsanlega hafa numið merki um tilvist vitsmunavera utan jarðarinnar

Stjörnufræðingar telja sig hugsanlega hafa numið merki um tilvist vitsmunavera utan jarðarinnar
Pressan
Fyrir 1 viku

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi
Pressan
Fyrir 1 viku

Læknar voru agndofa þegar þeir sáu hvað var í maga mannsins

Læknar voru agndofa þegar þeir sáu hvað var í maga mannsins
Pressan
Fyrir 1 viku

Fundu áður óþekktan hóp ísbjarna á „ómögulegum“ stað

Fundu áður óþekktan hóp ísbjarna á „ómögulegum“ stað
Pressan
Fyrir 1 viku

Þess vegna áttu ekki að sofa með kveikt á viftu

Þess vegna áttu ekki að sofa með kveikt á viftu
Pressan
Fyrir 1 viku

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum
Pressan
Fyrir 1 viku

Foreldrar hennar neyddu hana til að gefa barnið – 44 árum síðar gerðist svolítið frábært

Foreldrar hennar neyddu hana til að gefa barnið – 44 árum síðar gerðist svolítið frábært
FréttirPressan
Fyrir 1 viku

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu