Blóð hjónanna og kvikmyndastjarnanna Tom Hanks og Ritu Wilson verður notað við rannsóknir til að búa til bóluefni við COVID-19. Today greinir frá þessu.
Tom og Rita voru líklega ein af fyrstu heimsfrægu manneskjunum til að greinast með sjúkdóminn, er þau voru stödd í Ástralíu þar sem Tom var við tökur á kvikmynd. Þau greindu opinberlega frá smitinu, en nú hafa þau náð fullum bata og snúið aftur heim til Los Angeles.
Er þau sneru heim til Bandaríkjanna fóru þau í blóðprufu þar sem að mótefnið við COVID-19 var kannað hjá þeim, til þess að sjá hvort að það myndi hjálpa eitthvað til. Hanks hefur nú greint frá því að blóð þeirra stóðst skoðun og að þau megi gefa það til rannsókna vísindamanna sem berjast í bökkum við að búa til bóluefni.
Hann sagði að þau myndu gefa blóð á allra næstu dögum til þess að vinna að því sem Hanks kallaði Hank-ccine í léttu gríni.