fbpx
Fimmtudagur 16.júlí 2020
Pressan

„Sjúklingur núll“ fyrirlitinn og útskúfaður – Notaði fölsk nöfn – Smitaði fjölmarga

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 28. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kínverskir vísindamenn hafa að undanförnu leitað logandi ljósi að „sjúklingi núll“ í tengslum við COVID-19 faraldurinn. „Sjúklingur núll“ er notað yfir þann einstakling sem fyrstur allra þróar smitandi sjúkdóm með sér og getur þar með smitað frá sér og hrundið faraldri af stað. Hugtakið „sjúklingur núll“ (sjúklingur O) er þó sjálft byggt á misskilningi. Það varð til 1984 í Bandaríkjunum þegar vísindamenn í Kaliforníu sögðu Gaëtan Dugas, sem var lengi talinn vera fyrsta fórnarlamb AIDS, vera „sjúkling O“ þar sem O stóð fyrir „out-of-state“. Bókstafnum var síðan ruglað saman við töluna 0 og síðan hefur almenn verið talað um „sjúkling núll“.

Samkvæmt leyniskjölum sem South China Morning Post komst yfir er talið að COVID-19 faraldurinn hafi brotist út þann 17. nóvember á síðasta ári í Hubei-héraði í Kína. Vísindamenn hafa þrengt hringinn um 10 manns sem koma til greina sem „sjúklingur núll“, mestar líkur eru taldar á að það sé 55 ára karlmaður, úr þessum hópi, sem sé „sjúklingur núll“.

Fyrsti „sjúklingur núll“ sögunnar

Charles Henry Warren, eiginkona hans og þrjú börn þeirra bjuggu á horni McCouns Lane og East Main Street í Oyster Bay, á Long Island við New York, sumarið 1906 en þar hafði fjölskyldan leigt hús um sumarið. Fjölskyldan var vel efnuð en Warren starfaði við ýmsa fjármálagjörninga. Hverfið var hverfi hinna ríku og húsin reisuleg eftir því. Skammt frá heimili fjölskyldunnar var Sagamore Hill sem var sumardvalarstaður Theodores Roosevelt forseta.

Virtist meinlaus Mary Mallon var kokkur.

Hjónin höfðu ráðið hina írsku Mary Mallon, sem var 36 ára, sem kokk á heimilið og óhætt er að segja að hún hafi staðið undir væntingum hvað eldamennsku áhrærði. Gómsætir eftirréttir hennar slógu sérstaklega í gegn hjá fjölskyldunni og þá sérstaklega heimagerður vanilluís með litlum ferskjubitum í. Hann var svo vinsæll að hann var á borðum nánast hvert kvöld.

Föstudaginn 27. ágúst 1906 hafði fjölskyldan þó enga lyst á vanilluís Mary Mallon, það var annað sem átti hug fjölskyldunnar. Yngsta dóttirin, Hazel Warren, hafði verið með háan hita og höfuðverk í nokkra daga en þennan dag fékk hún heiftarlegan niðurgang. Síðdegis skar læknir úr um að hún væri smituð af taugaveiki sem á rætur að rekja til salmonellubaktería.

Næstu daga veiktust eiginkona Warren, Sarah Warren, önnur dóttir þeirra, tvær þjónustustúlkur og garðyrkjumaðurinn af sama afbrigði taugaveiki en mörg afbrigði eru til af sjúkdómnum. Öll lifðu þetta af en þar með er sögunni ekki lokið, langt frá því.

Taugaveiki er mjög hættulegur sjúkdómur sem smitast með bakteríu sem heitir Salmonella ecterica serotýpa typhi að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur að um 20 milljónir manna smitist árlega af taugaveiki og um 600.000 látast. Bakterían berst oftast í gegnum munn, í gegnum mengaðan mat eða drykk sem hefur verið meðhöndlaður af sýktum einstaklingi. Taugaveiki getur einnig smitast með skólpmenguðu vatni eða skelfiski segir á Vísindavefnum. Sjúkdómurinn er ekki algengur á Vesturlöndum en berst öðru hverju þangað með fólki sem hefur verið á svæðum þar sem hann er landlægur en það er í Asíu, Afríku og Mið- og Suður-Ameríku. Sjúkdómurinn er bráðsmitandi og því mikilvægt að rekja slóð hans og finna þann sem kemur hverjum faraldri af stað.

Nýlunda að yfirstéttin smitaðist

Það vakti mikla athygli að hin vel efnum búna Warren-fjölskylda hefði smitast af taugaveiki á sumardvalarstað sínum í Oyster Bay og fréttin breiddist hratt út. Taugaveiki var vel þekkt í Bandaríkjunum á þessum tíma en átti yfirleitt upptök sín þar sem hreinlæti var ábótavant og kom því oft upp í fátækrahverfum. Þetta sama ár kom einmitt slíkur faraldur upp í Philadelphia en þar smituðust tæplega 10.000 manns af sjúkdómnum og um 60 létust. Taugaveiki var einnig algeng í borgarastríðinu frá 1861–1865 en þá létust um 80.000 manns af hennar völdum. Það var því eiginlega mjög órökrétt að Warren-fjölskyldan hefði smitast á lúxussumardvalarstað sínum. Húsið var tekið nákvæmrar skoðunar í leit að uppruna smitsins en án árangurs. Eigandi hússins óttaðist mjög að yfirvöld létu rífa það vegna meintrar smithættu að hann réð George Soper, sem var menntaður í hreinlætisverkfræði með sérstaka áherslu á að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma, til að kafa ofan í málið. Þá tók málið óvænta stefnu.

Soper rannsakaði húsið gaumgæfilega og ræddi við Warren-fjölskylduna og þjónustufólkið til að draga upp heildarmynd af atburðarásinni. Hann komst að því að fjölskyldan hafði þann 4. ágúst ráðið nýjan kokk, Mary Mallon, til starfa. Hún hafði flutt til Bandaríkjanna frá Cookstown á Norður-Írlandi 1883. Fyrstu árin í Bandaríkjunum bjó hún við slæmar aðstæður en fékk síðan vinnu hjá efnuðum fjölskyldum og hafði síðan búið og starfað hjá þeim. Warren-fjölskyldan var mjög ánægð með störf hennar en sagði hana vera frekar inn í sig og ráðríka. Þau höfðu einnig tekið eftir því að hún var ekki þrifalegasti kokkurinn sem þau höfðu haft í vinnu.

Soper beindi sjónum sínum snemma að hinum vinsæla vanilluís sem uppsprettu smitsins því salmonellubakterían lifir ekki suðu eða steikingu af en getur vel lifað í ís. Þetta og sú staðreynd að Mary Mallon lét sig hverfa sporlaust þremur vikum eftir að smit braust út varð til þess að viðvörunarbjöllur hringdu hjá Soper og hann lagði mikla áherslu á að finna hana.

Taugaveikis Mary Fjölmiðlar gáfu kokkinum viðurnefni.

Rannsókn hans leiddi í ljós að árin á undan hafði hún starfað hjá mörgum fjölskyldum þar sem taugaveiki hafði komið upp. Þetta varð til þess að hann útvíkkaði rannsóknina enn frekar og rannsakað jafnharðan öll taugaveikitilfelli sem upp komu. Árið 1907 kom svo vendipunkturinn í rannsókninni. Efnuð fjölskylda, sem bjó við Park Avenue í New York, hafði veikst alvarlega af taugaveiki. Þegar Soper rannsakaði máli komst hann að því að kokkurinn þeirra hét Mary Mallon. Hann flýtti sér strax á staðinn og hitti Mary Mallon. Hún var vægast sagt fjandsamleg og ósamvinnuþýð og þvertók fyrir að vera smituð af taugaveiki og gæti því ekki hafa smitað annað fólk. Þegar Soper kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar fyrir henni brjálaðist hún og tók upp beittan gaffal og hrakti hann út úr eldhúsinu.

Viðbrögð hennar komu Soper mjög á óvart en hann vissi sem var að taugaveiki getur í sumum tilfellum valdið andlegum truflunum. Þar sem Mary Mallon neitað allri samvinnu við hann tilkynnti hann málið til heilbrigðisyfirvalda í New York. Lögreglan var látin sækja hana og hún var sett í einangrun í litlu húsi á vegum Riverside-sjúkrahússins. Húsið var á North Brother Island við New York en þar voru sjúklingar, með smitsjúkdóma á borð við berkla og taugaveiki, vistaðir. Rannsóknir leiddu í ljós að Mary Mallon var smituð af taugaveiki. Smitið var í gallblöðru hennar og vildu læknar fjarlægja hana en því hafnaði Mary.

Rannsóknir leiddu í ljós að hún hafði smitað rúmlega 50 manns af taugaveiki og að minnst fimm af þeim höfðu látist. Hún notaði oft fölsk nöfn og ekki var hægt að kortleggja allar ferðir hennar og dvalarstaði í gegnum árin og því má teljast líklegt að hún hafi smitað miklu fleiri.

Það var ansi sérstakt við Mary Mallon að hún þjáðist ekki sjálf af taugaveiki, var bara smitberi. Talið er að ástæðan sé að þegar hún var barn í Cookstown hafi hún fengið mjög væga taugaveiki og hafi eftir það borið bakteríuna í sér og dreift henni án þess að verða sjálf fyrir áhrifum hennar. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem tókst að finna heilbrigðan smitbera og var Mary Mallon ein fyrsta manneskjan sem kennsl voru borin á sem upphafsaðila (sjúkling núll) í tengslum við stóran faraldur.

„Taugaveiki-Mary“

Fjölmiðlar nefndu hana „Typhoid Mary“ (Taugaveiki-Mary) í umfjöllun um hana, en málið allt vakti mikla athygli fjölmiðla. Hún var mjög ósátt við að vera sett í einangrun og sendi fjölda kvörtunarbréfa til yfirvalda og lýsti skoðunum sínum afdráttarlaust í viðtölum við fjölmiðla. Árið 1909 stefndi hún yfirvöldum og krafðist þess að verða látin laus. Hæstiréttur New York hafnaði þessari kröfu hennar. Árið 1910 féllust yfirvöld á að láta hana lausa úr einangrun gegn því að hún lofaði að hún myndi aldrei aftur starfa sem kokkur.

Aftur dró til tíðinda í kringum Mary árið 1915 þegar taugaveiki braust út á fæðingarheimilinu Sloane á Manhattan. Þar smituðust 25 starfsmenn og einn lést. Kokkurinn á heimilinu var Mary Mallon. Hún var handtekin og aftur sett í einangrun á North Brother Island. Þar eyddi hún næstu 23 árum einmana í einangrun því hún þvertók fyrir að láta fjarlægja gallblöðruna. Hún lést þar 69 ára að aldri af völdum lungnabólgu.

„Sjúklingar núll“ nútímans

Eins og fram kom í inngangi greinarinnar hafa kínverskir vísindamenn þrengt hringinn um þá sem þeir telja koma til greina sem „sjúkling núll“ varðandi útbreiðslu COVID-19. Það er mikilvægt að finna þennan fyrsta smitbera til að auka líkurnar á að finna upptök sjúkdómsins. Kenningar hafa verið uppi um að hann hafi borist í menn úr dýrum og mikilvægt er talið að geta staðfest það.

Sakaður um ljótan leik Gaëtan Dugas.

En víkjum sögunni aftur að Gaëtan Dugas. Hann var fæddur og uppalinn í Quebec í Kanada. Hann starfaði sem flugliði hjá Air Canada, var samkynhneigður og mjög virkur í samfélagi samkynhneigðra. Talið er að hann hafi smitast af HIV í lok áttunda áratugarins en hann lést þann 30. mars 1984 af völdum AIDS. Það sama ár gaf blaðamaðurinn Randy Shilts út bók um hann þar sem hann sagði að Dugas hefði verið fyrsta fórnarlamb AIDS í Bandaríkjunum. Hann dró upp mjög neikvæða mynd af honum og sakaði hann meðal annars um að hafa smitað mörg hundruð karla af AIDS. Shilts staðhæfði að Dugas hefði stundað kynlíf með rúmlega 2.500 karlmönnum. Þessi neikvæða mynd af Shilts loddi við hann allt þar til 2016 þegar fram kom í vísindaskýrslu að hann gæti ekki hafa verið „sjúklingur núll“ og að AIDS hafi verið útbreitt meðal samkynhneigðra karla í Los Angeles og San Francisco frá upphafi áttunda áratugarins. Randy Shilts, sem lést sjálfur af völdum AIDS 1994, baðst síðar afsökunar á þeirri neikvæðu mynd sem hann hafði dregið upp af Dugas.

Sorgarsaga Emile ásamt foreldrum sínum.

Á síðari tímum er ein yngsta manneskjan, sem var skilgreind sem „sjúklingur núll“, tveggja ára drengur, Emile Ouamouno að nafni. Upptök versta ebólufaraldurs sögunnar eru rakin til hans. Faraldurinn braust út 2013 í bænum Meliandou í Gíneu. Þegar hann fjaraði út þremur árum síðar höfðu 29.000 manns smitast og rúmlega 11.000 látist. Talið er að Ouamouno hafi komist í snertingu við þessa hættulegu veiru þegar hann lék sér á svæði þar sem margar leðurblökur voru en þær eru þekktir smitberar.

Byggt á umfjöllun US National Library of Medicine, National Institues of Health, New York Times, CNN og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Pressan
Í gær

Tveir létust þegar maður féll af sjöundu hæð hótels og lenti á manni á gangstéttinni

Tveir létust þegar maður féll af sjöundu hæð hótels og lenti á manni á gangstéttinni
Pressan
Í gær

Hákarl varð 17 ára pilti að bana

Hákarl varð 17 ára pilti að bana
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Kínverjar reyna af öllum mætti að verða eina stórveldi heims, sama hvað það kostar“

„Kínverjar reyna af öllum mætti að verða eina stórveldi heims, sama hvað það kostar“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ósáttir repúblikanar sækja að Trump – „Móðir Rússland þakkar félaga Donald Trump“

Ósáttir repúblikanar sækja að Trump – „Móðir Rússland þakkar félaga Donald Trump“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Giftu sig í miðjum kórónuveirufaraldri – Nú er brúðguminn dáinn og 100 gestir smitaðir

Giftu sig í miðjum kórónuveirufaraldri – Nú er brúðguminn dáinn og 100 gestir smitaðir
Pressan
Fyrir 3 dögum

Christian B. slapp tvisvar fram hjá portúgölsku lögreglunni

Christian B. slapp tvisvar fram hjá portúgölsku lögreglunni