Hinn þekkti breski baráttumaður og Íslamsgagnrýnandi, Tommy Robinson, var í gær settur í ævilangt bann á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram. Er hann sakaður um að dreifa lítilsvirðandi áróðri gegn múslimum og birta skilaboð sem gætu hvatt til ofbeldis gegn múslimum. Í tilkynningu Facebook um þetta eru ekki tilgreind nein dæmi sem styðja þessar ásakanir.
Facebook-síða Tommy Robinson hafði yfir eina milljón fylgjendur og fylgjendur Instagram síðu hans voru nokkur hundruð þúsund. Áður hefur Tommy verið bannaður á Twitter en undanfarið hefur hann mátt þola holskeflu af bönnum og takmörkunum. Amazon hefur nú tekið úr sölu bók hans um Múhammeð spámann og Kóraninn en þá bók skrifaði hann í samvinnu við rannsóknarblaðamanninn Peter McLoughlin en hann nýtur virðingar fyrir bók sína Easy Meat sem fjallar um kynferðisofbeldi pakistanskra glæpagengja gegn ungum stúlkum á Bretlandi. Þar áður rifti greiðslumiðlunin PayPal þjónustu við Tommy sem batt enda á greiðslustreymi styrktarframlaga til hans. Þá hefur Youtube bannað auglýsingabirtingar við myndbönd hans á Youtube sem kemur í veg fyrir að hann geti haft tekjur af þeim en hann hefur enn ekki verið bannaður af Youtube.
Tommy Robinson hefur hvað eftir annað lýst því yfir að unnið sé að því að útrýma honum af samfélagmiðlum og öðrum rafrænum vettvangi og um sé að ræða samantekin ráð íslamskra samtaka, vinstri sinnaðra öfgasamtaka, stórra fjölmiðla og stjórnmálamanna. Á móti kemur að margir hafa áhyggjur af vinsældum efnis hans sem þeir telja að útbreiði hættulegar skoðanir.
Mohammed Shafiq er þekktur íslamskur félagsmálafrömuður sem segist eiga heiðurinn af brotthvarfi Tommy Robinson af Facebook. Shafiq er forstöðumaður áhrifamikillar íslamskrar stofnunar á Bretlandi sem ber heitið Ramadhan Foundation. Segist hann hafa átt lengi í viðræðum við stjórnendur Facebook vegna framgöngu Tommy á samfélagsmiðlinum og nú hafi þær viðræður loks borið árangur.
Bannið á Tommy hefur vakið mjög misjöfn viðbrögð. Fjölmargir múslimar og vinstri sinnað fólk fagnar því en fylgismenn hans sem eru fjölmargir, segja þetta freklegt brot á tjáningarfrelsi og sumir spyrja hvort Íslam sé farið að ráða yfir Facebook. Gerard Batton, formaður stjórnmálaflokksins UKIP, gagnrýnir þetta harðlega en hann er náinn vinur og stuðningsmaður Tommy.
Óþægileg heimildarmynd um BBC
Tímasetningin á banninu er nokkuð sérkennileg þegar haft er í huga að Tommy hefur varla birt stafkrók um múslima og Íslam á Facebook-síðu sinni undanfarnar vikur. Um tíma var þar allhljótt en undanfarið hefur Tommy umfram allt beint spjótum sínum að BBC.
Tommy hafði veður af því að fréttaskýringaþátturinn Panorama á BBC væri með í undirbúningi þátt um sig og bæri verkefnið vinnutitilinn „Tommy Takedown“ eða „Tökum Tommy niður“. Fyrrverandi samstarfsmenn Tommy höfðu samband við hann og sögðu farir sínar ekki sléttar af samskiptum við starfsfólk þáttarins. Tveir fyrrverandi kvikmyndatökumenn hjá Tommy Robinson segja að þeim hafi verið hótað því að uppljóstrað yrði um vandræðaleg atvik varðandi kynlíf þeirra ef þeir stigu ekki fram og töluðu illa um Tommy. Þá voru fyrrverandi starfskonu Tommy, Lucy Brown, sem hann rak með miklum hávaða í fyrra, boðin fimm þúsund pund fyrir að fjalla með neikvæðum hætti um Tommy. Í samráði við sinn fyrri vinnuveitanda fór hún útbúin hljóðupptökubúnaði á fund rannsóknarblaðamannsins John Sweeney sem pantaði handa þeim ógrynni af dýru áfengi á kostnað BBC.
Í heimildarmyndinni „Panodrama“ sem Tommy Robinson hefur nýlega sett á netið eru birt fjölmörg ummæli John Sweeney við Lucy, t.d. að áhugi sé á því að hún ásaki Tommy um kynferðislega áreitni. Þá lætur John Sweeney fjúka vafasaman hommabrandara og talar niður til enskrar alþýðu í samtali þeirra.
Tommy Robinson gagnrýnir líka harkalega að BBC hafi unnið náið með samtökunum Hope Not Hate við gerð þáttarins um hann, sem enn hefur ekki verið sýndur, en hann lýsir þeim sem öfgafullum vinstri sinnuðum samtökum sem hafi gerst sek um að skipuleggja ofbeldi í mótmælagöngum.
Deila má um hvað ávirðingarnar á BBC sem Tommy hefur grafið upp séu alvarlegar en áhugasamir geta horft á heimildarmynd hans í spilaranum hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=oz5pnqu3CsA